Síðustu atburðir í Eystrasaltsríkjunum
Mánudaginn 21. janúar 1991


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Virðulegi forseti. Orð fá ekki lýst þeim viðbjóði og hryllingi sem við hljótum að hafa á þessum aðgerðum Sovétmanna í smáríkjunum Eistlandi, Lettlandi og Litáen. Vonbrigðin eru því meiri þar sem ekki er langt síðan að við héldum, bæði sá sem hér stendur og við öll væntanlega, að þessi mál væru nú komin í farveg í átt að lýðræði og frelsi þessara ríkja. Menn voru bjartsýnir á haustmánuðum og töldu að nú væri skammt undan að þessi lönd mundu formlega endurheimta frelsi sitt á nýjan leik og bætast í hóp lýðfrjálsra ríkja Vestur - Evrópu. Þess vegna er þetta skref aftur á bak hryllilegra en orð fá lýst.
    Ég fyrir mitt leyti legg til að við grípum til harkalegra aðgerða. Að sjálfsögðu hljótum við að gera það í samvinnu við hin Norðurlöndin. Því fleiri ríki sem geta staðið sameiginlega að slíkum aðgerðum þeim mun þyngra vega þær að sjálfsögðu. Það er því miður kannski ekki mikið sem við Íslendingar einir fáum að gert. En í því sambandi langar mig til að rifja upp að á vettvangi Norðurlandasamstarfsins hafa verið fyrirhuguð ýmiss konar verkefni með Eystrasaltsríkjunum sérstaklega og í bígerð var að opna sérstakar upplýsinga- og menningarskrifstofur Norðurlandanna í öllum þremur Eystrasaltsríkjunum. Við hljótum nú að taka allt þetta upp til gagngerrar endurskoðunar. Þetta verðum við að reyna að gera með þeim hætti að það bitni ekki á fólkinu sem við erum að reyna að hjálpa og býr í þessum löndum. En að sjálfsögðu kemur ekki til greina að eiga nein samskipti við einhverjar leppstjórnir Sovétmanna sem kann að verða komið á í ríkjunum. Hljótum við því að beina augum okkar að þeim útlagastjórnum sem hugsanlega verða myndaðar í kjölfarið á þessum atburðum og reyna að styrkja þær með öllum þeim ráðum sem við kunnum að geta tekið til. Þetta vildi ég láta koma fram, virðulegi forseti.