Síðustu atburðir í Eystrasaltsríkjunum
Mánudaginn 21. janúar 1991


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég þakka þær undirtektir sem hér hafa komið fram í sambandi við þau tíðindi sem eru rædd. Þær undirtektir komu mér vissulega ekkert á óvart. Það hefur verið góð samstaða í þessu máli og mikill hugur á Alþingi Íslendinga að veita Eystrasaltsríkjunum þann stuðning sem við megnum.
    Ég tel hins vegar að við þurfum að gæta þess einmitt nú að hver stund sem líður kann að vera dýrmæt, að við gerum það sem við getum til þess að fylkja ríkjum á alþjóðavettvangi um þann málstað sem við erum að rétta hjálparhönd. Þess vegna finnst mér að ríkisstjórn landsins þurfi nauðsynlega að taka á þessum málum strax í dag. Ég geri mér það ljóst að fjarvera utanrrh. Íslands kann að valda því að menn vilji bíða morguns, þar sem hann hefur verið á vettvangi. En ég held að það væri rétt að undirbúa aðgerðir með fundi ríkisstjórnarinnar þegar á þessum degi. Ég skora á hæstv. forsrh. að beita sér fyrir slíku, m.a. í ljósi þeirra ábendinga sem hér hafa komið fram í umræðunni.
    Það hefur verið bent á, til viðbótar við það sem gerðist fyrir viku hér á Alþingi og rætt var, brýnar nauðsynlegar aðgerðir sem við getum haft frumkvæði að á alþjóðavettvangi. Og við eigum að taka á málunum nú þegar. Þetta snýst um það, bæði hvað Ísland getur í samfélagi þjóðanna komið á hreyfingu til stuðnings en einnig um einhliða aðgerðir af okkar hálfu, til þess að vekja bæði okkur sjálf til dáða í þessum málum og til þess að gera samfélagi þjóðanna ljóst að við erum reiðubúin að leggja nokkuð á okkur í samskiptum við Sovétríkin. Ég tel að ríkisstjórnin þurfi að fara yfir þau atriði sem Íslendingar geti tekið á einhliða. Hér hefur verið nefnt stjórnmálasamband. Hér hafa verið nefnd viðskipti. Hér hafa verið nefnd menningarsamskipti og fleira af þeim toga væri hægt að bæta við. Fækkun í sendiráðum er mál sem hefur ítrekað verið rætt hér á Alþingi, m.a. að mínu frumkvæði, og Alþingi ályktað um þau efni. Er eftir nokkru að bíða að stíga þar einhver skref af hálfu íslenskra stjórnvalda í ljósi þess sem hefur verið að gerast? Ég held ekki.
    Ég vænti þess að ríkisstjórnin hafi forustu um það að fylgja á næstu klukkustundum eftir þeim ábendingum sem hér hafa komið fram á Alþingi um þessi mál og við getum þannig tekið á málum frá degi til dags í vissu þess að við höfum gert það sem í okkar valdi stendur.