Síðustu atburðir í Eystrasaltsríkjunum
Mánudaginn 21. janúar 1991


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Kúgun og ofbeldisverkum sovéthersins í Litáen og Lettlandi verður að linna. Það er mjög mikilvægt að sú samstaða sem náðst hefur hér á landi milli allra stjórnmálaflokka um einarðlegan stuðning við sjálfstæðisbaráttu og málstað frelsis og lýðræðis í þessum ríkjum haldist og að þessi samstaða með málstað þessara þjóða, sem nú eru í nauðum staddar, verði kynnt á alþjóðavettvangi hvar sem rödd Íslands heyrist. Íslendingar hafa gegnt forustuhlutverki í þessum efnum á undanförnum mánuðum allt frá því að Alþingi Íslendinga varð fyrst þinga til þess að senda litáeska þinginu árnaðaróskir í tilefni af sjálfstæðisyfirlýsingu þeirra.
    Það er mikilvægt að við tökum á þessu máli hvar sem komum því við. Á vettvangi öryggisráðsins ef það er vænleg leið. Það hefur þegar verið reynt. Það má vera að nú sé lag til þess að endurtaka það. Á vettvangi Evrópuráðsins. Það má líka reyna. Evrópuráðsþingið mun hefjast nk. mánudag. Það þarf að undirbúa. Á vettvangi RÖSE. Sérstaklega tel ég að þar verði áhrifaríkast að beita mannréttindaákvæðum þeirra sáttmála sem það starf byggist á. Á vettvangi Atlantshafsbandalagsins þar sem Íslendingar hafa þegar tekið málið upp. Á vettvangi Norðurlandasamstarfsins þar sem við erum í stöðugu, daglegu samráði við utanríkisráðuneyti þessara landa.
    Það var athyglisvert að á þeim fundi sem utanrrh. sótti í Helsingfors í lok síðustu viku voru saman komnir formenn allra jafnaðarmannaflokka Norðurlanda, formenn jafnaðarmannaflokkanna í Eystrasaltsríkjunum þremur og í sovétlýðveldinu Rússlandi. Við þennan fund voru einnig tengdir utanríkisráðherrar fjögurra Norðurlanda, þ.e. allra nema Danmerkur. Formennirnir samþykktu við lok þessa fundar ályktun í þremur liðum um ástandið í Eystrasaltsríkjunum. Í fyrsta lagi fordæmdu þeir harðlega ofbeldisaðgerðir sovéthersins. Í öðru lagi beindu þeir því til Ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu að taka þessi mál upp, eins og forsrh. Íslands og utanrrh. Íslands höfðu einir þjóða hvatt til á ráðstefnunni í París í nóvemberlok. Forustuhlutverk forsrh. og utanrrh. í málinu er því mjög skýrt markað í atburðarás undanfarinna vikna og mánaða.
    Í þriðja lagi ályktuðu formenn jafnaðarmannaflokkanna í þessum löndum öllum, þ.e. Norðurlöndunum fimm, Eystrasaltsríkjunum þremur og í níunda ríkinu, hinu stóra lýðveldi, sovétlýðveldinu Rússlandi, að efna skyldi til alþjóðlegrar ráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna um ástandið við Eystrasalt. Ég tel að þar með sé í raun og veru búið að setja upp ákaflega sterka stöðu fyrir framhald þessa máls. Það er mjög mikilvægt að við Íslendingar tökum þátt í því og höldum því forustuhlutverki sem þegar er alveg ljóst.
    Hér hefur nokkuð verið rætt um stjórnmálasamband okkar við Sovétríkin, um viðskiptatengsl okkar og menningartengsl. Allt þetta þarf að endurskoða í ljósi þessara atburða. Þar verður enginn steinn látinn óhreyfður en markmiðið verður ævinlega að ráða. Það

sem við viljum vinna að er frelsi, sjálfstæði og lýðræði í þessum löndum sem eru okkur nákomin vegna nálægðar og sögulegra tengsla.