Síðustu atburðir í Eystrasaltsríkjunum
Mánudaginn 21. janúar 1991


     Þorsteinn Pálsson :
    Frú forseti. Þeir atburðir sem nú hafa átt sér stað í Lettlandi og eru tilefni þessarar umræðu hér í dag sýna svo að ekki verður um villst að friðarverðlaunahafi Nóbels, sem ræður ríkjum
í Kreml, hefur augljóslega sett sér að brjóta niður með hervaldi sjálfstæðisviðleitni Eystrasaltsríkjanna og að hafa að engu lögmætar kröfur þeirra um að endurheimta sjálfstæði sitt. Það er því full ástæða til þess fyrir Alþingi Íslendinga enn einu sinni að sýna samstöðu og stuðning við baráttu Eystrasaltsríkjanna.
    Það hefur verið fagnaðarefni að hér á Alþingi hefur verið um það samstaða að mótmæla ofbeldisverkum friðarverðlaunahafa Nóbels og knýja á alþjóðavettvangi á um þá samstöðu. Fyrir viku síðan var ítrekuð með sérstakri samþykkt sú afstaða Alþingis. Og það hvílir auðvitað á hæstv. ríkisstjórn að fylgja þeirri samstöðu eftir. Í þeim umræðum komu fram ýmsar hugmyndir um nauðsynlegar aðgerðir í því efni. Þar ber auðvitað hæst ósk Landsbergis forseta til íslensku ríkisstjórnarinnar um að hún taki þetta mál upp á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Og ég vil taka undir það með málshefjanda að hæstv. ríkisstjórn geri allt sem í hennar valdi stendur til þess að verða við þeirri ósk og gangi fram með öllu meiri snerpu en hún hefur gert fram til þessa til þess að koma því máli fram.
    Í annan stað voru nefndar hér hugmyndir um að hætta viðskiptasamningum við Sovétríkin. Ég óska eftir því að í þessum umræðum komi fram upplýsingar um það hver hafi verið viðbrögð hæstv. ríkisstjórnar í því efni.
    Þá var í þriðja lagi minnt á að fyrirskipa mætti fækkun sendiráðsmanna í sovéska sendiráðinu hér til að undirstrika ákveðna afstöðu okkar.
    Í fjórða lagi var bent á að kalla mætti sendiherra Íslands í Moskvu heim til skrafs og ráðagerða. Ég vil inna hæstv. ríkisstjórn eftir því hvort eitthvað hafi verið gert í þessum efnum.
    Að lokum, frú forseti, vil ég fagna þeim fréttum sem borist hafa frá Eystrasalti í tengslum við ferð utanrrh. til Eystrasaltsríkjanna. Ég fagna því að hann skyldi hafa tekist þessa ferð á hendur þó að fyrir viku síðan hafi því verið lýst yfir af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að við núverandi aðstæður væri ekki hægt að fara þangað. Ég tel að þessi ferð hafi verið mikilvæg. Ég fagna þeirri yfirlýsingu, sem borist hefur, að ríkisstjórnin íhugi nú að stofna til stjórnmálasambands við Eystrasaltsríkin. Um það efni liggur fyrir ályktunartillaga hér í þinginu og hefur verið til meðferðar í hv. utanrmn. Ég vil sérstaklega endurnýja fögnuð minn ef þetta er nú til íhugunar hjá hæstv. ríkisstjórn og beina þeirri fyrirspurn til formanns hv. utanrmn. hvort ekki verði hafist handa við það í nefndinni í framhaldi af þessari yfirlýsingu að afgreiða þessa tillögu þannig að um það mál geti tekist, eins og um önnur atriði þessu tengd, víðtæk og breið samstaða hér í þinginu.