Vextir verðtryggðra innlána og útlána
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Guðmundur G. Þórarinsson) :
    Virðulegi forseti. Það er í skugga mikilla átaka við Persaflóa sem þessi fyrirspurnatími hér á Alþingi Íslendinga fer fram og í skugga þess mikla hildarleiks verða nú skyndilæti hversdagsins sum smá hér.
    Ég hef leyft mér að leggja hér fram á þinginu fsp. til hæstv. viðskrh. varðandi útreikningsreglur viðskiptabanka á vöxtum verðtryggðra innlána og útlána. Fsp. hljóðar svo, með leyfi forseta:
 ,,1. Hvernig eru vextir reiknaðir hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum:
    a) af verðtryggðum útlánum,
    b) af verðtryggðum innlánareikningi?
    2. Telur ráðherra ekki nauðsynlegt að viðskiptabankar og sparisjóðir geri almenningi grein fyrir þeim grundvallarmun sem á þessum reiknireglum er?``
    Þannig er mál með vexti að um nokkurt árabil og líklega alveg frá stofnun verðtryggðra innlánareikninga hefur verið munur á því hversu innlánastofnanir reikna vexti innlána og útlána. Ég hygg að þeir séu fáir, jafnvel meðal helstu viðskiptavina innlánastofnananna sem gera sér grein fyrir þeim mun sem þarna er um að ræða. Það er í ljósi þess sem þessi fsp. er borin hér fram á Alþingi og ég tel það eðlilegt og nauðsynlegt að viðskrh. við slíkt tækifæri skýri frá því hér í heyranda hljóði hver munur er á þessum reiknireglum.
    Það hljóta að teljast eðlilegir viðskiptahættir að almenningi sé gerð mjög skýr grein fyrir þeim mun sem þarna er um að ræða, en eins og þingmenn vita eru reglulega birtar skýrslur um vaxtatölur og vaxtareikninga, jafnvel auglýsingar innlánastofnana þar sem ekki kemur skýrt fram að þarna sé um talsverðan mun að ræða.
    Ég held að þó að í eðli sínu kunni að vera dálítill munur á innlánum og útlánum vegna færslufjölda, þá geri nýtískutölvutækni það auðvelt fyrir reiknistofnanir og lánastofnanir að samræma þessar reiknireglur. Mér virðist að um umtalsverðan mun sé að ræða og hann er meiri eftir því sem verðbólga er meiri. Meginþáttur málsins er sá að taki menn að láni umtalsverða upphæð hjá lánastofnun, verðtryggt á ákveðnum vöxtum, leggi hana síðan inn á sömu vöxtum á verðtryggðan innlánareikning, þá dugar að ári liðnu ekki innlánið til að greiða útlánið eða lánið sjálft.