Skipun í stöðu seðlabankastjóra
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Þann 11. des. sl. lagði ég fram fsp. á þskj. 255 til hæstv. viðskrh. sem hljóðar svo:
 ,,1. Hvenær ætlar ráðherra að skipa í stöðu seðlabankastjóra?
    2. Hvernig verður staðið að undirbúningi í skipan í þá stöðu:
    a) Verður staðan auglýst?
    b) Er gert ráð fyrir að stjórnmálaflokkar tilnefni hver sinn fulltrúa í stöðuna, sbr. tilnefningu af hálfu forustu Sjálfstfl.?
    3. Gilda einhverjar reglur, skráðar eða óskráðar, um að stjórnmálaflokkar eigi rétt á bankastjórastöðum í ríkisviðskiptabönkum og Seðlabanka Íslands?``
    Frá því að þessi fsp. var lögð fram í desember hefur ýmislegt gerst sem svarar að hluta til þessari fsp. En tilefni hennar var frétt í Morgunblaðinu sem birtist laugardaginn 1. des. 1990, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Birgir Ísl. Gunnarsson alþingismaður hefur verið tilnefndur af forustu Sjálfstfl. til að gegna starfi bankastjóra Seðlabanka Íslands.``
    Það var tilkynnt í gær að svo hefði verið gert þannig að það þarf ekki að svara því endilega hér þar sem það hefur komið fram, en tilefnið að þessari fsp. var þessi frétt. Það er kannski helst 3. liður fsp. sem stendur eftir, hvort einhverjar reglur gildi um þetta atriði.
Greinilega var ekki gert ráð fyrir því að stjórnmálaflokkar tilnefni fulltrúa sinn í stöðuna, alla vega ekki allir, því ekki var leitað eftir því við þingflokk Kvennalistans að tilnefna sinn fulltrúa í stöðuna. Ég vil taka það fram að ég tel það ekki eðlilega málsmeðferð að stjórnmálaflokkar tilnefni í slíka stöðu. Fulltrúi Kvennalistans í bankaráði Landsbankans bar fram þá tillögu þar að staða bankastjóra Landsbankans yrði auglýst. Sú tillaga var ekki samþykkt.
    Í Morgunblaðinu þann 29. des., eftir að bankaráð Landsbankans hafði ákveðið hver yrði einn af bankastjórum Landsbankans, birtist þar frétt sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Lúðvík og Friðrik gerðu sérstaka grein fyrir sínu atkvæði og lýstu því yfir að þeir litu þannig á að samkvæmt þeirri hefð sem skapast hefði þá ætti Framsfl. að fá að tilnefna arftaka Vals heitins Arnþórssonar í bankastjórastól og fulltrúar annarra flokka ættu ekki að vera með nein afskipti þar, svo fremi sem viðkomandi væri hæfur til starfans.`` Þetta þóttu mér mjög merkilegar fréttir, að einhverjar ákveðnar reglur giltu þarna og einhverjir ákveðnir flokkar ættu tilkall til ákveðinna embætta bankastjóra. Þess vegna tel ég að þessi fsp., sérstaklega 3. liður hennar, sé í fullu gildi enn. Reyndar hefði ég áhuga á að heyra, ef slíkar reglur eru í gildi, hvaða álit hæstv. viðskrh. hefur á slíkum reglum.