Fjárveitingar til fræðsluskrifstofa
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Flm. (Málmfríður Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera fram hér á þskj. 254 till. til þál. um fjárveitingu til fræðsluskrifstofa. Flm. með mér eru aðrar þingkonur Kvennalistans. Þáltill. hljóðar þannig, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að beina þeirri áskorun til menntmrh. að því fjármagni, sem veitt er á fjárlögum hverju sinni til grunnskóla í fræðsluumdæmum landsins, verði ráðstafað beint til fræðsluskrifstofa hvers umdæmis um sig sem síðan sjá um að útdeila og ábyrgjast fjárveitinguna hver í sínu umdæmi.``
    Íslendingar eru þjóð sem á sameiginlega menningu, arfleifð og sögu. Óvíða er það brýnna en á Íslandi að þjóðin tapi ekki vitundinni um hvað gerir hana að þjóð og vitundinni um mikilvægi þess fyrir sjálfstæði hennar að hún varðveiti menningu sína og tungu. Vegna fámennis er ábyrgð og frumkvæði hvers og eins mikilvægt. Menning er lifandi og breytileg en ekki kyrrstæð frekar en lífið og þarfnast því stöðugrar endurnýjunar og aðhlynningar. Slíkt verður ekki tryggt með valdboði eða miðstýringu og er því óvíða meiri þörf á valddreifingu heldur en hvað varðar menntastofnanir og menningu yfirleitt.
    Grunnskólum landsins er ætlað það hlutverk að leggja grunn að menntun landsins barna og í leiðinni að veita þeim undirstöðuþekkingu á menningu þjóðarinnar og efla vitund þeirra um að þau séu arftakar fornrar menningar og þátttakendur og gerendur í þeirri menningu sem skapast á hverjum tíma. Þetta er mikið hlutverk og mikilvægt að búa vel að skólunum til að þeir ræki það svo sem þeir best geta. Visst aðhald en um leið visst frelsi er brýnt nauðsynjamál í þeim efnum.
    Um allmörg undanfarin ár hefur miðstýring samfélags okkar farið sívaxandi og það í þeim mæli að margir hafa áhyggjur af. Sú krafa verður nú æ háværari að stefna beri að því að færa völd, verkefni og ábyrgð til sveitarstjórna og landshluta enn frekar en orðið er. Mönnum þykir að sú skipan mála tryggi betur lýðræðislega stjórnun og efli sveitarfélögin og betra sé öllum landslýð að ákvarðanir séu teknar sem næst fólkinu sjálfu af þeim sem best þekkja til staðhátta, þarfa og innri mála á hverjum stað.
    Sama máli gegnir með ýmsar ríkisstofnanir. Sú skoðun vinnur sér nú æ meira fylgi að rétt sé að ríkisstofnanir séu fluttar af höfuðborgarsvæðinu út um land eða a.m.k. deildir eða útibú frá þeim. Stjórnvöld hafa sýnt vilja sinn í þessum efnum, sbr. Skógrækt ríkisins, sem flutt hefur verið að Hallormsstað, og útibú Byggðastofnunar og Húsnæðisstofnunar á Akureyri og Ísafirði.
    Það er einnig mat margra, enda vaxandi krafa, að það fé, sem stofnunum er ætlað á fjárlögum hvers árs, eigi ekki að vera niður neglt til hvers einstaks verkefnis innan þeirra heldur sé stjórnendum falin ráðstöfun fjárins og treyst til að ráðstafa því á þann hátt sem öllum kemur best. Þetta skref hefur þegar verið stigið varðandi Háskóla Íslands og virðist eðlilegt að halda áfram á þeirri braut hvað varðar menntastofnanir.

