Kortlagning gróðurlendis Íslands
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Flm. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um kortlagningu á gróðurlendi Íslands. Flm. að þessari till. auk mín eru þeir hv. þm. Jón Helgason, Geir Gunnarsson og Árni Gunnarsson. Till. er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela landbrh. að hlutast til um að gróðurlendi Íslands verði kortlagt.
    Lögð verði áhersla á að upplýsa:
    1. heildarstærð gróinna landsvæða svo að staðfest verði hve mikill hluti landsins er hulinn gróðri,
    2. stærð og mörk þeirra landsvæða þar sem gróðureyðing er ör til að auðvelda markvissar aðgerðir í gróðurvernd og uppgræðslu þeirra,
    3. stærð þeirra landsvæða þar sem gróður á í vök að verjast og friðun telst árangursrík til styrkingar,
    4. stærð ógróinna landsvæða sem hæf eru til landgræðslu en gróa ekki sjálfkrafa.
    Að öðru leyti byggist nánari greining landsins eftir jarðvegi og gróðri á þeim möguleikum sem sú tækni í myndagerð, sem notuð verði við þetta verkefni, framast leyfir.``
    Till. fylgir allítarleg grg. og get ég á margan hátt vitnað til hennar en það má segja að þörfin fyrir þessa till. og aðgerðir á þeim grundvelli sem hún gerir ráð fyrir sé einkum brýn vegna samþykktar á þáltill. sem afgreidd var á Alþingi 19. mars 1990. En þar er kveðið á um að gert verði markvisst átak í því að stofna til aðgerða til að stöðva eyðingu jarðvegs og gróðurs á Íslandi nú á þessari öld. Til grundvallar við það verkefni verði lagt að úttekt verði gerð á gróðurfarslegum aðstæðum í landinu svo að með markvissum hætti verði hægt að vinna að þessum störfum.
    Hér er í rauninni um fjórðu landgræðsluáætlunina að ræða, en þær þrjár fyrri, sem þegar er lokið, hafa grundvallast á tiltekinni fjárhæð og síðan leitast við að haga vinnubrögðum með þeim hætti í landgræðslumálum að bestum árangri skilaði.
    Hér er hins vegar lagt til að meta stærð þessa verkefnis, kostnað þess og annan framgangsmáta og síðan á grundvelli þess að gera áætlun sem miðist við að ná tilsettum árangri á u.þ.b. 10 næstu árum.
    Hér kemur hins vegar meira til og það má segja að áhugi hjá mér varðandi þetta málefni á þessum grundvelli hafi vaknað fyrir tæpu einu ári síðan þegar fyrir lá að Landmælingar Íslands og Raunvísindastofnun Háskólans höfðu lokið við gerð jarðfræðikorts af Íslandi, en slíkt kort hafði ekki verið unnið frá því um síðustu aldamót, þegar Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur gerði slíkt kort. Og með því að þar var að stórum hluta byggt á nýrri tækni í sambandi við notkun á gervitunglum þá sá ég að þarna var auðfengin leið fyrir okkur á sviði gróðurrannsókna og annarra slíkra nota.
    Það kannast nú sjálfsagt allir hv. alþm. við það að um þessi efni hefur farið fram mikil umræða og ýmsar tölur í þessum efnum verið settar fram og ekki hafa bændum landsins í þeirri umræðu verið sérstaklega vandaðar kveðjurnar. Það má segja að það sé líka

eitt tilefnið að þessum tillöguflutningi að það verði á grundvelli þeirra vinnubragða sem þar er lagt til gert út um það hvernig gróðurfarið er í landinu og hverjar séu ástæður fyrir því þannig að ekki þurfi að ganga á milli fólksins í landinu sífelld klögumál um þau efni.
    Það er því vissulega víðtækur tilgangur sem liggur að baki flutningi þessarar till. en það er að sjálfsögðu ekki vansalaust hvað íslenska þjóðin er illa upplýst um þessi efni eins og reyndar mörg önnur í náttúrufarslegu tilliti og væri mikil þörf að hyggja betur að þeim efnum heldur en gert hefur verið.
    Það er nauðsynlegt að fara örfáum orðum um það hvert ástandið er í þessum efnum hér á landi og hvaða árangur kann að felast í þeim kosti sem hér er sérstaklega tilgreindur. Vil ég í því sambandi fyrst minna á að árið 1974 var haldin ráðstefna að tilhlutan verkfræði- og raunvísindadeildar Háskóla Íslands, Raunvísindastofnunar Háskólans og Rannsóknaráðs ríkisins um hagnýtt gildi fjarkönnunar fyrir Íslendinga. Þessi ráðstefna stóð í fjóra daga og hana sótti mikill fjöldi vísindamanna og áhugamanna um þessi efni.
