Íslensk heilbrigðisáætlun
Mánudaginn 21. janúar 1991


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það þingmál sem hæstv. heilbrrh. hefur hér mælt fyrir, till. til þál. um íslenska heilbrigðisáætlun, er kunnugt hér á Alþingi þar eð það hefur tvívegis verið flutt áður. Það fékk allítarlega umfjöllun á síðasta þingi, sérstaklega í félmn. Sþ. þar sem ég á sæti. Að tillögu nefndarinnar var málinu vísað til ríkisstjórnarinnar með nál. 30. apríl 1990 og er nú komið fram endurskoðað. Ég tel það fagnaðarefni að tillagan skuli hér komin öðru sinni en hefði kosið að sjá málið fyrr í rauninni á þinginu. Það var mjög jákvæður vilji hjá félmn. þingsins að koma þessu máli áleiðis og ég efast ekkert um að það verði viðbrögðin hjá hv. félmn. að svo megi verða en tíminn sem við höfum til stefnu til þingloka er ekki mjög langur. En við skulum vona að okkur takist með góðri samvinnu að koma þessu máli frá þinginu með ályktun eins og að er stefnt.
    Ég hef ekki farið rækilega yfir málið enn sem komið er eins og það liggur nú fyrir. Hæstv. ráðherra sagði að hér væri ekki um efnislegar breytingar að ræða heldur meira breytta uppsetningu, enda er þar verið að bregðast við ábendingu frá félmn. sem samþykkt var hér á Alþingi 30. apríl sl. Fljótt á litið sýnist mér kannski það atriði dálítið umhugsunarvert sem blasir við, þ.e. að hér er fyrst og fremst lýst markmiðum í heilbrigðismálum en leiðirnar til þess að ná þeim markmiðum eru ekki felldar inn í sjálfa tillöguna, heldur er þær að finna í fskj. með tillögunni sem verkefni sem þarf að framkvæma til að markmið heilbrigðisáætlunarinnar náist.
    Nú er það vissulega álitamál hvernig Alþingi tekur á málum af þessum toga. Mín hugsun var sú þegar við ályktuðum um þetta efni í félmn. að gerð yrði atrenna að því að fella leiðirnar að markmiðum þannig að einnig þær framkvæmdaáætlanir sem bent er á í þessu fskj. yrðu til meðferðar og ályktunar af hálfu þingsins. En þetta er efni sem þingnefndin sem fær þetta mál til meðferðar hlýtur að skoða og athuga.
    Ég vil svo nefna það hér, virðulegur forseti, að ég teldi í rauninni fulla þörf á því að af hálfu forustu þingsins í samvinnu við þingflokka, verði gerð athugun á því hvernig með mál af þessum toga verði best farið á vegum Alþingis og þá verði farið yfir það hvernig tekið er á hliðstæðum málum í öðrum löndum, en það er allt með nokkuð mismunandi hætti eins og fram kom í áliti félmn. sl. vor. Þeim málum fjölgar sem flutt eru inn á þjóðþingin nokkuð samræmt frá alþjóðastofnunum eða að frumkvæði alþjóðastofnana og það eru rætur þess máls sem hér er rætt. Nú er ég engan veginn að mæla með því að öll þjóðþing felli þau vinnubrögð í sama horf. Þar eiga menn auðvitað að gæta sín og halda því sem best er hver hjá sér. En mér finnst þetta nokkurt umhugsunarefni í ljósi mála af þeim toga sem hér er á ferðinni sem á rætur í vissu alþjóðlegu átaki til þess að ná fram endurbótum og samræmingu á áherslum í heilbrigðismálum.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegur forseti, að fara fleiri orðum um þetta mál. Afstaða mín til þess

er jákvæð eins og verið hefur og ég vona að okkur auðnist að afgreiða málið á þessu þingi.