Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að bera fram þessa fsp. Eins og kom fram í máli hennar flutti hv. þm. Sigríður Lillý Baldursdóttir ásamt fleirum till. til þál. sem hér var samþykkt um þetta sama málefni. Mér þykir mjög miður að störfum nefndarinnar skuli ekki vera lokið. Ég vil benda á í þessu sambandi að það er ekki eingöngu mikilvægt að taka á réttarstöðu barna sem getin eru með tæknifrjóvgun og aðstandenda þeirra heldur eru fleiri þættir sem verður að taka þar inn í og vona ég að það verði gert. Þar má taka t.d. rannsóknir á fósturvísum og eins eignarrétt á frjóvguðum eggjum. Í Bretlandi t.d. eignast viðkomandi stofnun frosna fósturvísa að tveimur árum liðnum eftir að frjóvgun hefur átt sér stað en fram að því eiga mæður eða viðkomandi aðilar rétt á þeim. Hér eru ekki til neinar reglur um þessi atriði.
    Þegar þessi till. sem ég nefndi var lögð fram á sínum tíma var það ætlun flm. að fyrir Alþingi yrði lagt lagafrv. áður en glasafrjóvganir hæfust hér á landi. Þótti það mjög mikilvægt í ljósi þess hversu áríðandi er að bæði réttarstaða sem og aðrir þættir séu ljósir áður en farið er af stað með slíkt hér á landi.