Skipun í stöðu seðlabankastjóra
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegur forseti. Það er enginn tvískinnungur í afstöðu Alþb. í þessu máli. Fulltrúi flokksins í bankaráðinu lagði fram skýra tillögu um það að stjórnskipulagi bankans yrði breytt í þá átt sem hér hefur verið lýst og síðan ráðnir bankastjórar í samræmi við það. Ráðherrar flokksins fluttu um það tillögu í ríkisstjórn sem því miður fékk ekki stuðning. Hitt er svo algjör tvískinnungur að sá maður sem tilnefndi Birgi Ísleif Gunnarsson sem bankastjóra, hv. þm. Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstfl., skuli koma hér upp og segja að nú eigi að breyta stjórnskipan og efla sjálfstæðan Seðlabanka vegna þess að það vita auðvitað allir að Birgir Ísleifur Gunnarsson mun halda áfram að gegna forustustörfum í Sjálfstfl. Hann er settur inn í bankann til þess að ganga þar erinda stjórnmálastefnu Sjálfstfl. Hann verður væntanlega áfram á framboðslistum Sjálfstfl. eins og fyrirrennari hans, hv. fyrrv. alþm. og ráðherra Geir Hallgrímsson, og er þess vegna settur þarna inn sem erindreki og stefnufulltrúi Sjálfstfl. Það er sá gerningur sem hér hefur verið framinn og þar með er búið að frysta stjórnendur bankans til nokkurra ára þannig að sú breytta stjórnskipan sem menn hafa verið að tala um mun a.m.k. ekki koma til framkvæmda fyrr en eftir allmörg ár.