Smáfiskveiði
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir fsp. frá Birni Val Gíslasyni, varaþingmanni Alþb. í Norðurl. e., sem hann lagði fyrir hæstv. sjútvrh. Fsp. er svohljóðandi:
 ,,1. Hefur sjútvrn. látið Hafrannsóknastofnun kanna áhrif aukinnar smáfiskveiði, vegna tilflutnings á aflakvótum af bátum yfir á togara, á afrakstursgetu ýsu-og þorskstofna?
    2. Ef svo er, hverjar eru niðurstöðurnar?
    3. Ef svo er ekki, hyggst sjútvrh. beita sér fyrir slíkri könnun?``
    Ég tel að þessi fsp. sé lögð fram vegna þess að að undanförnu hefur flutningur á aflakvóta færst frá bátaflotanum yfir á togaraflotann. Sérstaklega hefur þróunin orðið sú að verksmiðjutogaraflotinn hefur stækkað mikið meira en annar hluti fiskiskipaflotans og með því hafi átt sér stað tilfærsla á þann veg að smáfiskaveiði hefur aukist.
    Ég var t.d. á fundi í gærkvöldi þar sem því var haldið fram með nokkuð þungum rökum að togararnir væru að veiða fisk sem væri að meðatali rúmt 1 kg á sama tíma og bátaflotinn færði að landi afla sem væri jafnvel fjórfalt þyngri að meðaltali, allt upp í 4 kg.
    Hér er því verið að leita eftir svari við því hve afrakstursgeta fiskstofnanna muni minnka miðað við þessa þróun og ekki síst ef sú þróun heldur áfram að stærri og stærri hluti af afla þeim sem sóttur er í þessa tvo stofna verði tekinn af togaraflotanum.