Kortlagning gróðurlendis Íslands
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Flm. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hlýt að þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram um till. okkar fjórmenninganna og ég minni á að það voru menn úr öllum þingflokkum sem fluttu landgræðslutillöguna sem samþykkt var í mars sl. og að flm. að þessari tillögu eru að stofni til gamla landgræðslunefndin.
    Ég átti vissulega von á því að fram kæmu einhverjar efasemdir um gagnsemi þessarar till. Reyndar bjóst ég við að þær yrðu meiri heldur en raun ber vitni í þessari umræðu því að undirtektirnar voru jákvæðar.
    Ég hlýt líka að taka undir það og fagna því að auðvitað er þýðingarmikið að gott samstarf geti orðið um svona hluti. Sannleikurinn er nú sá að það er oft sem verkefnum í okkar þjóðfélagi er dreift of mikið. Löggjafinn hefur ákveðið það hver eigi að fara með þessi mál og vinna þessi mál. Það eru Landmælingar Íslands. Ég held að það sé mjög bagalegt að þeirri starfsemi hafi ekki verið gefið betra ráðrúm og hún hafi á umliðnum árum ekki fengið meiri stuðning heldur en raun ber vitni um. Ég er sannfærður um að það skynsamlegasta í þessum efnum væri að a.m.k. slík tækni sem þessi, fjarkönnunartæknin, sé á einum stað. Það er bæði virkast og ódýrast.
    Það hefur komið upp sá misskilningur í sambandi við umræðu um þessa till., þó að það hafi nú ekki verið áberandi hér, að hér væri verið að seilast inn á svið annarra og þá sérstaklega Rannsóknastofnunar
landbúnaðarins en hún hefur um áratuga skeið annast gróðurmælingar. Þetta er að sjálfsögðu mikill misskilningur. Og eins og fram kom hjá hæstv. umhvrh. þá er þar um allt annað mál að ræða. Grunnkortagerðin sem verið er að tala um núna, og í mörg undanfarin ár hefur verið á næsta leiti að því er okkur hefur verið sagt sem höfum verið í þessum málum, hún kostar hundruð millj. kr., kannski meira en einn milljarð, hver veit. Og hvað eigum við að bíða lengi eftir slíku þegar við getum fengið úttekt á gróðurfari landsins og jarðveginum með miklu, miklu minni kostnaði eins og fram kemur í nál.?
    Þessi till. og þau verkefni sem hún kveður á um er þannig ekki í samkeppni við nokkurn annan aðila. Hún leggur það eitt til að jarðvegur og gróður verði kortlagður í þessu landi og fengnar verði trúverðugar niðurstöður um það hvert ástand hans er.
    Í máli tveggja ræðumanna bar á efasemdum um gagnsemi myndagerðar í þeim stærðarmæli sem hér er gert ráð fyrir. Ég var búinn að afla mér upplýsinga um það hvernig svona verkefni hafa gengið fram meðal annarra þjóða. Það er afar þýðingarmikið að fyrir liggur reynsla um þessi efni. Ég ætla í þessum efnum að láta nægja að vitna í eina heimild yfir slíka vinnu, en þar er um að ræða plagg sem sænska geimrannsóknastofnunin hefur gefið út í sérstökum upplýsingabæklingi. Þetta plagg nær yfir 12 mánaða tímabil eða lýsingu á því, frá apríl 1987 til apríl 1988. Ekki er nú lengra um liðið heldur en þessi tvö ár. En þá vann sænska geimrannsóknastofnunin SSC að náttúrufarslegri úttekt á Filippseyjum með upplýsingum sem fengnar voru frá Spot - gervitunglinu. Verkefnið var hið fyrsta sinnar tegundar í heiminum að því leyti að það náði til heils lands sem nær yfir 300 þús. ferkílómetra og það er eins og við vitum um þreföld stærð landsins. Og þar sem fjallað er um rannsóknir á uppblæstri segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Uppblástursmælingar með gervitunglum. Með því að skoða og greina gervitunglamyndir sem skerptar hafa verið í tölvum og bera niðurstöðurnar saman við upplýsingar sem fengnar eru á jörðu niðri og aðrar upplýsingar má teikna uppblásturskort með mælikvarða frá 1:250.000 í 1:25.000 þar sem fram koma uppblástursskilyrði og merki um uppblástur, veðrunarbreytingar á tilteknu tímabili, áhættusvæði.
    Á grundvelli slíkra korta má gera áætlanir um landnýtingu og landvernd.``
    Þetta er umsögn um fyrsta verkefnið sem var unnið af þessum toga í heiminum og náði yfir heilt land og auðvitað gildir nákvæmlega það sama um þau verkefni sem bíða okkar hér, fari svo að þessi till. verði samþykkt og eftir henni verði unnið.
    Ég orðlengi þetta svo ekki frekar, virðulegi forseti, og læt máli mínu lokið.