Skipun í stöðu seðlabankastjóra
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Þorsteinn Pálsson :
    Frú forseti. Það er athygli vert þegar svo mikilsvert mál er til umfjöllunar eins og skipan bankastjóra Seðlabanka að það skuli koma fram af hálfu hæstv. fjmrh. að alvarlegur ágreiningur sé innan hæstv. ríkisstjórnar um mál sem þetta. Ekki síst í ljósi þess að hæstv. ríkisstjórn stærir sig gjarnan af því hversu samstaðan sé mikil meðal ráðherranna.
    Mér finnst líka gæta verulegs tvískinnungs í máli hæstv. fjmrh. sem talar hér um nýja tíma í stjórn peningamála og aukið sjálfstæði Seðlabanka. Af hálfu a.m.k. einstakra aðila að núv. hæstv. ríkisstjórn hefur á hinn bóginn verið gengið lengra í því en menn muna að draga úr sjálfstæði Seðlabankans og krefjast þess að ríkisstjórn hafi þar meiri áhrif en áður. Menn minnast umræðunnar um hvernig eigi að ákveða vexti og hvernig a.m.k. talsmenn Alþb. og Framsfl. hafa talið að þar ættu stjórnmálamenn að segja meira um en bankakerfið sjálft og þar á meðal Seðlabankinn. Ítrekaðar tilraunir hafa af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, og sérstaklega þessara tveggja flokka innan hennar, verið gerðar til þess að draga úr sjálfstæði bankans og menn minnast þess nýlega að bankastjórn Seðlabankans var látin biðjast afsökunar á áliti sem hagfræðingar bankans höfðu komist að niðurstöðu um af því að um það þótti rétt að taka pólitískar ákvarðanir. Mér finnst gæta tvískinnungs þegar hæstv. fjmrh. er svo í ljósi þessarar reynslu að setja sig á háan hest og tala um aukið sjálfstæði bankans.
    Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að auka sjálfstæði bankans, ekki aðeins að huga að endurskoðun á stjórnskipun bankans, sem ég tek undir með hæstv. viðskrh. að er nauðsynleg, það þarf líka að huga að breyttu hlutverki bankans þannig að hann verði enn sjálfstæðari við mótun og framkvæmd peningastefnu í landinu.