Síðustu atburðir í Eystrasaltsríkjunum
Mánudaginn 21. janúar 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það verður ekki um það deilt að daprir atburðir hafa gerst í Eystrasaltslöndunum. ,,Vita skaltu að vorin eru vætusöm og köld``, var eitt sinn ort og kannski er það umhugsunarefni í þessum efnum að þeir voru margir sem bjuggust við því og voru sannfærðir um það að þegar loks færi að vora þar austur frá kæmu engin hret meir áður en sumarið tæki við.
    Mér finnst umræða sem hér fer fram einkennast af þó nokkuð mikilli hræsni. Við Íslendingar segjum í orði: Við viðurkennum Lettland sem sjálfstætt ríki. En gerum við það? Hvert sótti utanrrh. íslensku þjóðarinnar um vegabréfsáritun þegar hann fór til Lettlands? Ef hann lítur á Lettland sem sjálfstætt ríki hvers vegna fór hann þá ekki og óskaði eftir því að lettneskur utanríkisráðherra skrifaði upp á vegabréfið og hélt svo inn til Lettlands og lét reyna á það hvort hann yrði stöðvaður? Nei, hann leit á Lettland sem hluta af Sovétríkjunum og sótti um sovéska vegabréfsáritun. Þetta er tvöfalt siðgæði. Og það er tvöfalt siðgæði þessa lands ef við látum nú svo að við höfum alla tíð litið á Lettland sem sjálfstætt ríki frá því að frelsi þess var skert á sínum tíma. Hver einasti Íslendingur sem farið hefur til Lettlands á þessu tímabili hefur nefnilega sótt um vegabréfsáritun til Sovétríkjanna. Þetta eru hin köldu rök sem blasa við. Við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að sú þíða sem komið hefur í Austur - Evrópu nær að Sovétríkjunum hvað það snertir að hingað og ekki lengra ætlar sovéski herinn að líða það að valdhafar Sovétríkjanna leyfi þjóðum að ganga út. Þeir leyfðu Austur - Þýskalandi að ganga út, þeir leyfðu Póllandi að ganga út, Ungverjalandi og Búlgaríu. En þegar kemur að ríkjunum innan ríkjasambands Sovétríkjanna segir sovéski herinn stopp. Og ég verð að segja eins og er að þeir sem töldu rétt að skrifa undir menningarsamning við Sovétmenn 1961 en telja nú að eigi að rifta honum, hvar er þeirra söguskoðun? Hvar er þeirra þekking á atburðum og stjórnarháttum Sovétríkjanna? Var Sovétríkjunum ekki stjórnað með hervaldi 1961? Var lýðræði í Sovétríkjunum 1961? Hvar eru rökin fyrir svona málflutningi?
    Hitt er rétt að það hefur skapast það jafnvægisleysi í þessu þingi að Alþb. þorir ekki að verja einar einustu gerðir Sovétmanna. Það er það merkilega sem hefur gerst. En samkvæmt stofnskrá Sameinuðu þjóðanna blasir það við, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að atburðirnir í Eystrasaltsríkjunum eru innanríkismál Sovétríkjanna. Það blasir við sem staðreynd. Það þýðir þess vegna ekki að rugla í þessum efnum. Við verðum að fara að alþjóðalögum. Og ef við ætlum að hafa áhrif, þá hlýtur það að vera grundvallaratriði að gera sér grein fyrir því að ekkert vestrænt ríki, ekki eitt einasta, viðurkenndi Lettland sem sjálfstætt land, því miður.