Vextir verðtryggðra innlána og útlána
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 10. þm. Reykv. hefur borið hér fram spurningu um útreikning vaxta í þremur liðum.
    Í fyrsta lagi er spurt: Hvernig eru vextir reiknaðir af verðtryggðum útlánum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum? Svarið er að höfuðstóllinn er hækkaður upp á gjalddaga miðað við þá breytingu sem orðið hefur á vísitölunni frá útgáfudegi eða síðasta gjalddaga og vextir reiknaðir upp á upphækkaðan höfuðstól. Þetta er aðferðin þegar um útlán er að ræða.
    Þá er í öðru lagi spurt hvernig vextir séu reiknaðir af verðtryggðum innlánsreikningum. Svarið er að vextir af slíkum reikningum reiknast í lok mánaðar af lægstu innstæðu mánaðarins og leggjast við höfuðstól um áramót. Hreyfingar innan hvers mánaðar bera sérstakar verðbætur sem einnig hafa verið nefndar í gögnum bankanna vextir innan mánaðar.
    Útreikningur á verðtryggðum innlánsreikningum er eðli málsins samkvæmt mun flóknari en af verðtryggðum lánum. Skýringin á því er tvíþætt: Í fyrsta lagi eru innborganir og útborganir ekki á fyrir fram ákveðnum gjalddögum þegar reikningar eiga í hlut heldur ráða eigendur reikninganna að sjálfsögðu mestu um það. Í öðru lagi er lánskjaravísitalan aðeins reiknuð einu sinni í mánuði, en viðskipti geta átt sér stað hvern dag. Ég ætla ekki að rekja þetta nánar í smáatriðum en get látið hv. fyrirspyrjanda í té nánari upplýsingar um það skriflega og tölulega.
    Það er vissulega rétt að á þessum tveimur aðferðum er örlítill munur. Vextir lána reiknast eins og ég sagði af fulluppfærðum höfuðstól, en vextir innlána af höfuðstólnum eins og hann er í hverjum mánuði. Í lítilli verðbólgu er munurinn alveg hverfandi, en í mikilli verðbólgu er hann nokkur og um það má rekja dæmi. Þessi munur var mönnum ljós þegar verðtryggðir innlánsreikningar voru hér innleiddir árið 1980, en það þótti ekki ástæða til að jafna muninn þar er hann var talinn nokkuð flókið tæknilegt úrlausnarefni. Til þess að jafna hann, ef hann væri og ef menn vildu jafna hann, væri að sjálfsögðu grunnvaxtafóturinn rétta tækið til þess. Um það hlýtur málið að snúast. Hitt er tækni.
    Í þriðja lagi er svo spurt hvort ráðherra telji ekki nauðsynlegt að viðskiptabankar og sparisjóðir geri almenningi grein fyrir þeim grundvallarmun sem á þessum reiknireglum eru. Mitt svar er að sjálfsögðu hiklaust já. Það eiga þeir að gera. Ég tel að það eigi ávallt að gera almenningi grein fyrir hvaða kjörum hann gengur að, hvort sem um innlán eða útlán er að ræða. Í stofnskírteinum verðtryggðra innlánsreikninga kemur skýrt fram hvernig útreikningi vaxta er háttað, en það mundi vissulega ekki skaða þótt í innlánsstofnununum lægju fyrir bæklingar með ítarlegum upplýsingum um þessar reiknireglur og ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda að innlánsstofnanirnar eiga að gera almenningi grein fyrir þeim mun sem er á þessum reglum og ástæðunum fyrir honum. Það þarf neytendavernd á þessu sviði, bæði gagnvart þeim sem eru

að bjóða innlánsreikninga og auglýsa þá af miklu kappi og hinum sem eru að selja skuldabréf og auglýsa af miklu kappi og leggja þá sjaldnast mikla áherslu á hvernig vextir eru reiknaðir.