Íslensk heilbrigðisáætlun
Mánudaginn 21. janúar 1991


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um íslenska heilbrigðisáætlun sem flutt er á þskj. 500 og er 271. mál Sþ. Till. til þál. um íslenska heilbrigðisáætlun á sér langan aðdraganda.
    Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin setti fram á síðasta áratug markmið, sem kölluð hafa verið Heilbrigði allra árið 2000, og gerði ráð fyrir að hvert starfssvæði tæki málið til athugunar og setti sér síðan markmið í samræmi við heilsufar og aðstæður þeirra þjóða sem á svæðinu eru.
    Á fundi Evrópusvæðis Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar árið 1984 voru samþykkt markmið sem þjóðirnar töldu að þær gætu sameinast um. Markmið Evrópuþjóðanna eru alls 38 og af ýmsu tagi. Raunar eru sum þeirra þess eðlis að Íslendingar hafa náð þeim markmiðum fyrir löngu, svo sem lífslíkur við fæðingu og ungbarnadauða. Önnur eru þess eðlis að þau stefna að því að ná á áratugnum fram til aldamóta betra heilsufari og færri ótímabærum dauðsföllum en verið hefur nú um hríð.
    Áætlun Evrópusvæðisins gerir ráð fyrir að hvert land á svæðinu geri sérstaka heilbrigðisáætlun,
setji sér sérstök markmið til þess að ná þessari áætlun og miði markmiðssetninguna við næstu aldamót.
    Í ársbyrjun 1986 heimsótti framkvæmdastjóri Evrópusvæðis Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar Ísland, hitti ráðherra og kynnti samþykktir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um markmiðið Heilbrigði fyrir alla árið 2000. Í framhaldi af þessari heimsókn lagði þáv. heilbrrh. Ragnhildur Helgadóttir fram í ríkisstjórninni til samþykktar tillögu um að unnið skyldi að landsáætlun í heilbrigðismálum með hliðsjón af stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Fyrstu tillögur að íslenskri heilbrigðisáætlun voru unnar af nefnd þriggja lækna og voru þær lagðar fram sem skýrsla til Alþingis.
    Skömmu eftir að ég tók við sem heilbrrh. ákvað ég að vinna að því að tillögur þessar yrðu athugaðar ítarlega og kvaddi því til heilbrigðisþing til að fjalla um þær. Heilbrigðisþing þetta var haldið 5. febr. 1988. Fyrir þingið höfðu fjölmargir vinnuhópar, sem í störfuðu samtals um 50 manns, yfirfarið vandlega einstök markmið áætlunarinnar. Sömuleiðis voru tillögurnar sendar til umsagnar fjölmargra aðila innan heilbrigðisþjónustunnar og voru allar umsagnirnar kynntar á heilbrigðisþinginu. Í kjölfar þessa þings var upphaflega áætlunin endurskoðuð í ljósi tillagna vinnuhópanna, umsagna sem bárust og umræðna á heilbrigðisþinginu. Ný og endurskoðuð tillaga um íslenska heilbrigðisáætlun var síðan lögð fram á 112. löggjafarþingi sem þáltill. Tillagan fékk ítarlega umfjöllun í nefnd en náðist ekki að samþykkja hana fyrir þingslit vorið 1990.
    Enn á ný hefur tillaga um íslenska heilbrigðisáætlun verið endurskoðuð og er hún nú lögð fram að nýju í breyttum búningi. Meginbreytingin frá tillögu þeirri sem lögð var fram á 112. löggjafarþinginu felst í

framsetningu tillögunnar. Í þáltill. sem hér er lögð fram eru markmiðin sett fram án skýringa. Skýringarnar fylgja hins vegar með í sérstökum kafla. Þessi framsetning er gerð eftir ábendingu Alþingis og nefndarmönnum í hv. félmn. Efnisbreytingar eru hins vegar óverulegar. Markmið hafa þó verið felld saman og þeim fækkað úr 37 í 32. Með þáltill. er síðan eitt fylgiskjal þar sem rakin eru lið fyrir lið þau verkefni sem fram undan eru til að ná fram markmiðum heilbrigðisáætlunarinnar og eru þau hverju sinni tengd við markmiðin.
    Till. til þál. um íslenska heilbrigðisáætlun gerir ráð fyrir að heilsugæslustöðvar verði hornsteinar heilsugæslunnar og að þjónusta heilsugæslustöðva nái til allra landsmanna árið 1995.
    Sýnt hefur verið fram á að venjur og lífshættir hafa veruleg og oft úrslitaáhrif á heilbrigði einstaklinga. Tillagan leggur því mikla áherslu á og hefur að geyma allmörg markmið vegna forvarna og heilbrigðisfræðslu. Er það vel því að of lítið hefur verið gert af því af heilbrigðisyfirvöldum á Íslandi að taka jákvæða og hvetjandi afstöðu í þessum málum.
    Nokkur markmið fjalla sérstaklega um heilbrigðiseftirlit og umhverfisvernd, enda er ómenguð náttúra ein forsenda andlegrar, líkamlegrar og félagslegrar vellíðunar mannsins. Þá hefur tillagan að geyma markmið um þróun heilbrigðiskerfisins, um framlög til heilbrigðismála, um mannafla í heilbrigðismálum, um rannsóknir og kennslu og um alþjóðasamstarf.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að fara mjög ítarlega í hvert hinna 32 markmiða sem þáltill. hefur að geyma að þessu sinni. Það gerði ég í framsögu minni með tillögunni er hún var lögð fram á síðasta þingi. Ég vil leyfa mér að vísa til þeirrar umræðu sem þá fór fram. Það er hins vegar von mín að framlagning þessarar þáltill. öðru sinni, og nú í breyttu formi að ábendingu Alþingis og þeirra þingmanna sem unnu að málinu á síðasta þingi, verði endapunktur tæplega fimm ára vandaðrar og ítarlegrar vinnu sem hófst í ráðherratíð Ragnhildar Helgadóttur.
    Þáltill. þessi byggir á samþykktum sem Ísland hefur gert á alþjóðavettvangi. Það er mjög mikilvægt að Alþingi samþykki á þennan hátt íslenska heilbrigðisáætlun og hún verði síðan rammi verkefna okkar í heilbrigðisþjónustunni á nýbyrjuðuðum áratug.
    Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umr. og hv. félmn.