Kortlagning gróðurlendis Íslands
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Málmfríður Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins ítreka það sem kom fram í máli síðasta ræðumanns. Við kvennalistakonur styðjum heils hugar þá hugmynd sem þessi till. lýsir.
    Það er mjög mikilvægt að nýta þá tækni sem fyrir hendi er nú til að kortleggja gróðurlendið. Með þessari tækni tekur það miklu skemmri tíma og auðveldar mjög að ganga að landgræðslu, landvernd og landgæslu með skipulegum hætti sem er eitt mesta nauðsynjamál sem í höndum þjóðarinnar allrar er nú á þessum tíma. Þessi till. er nátengd till. sem samþykkt var í mars sl., að gera áætlun um aðgerðir sem stöðva eyðingu jarðvegs og gróðurs. Og það er í rauninni fyrsta aðgerð að gera kort af landinu sem sýnir hvar við erum á vegi stödd.
    Þau markmið sem eru höfð í huga við þessa gróðurkortagerð eru eins og stendur í grg.: Flokkun landsins í fjóra aðalflokka, gróið land og ógróið land sem hægt er að græða og það land sem er að eyðast og auðnir, og síðan að skipta grónu landi í flokka eftir gróðri og jarðvegi að því marki sem unnt er. Eigi að vera unnt að vinna að landgræðslu í stórum stíl og með nútímalegum hætti er nauðsynlegt að þessi flokkun sé fyrir hendi. Menn verða að vita eðli og umfang meinsins til þess að finna þær lækningaraðferðir sem við eiga í hverju tilviki og á hverjum stað.
    Kvennalistakonur styðja heils hugar þær hugmyndir sem eru að baki þessarar till., svo og hverja þá aðgerð sem stuðlar að endurheimt og aukningu gróðurs á landinu og leggja áherslu á nauðsyn samvinnu allra aðila sem geta lagt því máli lið.