Matvælaaðstoð við Sovétríkin
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Flm. (Jón Sæmundur Sigurjónsson) :
    Virðulegi forseti. Auðvitað er hv. 6. þm. Norðurl. e. Stefán Valgeirsson mun eldri mér og reyndari í öllum þingsköpum á allan hátt og maður skyldi auðvitað ætla að hann vissi hvað rétt væri í þessum málum. Alla jafna er ég auðvitað algjörlega tilbúinn til að taka kennslu og leiðsögn í kringum frumskóg reglna og rétts háttalags á þingi frá mér eldri og reyndari mönnum.
    Ég vildi þá að við Stefán, hv. 6. þm. Norðurl. e., skoðuðum 41. gr. þingskapa í sameiningu. Hann leiðbeindi mér þá hvernig með þá grein skuli fara, en þar stendur, með leyfi forseta:
    ,,Frumvörp, hvort heldur eru frá ríkisstjórn eða þingmönnum, svo og tillögur til þingsályktunar og breytingartillögur, má kalla aftur á hverju stigi umræðu sem vill.``
    Það er nákvæmlega þetta sem ég er að gera. Ég er að kalla aftur þáltill. í þessu formi. Og að það hafi aldrei komið fyrir á hinum langa þingferli Stefáns Valgeirssonar, hv. 6. þm. Norðurl. e., finnst mér heldur furðulegt. Ég held m.a.s. að á mínum stutta þingferli hafi það gerst oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Bara núna rétt fyrir jólin var ég sjálfur með brtt. við stjfrv. til virðisaukaskatts og í miðri þeirri umræðu kallaði ég þá brtt. til baka og hún var tekin upp jafnóðum á þeim fundi. Og ég held að 41. gr. þingskapalaga höfði nákvæmlega eins til þess framgangs eins og þess sem er að gerast hér, þar sem talað er um að till. til þál. megi kalla aftur á hverju stigi umræðu sem vill. Það er auðvitað Stefáni heimilt að taka till. upp og flytja hana áfram. Það skal mér vera algjörlega að meinlausu.
    Hvað það snertir að það eigi að fara eftir pólitískum skoðunum valdhafa hverju sinni hvort veita eigi sveltandi fólki matvælaaðstoð eða ekki, þá er það auðvitað alveg hárrétt að það á ekki að fara eftir því alla jafna. Mér virtist hins vegar sem okkar aðstoð mundi ekki skipta sköpum. Hún sýndi einungis vinarþel, fyrst og fremst. Það var hugsunin á bak við það. En þegar við viljum sýna að okkur hnykki við óhugnanlegum atburðum, þá drögum við slíka aðstoð til baka.
    Nú er það svo að sagt er að sú hungursneyð sem ríkir á sumum svæðum í Sovétríkjunum sé komin til m.a. vegna valdabaráttu innan Sovétríkjanna. Það hafi verið metuppskera á síðasta ári. Korn og kjötvörur hafi ekki eyðilagst meira en gengur og gerist á undanförnum árum. Málið sé það að rörin séu einhvers staðar stífluð, þetta fljóti ekki út vegna tilverknaðs skrifræðismanna sem haldi þessum vörum aftur og þá má álykta að ef einmitt þessir menn eru að taka við völdum, þá megi segja að það losni eitthvað um í þeim rörum og matvælin fari þá aftur að koma fram.
    Þýska tímaritið Der Spiegel nr. 50 frá 10. des. á síðasta ári kemur einmitt inn á þetta ástand þar sem þeir vitna til þess að sennilega sé matvælaástandið í Sovétríkjunum eins konar Potemkintjöld, en sem kunnugt er í sögunni var Potemkin hershöfðingi í Rússlandi hér fyrr á tímum og þegar keisarinn kom út á

landið til að skoða ástandið á landsbyggðinni, þá lét hershöfðinginn reisa leiktjöld sem sýndu falleg og fögur hús en á bak við leiktjöldin voru kofarnir. Og þetta er oft tekið sem dæmi um glennur sem hægt er að gera auðtrúa mönnum, þannig að ástandið sé í raun og veru eins konar Potemkintjöld sem hengd hafa verið upp. Í raun og veru sé framleiðslan ekkert minni í Sovétríkjunum heldur en gerst hafi á undanförnum árum. Málið sé það að það séu skrifræðisherrar sem haldi þessu aftur og því sé ástæðulaust að hjálpa slíkum herrum ef ástandið er virkilega þannig.
    Mín tillaga gekk út á það að sýna vinarþel vegna þeirra vona, vegna þeirrar stórkostlegu pólitíkur sem Gorbatsjov hafði rekið fram að því. Mér hnykkir við þegar hann beitir aðferðum eins og í Litáen og ég vil sýna það með einhverju móti að mér hnykki við og það gerir miklu fleira fólki hér á landi, þannig að ég held að það sé alveg óhætt að bíða með þessa aðstoð eitthvað og svo fremi sem hún versni ekki til muna. En ég er alveg tilbúinn til þess að veita aðstoð fólki sem er í nauðum statt og ef hægt er að sjá til þess að hún komist virkilega til skila í réttar hendur. En á þessari stundu er ég ekki tilbúinn til þess.
    Hv. þm. Stefán Valgeirsson kom aðeins inn á orð mín um ummæli landbrh. um samstarfsmenn sína í fjölmiðlum sem mér fannst ákaflega óviðeigandi og óviðeigandi af samstarfsmanni að viðhafa slík ummæli. Hvað varðar efnisinnihaldið í þeirri umræðu, hvort eigi að flytja inn ostlíki eða ekki, þá er það auðvitað algert aukaatriði. Þetta ostlíki hefur verið flutt inn í áravís ofan á tilbúnum pizzum sem fluttar hafa verið hingað til Íslands í þúsundatali þannig að hér er akkúrat ekkert nýtt á ferðinni.