Vextir verðtryggðra innlána og útlána
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Guðmundur G. Þórarinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. hans svör. Það hefur skýrt komið fram í hans máli að verulegur munur er á reikningsaðferðum verðtryggðra inn - og útlána. Ég held að ég hafi höggvið rétt eftir því að ráðherrann hafi orðað það svo að á þessu væri örlítill munur. Það er rétt ef verðbólga er lítil. En í óðaverðbólgu undanfarinna ára hefur hér verið um nokkuð verulegar tölur að ræða. Mér virðist til að mynda að í 20% verðbólgu séu vextir innlána um 20% lægri í reynd heldur en tölur gefa tilefni til að ætla, ef borið er saman við útlánin. Ég mundi giska á það --- og geri það nú reyndar án ábyrgðar og svona eftir þumalfingursreglu með því að skjóta á heildarinnlán landsmanna og í huganum að reyna að skipta þeim í verðtryggð og óverðtryggð innlán --- að það sé ekki ólíklegt að bankarnir hafi með þessu reiknað sparifjáreigendum um 500 -- 700 millj. kr. lægri vexti á ári heldur en þeim bæri ef reiknað væri á sama hátt og gert er af útlánum. Ég hygg að þegar samandregið er þá sé hér um mjög verulegar upphæðir að ræða sem bætast í reynd við þann vaxtamun sem oft er umdeildur og mörgum þykir of mikill, en þá gera menn sér ekki grein fyrir því hvað þarna er um að ræða.
    Ég hef átt tal við fjölmarga og gert þá könnun að gamni mínu og mér er ljóst að aðeins örfáir gera sér grein fyrir því að þegar innlánastofnun auglýsir vexti --- og nú skulum við bara búa til dæmi --- 6% vexti á láni ef tekið er í bankanum og 5% vexti á innlánareikningi, þá er grundvallarmunur á því hvernig þessir vextir eru reiknaðir og sá munur verður mikill ef um er að ræða verulega verðbólgu. Þessi munur hefur verið minni nú upp á síðkastið.
    Það er rétt sem ráðherra segir að það er mun meiri vinna að færa þessa vexti og reikna þá á reikningum þar sem hreyfingar eru margar. En ég vorkenni nú ekki innlánastofnunum með það öfluga tölvulið og tölvuútbúnað sem þær hafa að gera þetta á sambærilegan hátt og fullyrði að því hefur ekki verið komið til skila nægilega til neytenda að á þessu er mikill munur. Ég fagna því mjög að ráðherra hefur tekið undir það að eðlilegt sé og það sé neytendavernd í sjálfu sér að vekja ítrekaðri athygli á þessu máli.