Síðustu atburðir í Eystrasaltsríkjunum
Mánudaginn 21. janúar 1991


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Við fordæmum grimmdarverk sovéthersins í Eystrasaltslöndunum. Fyrir viku var úthellt blóði saklausra manna í Vilnius. Í gær voru framin skelfileg ofbeldisverk í Rigu í Lettlandi. Hvað verður á morgun? Það er svo sannarlega þörf á því að allar þjóðir heims, allar lýðræðisþjóðir, fordæmi þetta atferli kröftuglega. Grimmdarverk sovéthersins, að því er virðist án þess að nokkur hafi stjórn á þeirri þróun, vekja ugg um það að lýðræðisöflin séu að verða undir í þeim breytingum sem svo miklar vonir voru bundnar við í Sovétríkjunum. Við þessu þarf að snúast með samstöðu allra friðelskandi þjóða, allra lýðræðisþjóða.
    Fregnirnar af aðgerðum sovéthersins í gær, þegar þeir tóku byggingu lettneska innanríkisráðuneytisins í Riga herskildi, benda til þess að þvingunaraðgerðir sovéskra stjórnvalda gagnvart Eystrasaltsríkjunum færist nú í aukana. Tímasetning þessara atburða er athyglisverð. Þær áttu sér stað aðeins örfáum klukkustundum eftir að opinber gestur stjórnvalda í Lettlandi, utanrrh. Íslands Jón Baldvin Hannibalsson, kvaddi höfuðborgina á leið sinni til Eistlands. Við höfum að sjálfsögðu brugðist hart við þessum tíðindum og í morgun kallaði ég á sendiherra Sovétríkjanna á Íslandi og lýsti þungum áhyggjum vegna ástandsins í Eystrasaltsríkjunum. Ég mótmælti líka fyrir hönd ríkisstjórnarinnar óréttmætri og hrottafenginni valdbeitingu Sovétmanna gegn lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum í Riga og varaði við þeim afleiðingum sem slíkir atburðir kynnu að hafa fyrir samskipti Sovétríkjanna og vestrænna ríkja.
    Ég vil einnig nota þetta tækifæri til þess að skýra frá því hér að sendiherrar Norðurlandanna í Sovétríkjunum áttu í morgun fund með aðstoðarutanríkisráðherra rússneska lýðveldisins, Fedrov, í Moskvu. Á fundinum kom fram mikill áhugi á almennum upplýsingaskiptum Norðurlanda og yfirvalda í rússneska lýðveldinu um Eystrasaltsríkin. Þar kom líka fram að yfirvöld í Rússlandi teldu mikilvægt að önnur ríki létu ofbeldisaðgerðir sovéska hersins ekki afskiptalausar, enda veruleg hætta á að ófriður breiddist út innan Sovétríkjanna í kjölfar þeirra.
    Það er ljóst að vaxandi harðýðgi Sovétmanna gegn Eystrasaltsríkjunum útheimtir kröftug viðbrögð samfélagsþjóðanna. Utanrrh. hefur áður bent á það hér á Alþingi að hernaðaraðgerðir Sovétmanna gegn Eystrasaltsríkjum séu brot á meginreglum lokaskjals Helsinki-samkomulagsins um friðsamlega lausn deilumála og sjálfsákvörðunarrétt ríkja. Einnig eru þær í fullkominni andstöðu við nýundirritaðan Parísarsáttmála um nýja Evrópu, sem margir höfðu vonað að markaði þáttaskil, ekki einungis innan RÖSE - ferilsins heldur einnig í samskiptum Evrópuríkjanna eftir styrjöldina.
    Atburðirnir í Litáen og Lettlandi benda til þess að Sovétmenn hafi enn ekki lært og enn ekki gleymt. Frá því að þeir létu til skarar skríða gegn Litáen fyrir tæplega tveimur vikum hafa aðgerðir íslenskra stjórnvalda verið margvíslegar, eins og kunnugt er. Í framhaldi af þeim orðsendingum sem héðan fóru, bæði frá utanrrh., forsrh., sameiginlega með forsætisráðherrum Norðurlanda og frá íslenska þinginu, ákvað utanrrh. að fara í heimsókn til allra landanna þriggja. Hann hóf þá heimsókn á föstudag og er væntanlegur í kvöld. Ég vænti þess að hann muni gera þinginu grein fyrir þeirri för. Hún var mikilvæg til þess að sýna samstöðu okkar Íslendinga með þessum þjóðum sem nú eru í nauðum staddar.
    Það er hætta á að innan Sovétríkjanna sé nú stjórnarfarsleg upplausn. Við munum eftir því sem kostur er taka upp Eystrasaltsmálið á vettvangi RÖSE eða á öðrum vettvangi. Því að hvað sem líður hugsanlegum ágreiningi um þjóðréttarstöðu þessara þriggja ríkja --- okkar afstaða er þar skýr, við höfum aldrei hætt að viðurkenna fullveldi þeirra frá því að það var viðurkennt árið 1922 --- þá er hér um gróf mannréttindabrot að ræða þar sem farið er með líkamsmeiðingum og manndrápum að saklausu fólki. Það mál hlýtur því líka að vera hægt að taka upp undir mannréttindaákvæðum þeirra alþjóðasáttmála sem við og Sovétríkin erum aðilar að.