    Í upphafi ályktunar ráðstefnunnar segir: ,,Ráðstefna sú um fjarkönnun sem haldin var í Norræna húsinu 9. -- 12. sept. 1974 leiddi greinilega í ljós mikla þýðingu fjarkönnunar fyrir undirstöðu- og hagnýtar rannsóknir og nýtingu íslenskra náttúruauðlinda.``
    Strax árið 1974 komust menn að niðurstöðu um það að hér væri um gagnlega tækni að ræða á þessum vettvangi og þátttakendum í þessari ráðstefnu er raðað hér á lista og telja þeir marga tugi manna.
    En þrátt fyrir þetta gerðist lítið í þessum málum. Árið 1985 birtist greinargerð starfshóps Rannsóknaráðs ríkisins sem út af fyrir sig er afar eftirtektarverð, ekki síst í ljósi þeirra miklu yfirlýsinga sem fyrir lágu eftir þá ráðstefnu sem haldin var árið 1974 og ég hef hér tilgreint. En þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: ,,Enn sem komið er gegnir fjarkönnun úr gervihnöttum litlu hlutverki í íslenskum rannsóknum. Verður í því sambandi ekki hjá því komist að láta í ljós það álit starfshópsins að Rannsóknaráð ríkisins hafi lítið sem ekkert gert til að hrinda í framkvæmd tillögum fjarkönnunarnefndar frá árinu 1976. Á ráðið því talsverða sök á því að ekki hefur miðað betur á þessu sviði. Ljóst er að fjarkönnun úr flugvélum og gervihnöttum getur gegnt veigamiklu hlutverki í íslenskum rannsóknum. Það verður þó ekki fyrr en átak hefur verið gert til að skapa íslenskum vísindamönnum lágmarksaðstöðu til úrvinnslu slíkra gagna.``
    Í þessu áliti koma fram margar tilvitnanir og áherslur, sem tími minn leyfir nú ekki að ég fari hér rækilega yfir, sem sýna með skýrum hætti fram á gagnsemi þessarar tækni og hvaða not megi af henni hafa, m.a. til þess að meta gróðurfarið í landinu.
    Ég get heldur ekki stillt mig að geta þess hér aðeins að á forsíðu Náttúrufræðingsins frá árinu 1987 er einmitt sýnd mynd sem tekin hefur verið af gervitungli og inni í heftinu er vitnað til bréfs sem Kolbeinn Árnason jarðeðlisfræðingur ritaði með myndinni um leið og hann leyfði birtingu hennar. Í því bréfi segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Uppblásturssvæði koma fram á myndinni sem grágrænir flekkir. Hólssandur er þeirra stærstur og nær frá Sandvatni norður undir Bæjarfjall. Austan Kröflu er annað uppblásturssvæði og klofnar það um fjallið Björn.``
    Ég hygg að þær tilvitnanir sem hér eru tilgreindar sýni það með ótvíræðum hætti hvaða tækni hér er á ferðinni og hersu þýðingarmikið er fyrir okkur að taka hana í notkun, m.a. til þess að meta gróðurfarið í landinu.
    Það má hins vegar segja að meginskýringin í þessum tillöguflutningi komi fram í umsögn Landmælinga Íslands sem fylgir sem fskj. og þessi tillöguflutningur er að sjálfsögðu í grundvallaratriðum byggður á. En þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: ,,Ný tækni við stafræna vinnslu gervitunglamynda hefur aukið verulega möguleika á rannsóknum á ýmsum sviðum. Sú þróun hefur orðið á síðustu árum að tæki og hugbúnaður til stafrænnar myndvinnslu hefur stöðugt verið að lækka í verði og verða aðgengilegri til notkunar. Notkunargildi myndanna hefur einnig aukist með tilkomu nýrra tækja í gervitunglunum sem skila skýrari myndum.``
    Fleiri tilvitnanir eru hér í þessu fskj. sem hv. þm. hafa að sjálfsögðu greiðan aðgang að að kynna sér.
    Tíma mínum er nú lokið hér að þessu sinni og mun ég þess vegna ljúka máli mínu, en væntanlega gefst mér kostur á að skýra þetta mál betur í síðari hluta þessarar umræðu.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til síðari umr. og atvmn.