    Núverandi ríkisstjórn hefur lýst vilja sínum til þess að færa verkefni, völd og ábyrgð út um landið og þegar hafið það starf, þótt hægt fari. Efling þeirrar opinberu þjónustu sem fyrir er á hverju svæði, ásamt auknu forræði, er mikið nauðsynjamál í augum landsbyggðarbúa. Sjálfstæði fræðsluskrifstofanna er þar ofarlega á blaði enda er starfsemi þeirra nátengd hverju einasta sveitarfélagi í landinu. Starfsfólk fræðsluskrifstofanna gjörþekkir starfsemi hvers einasta grunnskóla og er í nánum tengslum við þá. Því má ætla að þar sé fyrir hendi sú þekking sem á þarf að halda við útdeilingu fjár til rekstrar og uppbyggingar skólastarfsins á hverjum stað og til þeirra sérþarfa og verkefna sem kunna að vera fyrir hendi á mismunandi stöðum. Þetta verk ætlum við að verði unnið í samvinnu við fræðsluráð og skólanefndir.
    Samþykkt þessarar till. væri mikilsverður þáttur í eflingu starfsemi í héruðum og í samræmi við málefnasamning ríkisstjórnarinnar en þar stendur í kafla um byggðamál, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Gerðar verða ráðstafanir til aukinnar valddreifingar, meðal annars með því að auðvelda flutning stofnana og svæðisbundinna verkefna frá miðstjórn ríkisvaldsins út í héruð.``
    Það er skoðun okkar kvennalistakvenna, flm. þessarar till., að á þennan hátt væri fyrirkomulag grunnskólafræðslunnar best skipað. Hlutverk ráðuneytisins gagnvart grunnskólunum væri fyrst og fremst að móta þá fræðslu- og menntastefnu sem skólanum væri ætlað að fylgja og gefa út námsskrár, en að öðru leyti hafi skólarnir sem mest sjálfræði um hvernig að fræðslunni er unnið innan þess ramma sem menntmrn. setur. Jafnframt því sem fræðsluskrifstofurnar eflast færast verkefni frá ráðuneyti og mætti þá fækka starfsfólki þar en færa stöðugildi til skrifstofanna.
    Kvennalistakonur hafa á þeim tíma sem þær hafa átt sæti á Alþingi lagt fram bæði þáltill. og frv. sem miða að því að draga úr miðstýringu og dreifa valdi. Flestum þessum málum hefur verið tekið vel í máli manna í þingsölum en lítið orðið um samþykktir eða framkvæmdir.
    Rétt er að vekja athygli á skýrslu sem út kom árið 1975 unnin af nefnd sem hafði það að markmiði að finna hvaða ríkisstofnanir væri hagkvæmt að flytja frá Reykjavík og út á land. Í skýrslunni, sem er vönduð og vel unnin, er bent á 25 stofnanir sem megi flytja. Deildir megi flytja frá 12 stofnunum og útibú mætti stofna frá 36 stofnunum og efla mætti útibú 11 stofnana.
    Það má fullyrða að bjartara væri nú yfir atvinnulífi landsmanna hefðu stjórnvöld fylgt eftir þeim tillögum sem nefndarmenn lögðu fram í skýrslunni, enda var þar um úrvalslið að ræða sem nefndina sat, ekki færri en tveir núv. ráðherrar. En reyndar virðist sem nokkuð sé að þoka í áttina. Höfuðstöðvar Skógræktar ríkisins eru loksins horfnar af malbikinu og sestar að í trjálundum Austurlands og afgreiðslur Byggðastofnunar og Húsnæðisstofnunar hafa verið færðar nær landsbyggðarbúum. En það má betur gera og því ekki að dusta rykið af skýrslunni góðu og framkvæma

fleira af tillögunum sem þar er að finna? Nútímafjarskiptatækni auðveldar mjög samskipti milli stofnana og deilda og er því augljóslega auðveldara að flytja stofnanir og stofnanadeildir út á land en var fyrir 15 árum. En næsta skref í þeim efnum á að mati okkar kvennalistakvenna að vera það að efla fræðsluskrifstofur landsins á þann hátt sem till. fjallar um. Það yrði ótvírætt aðgerð til eflingar landsbyggðinni sem allir hljóta að geta verið sammála um.
    Að loknu máli mínu, virðulegi forseti, óska ég eftir að till. verði vísað til félmn.