Íslensk heilbrigðisáætlun
Mánudaginn 21. janúar 1991


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. hafi talað alveg skýrt áðan og ég skildi mál hans þá a.m.k. alveg eins og nú í seinni ræðu. Ég reyndi að svara því líka á þann hátt að við vitum að við búum við biðlista sem við höfum ekki átt auðvelt með að stytta að undanförnu. Það stafar nákvæmlega af því sem ég sagði áðan og get auðvitað endurtekið og ítrekað. Okkur vantar að sjálfsögðu til þess meiri fjármuni. Ef við hefðum næga fjármuni úr að spila væri auðvitað hægt að byggja upp skurðstofur og bæta aðstöðu á sjúkrahúsunum og fjölga fólkinu sem við þetta vinnur o.s.frv. en þær aðstæður hafa því miður ekki verið fyrir hendi að undanförnu. Við höfum verið að reyna að leita ýmissa leiða til þess að ná fram meiri hagræðingu og frekari sparnaði í heilbrigðisþjónustunni og þá jafnframt að nýta betur þá fjármuni sem við höfum til ráðstöfunar.
    Alþingi samþykkti rétt fyrir jólin breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu sem m.a. felur í sér að sérstakt samstarfsráð sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu fjalli um skipulagningu, samvinnu þeirra og rekstur sem ætti að leiða til þess að út úr því kæmi aukin þjónusta. Við hefðum færri sjúkrarúm tóm. Það er rétt eins og hv. þm. minnti á að að meðaltali er hér fjöldi sjúkrarúma sem stendur ónotaður á þessum stofnunum yfir árið, en ég minni líka á að hluti þess stafar ekki af því að það vanti fjármuni heldur af því að það vantar fólk. Það vantar fólk t.d. til þess að halda stofnunum í fullum rekstri allt árið. Þar á ég við sumarafleysingatímann. Það er langt í land ef það næst nokkurn tíma að við höfum það mikinn mannafla, við getum sagt varamannafla, að við getum mannað stofnanirnar að fullu meðan sumarleyfistíminn er í algleymingi.
    Það er auðvitað auðvelt að segja að við gætum gert mikið meira, bara ef við hefðum pláss og bara ef við hefðum meira fé. Um það snýst auðvitað málið. Það snýst nákvæmlega um það sem bæklunardeildirnar hafa sagt, öldrunarlækningadeildirnar, þvagfæraskurðlækningadeildirnar. Ég minnist þess að nýlega kom til mín yfirlæknir háls - , nef - og eyrnadeildar Borgarspítalans og sagði: Ég gæti gert mikið meira ef ég hefði meira pláss. Ef ég fengi fleiri rúm í stofnuninni, þá gæti ég auðvitað gert meira og stytt þennan biðlista. Það er nú einu sinni svo að þessar stofnanir hafa skipt þeim plássum sem til reiðu eru upp á milli þessara sérfræðiþjónustugreina og við það búum við. En ég ítreka það að einn liðurinn í þessu er að ná betra samstarfi milli stofnananna, t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu sem skiptir nú kannski mestu í þessu.
    Ég vil líka segja frá því að landlæknir hefur á undanförnum vikum og mánuðum verið í viðræðum við sérfræðinga hinna ýmsu greina um það hvernig stytta megi biðlistana. Við höfum sent stærri stofnunum öllum erindi þar sem við höfum beðið þær að gera grein fyrir því hvernig hægt sé að taka á þessum sérstöku vandamálum sem við horfum á. Við höfum þegar

fengið svör frá a.m.k. tveimur þessara stofnana og þau mál eru nú í athugun. Við höfum reynt að dreifa sérfræðiþjónustunni þannig að hægt væri að vinna hana á fleiri stöðum en bara hér á höfuðborgarsvæðinu. Svör sérfræðinganna hafa nú reyndar gjarnan verið þau að hér væru auðvitað bestu aðstæðurnar og ef fjármunir væru til þess að framkvæma fleiri aðgerðir hlyti þeim að vera betur varið til þess að nýta þá aðstöðu sem hér er fyrir hendi en að dreifa þjónustunni og vera að byggja hana upp, kannski á Ísafirði, Neskaupstað eða Vestmannaeyjum, svo að ég nefni nú einhverja staði. En allt er þetta til skoðunar hjá okkur og ég veit um þessi vandamál. Till. til þál. um þessa uppbyggingu, um stefnumótun á næsta áratug er auðvitað liður í þessu og hefur mikið gildi að mínu áliti að koma slíkri stefnumörkun fram, fá hana samþykkta þó að hún ein og sér leysi að sjálfsögðu ekki málið. Um það get ég vissulega verið sammála hv. þm. sem hér hafa tekið til máls.