Íslensk heilbrigðisáætlun
Mánudaginn 21. janúar 1991


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir orð hæstv. heilbrrh. um að það er nauðsynlegt að setja sér markmið eins og fram koma hér í þessari áætlun. Hv. 6. þm. Norðurl. e. minntist á vandræðaástand í heilbrigðiskerfinu sem skapast vegna skorts á sjúkrarúmum. Í mínum huga er það allra mikilvægasta í sambandi við þau markmið sem hér eru sett að efla forvarnastarf og heilbrigðisfræðslu. Það er miklu fleira en sú till. til þál. sem hér liggur frammi kemur inn á, sem taka þarf tillit til. Þar sem hv. 6. þm. Norðurl. e. minntist sérstaklega á biðlista vegna bæklunaraðgerða af ýmsu tagi dettur mér í hug að minna á liði í forvarnastarfi sem því miður er lítill gaumur gefinn. T.d. varðandi aðbúnað nemenda í skólum og vinnuaðstöðu þeirra. Ég gæti trúað því að mikið af þeim sjúkdómum og stór hluti þeirra biðlista sem nú hafa myndast séu einmitt vegna þess að fólk hefur ekki haft viðunandi vinnuaðstöðu. Það er t.d. viðurkennt í nágrannalöndum okkar að börn eru mismunandi stór á skólaaldri og þurfa þar af leiðandi húsgögn sem eru mismunandi. Það ráð hefur verið fundið að hafa borð og stóla sem hægt er að hækka og lækka eftir þörfum hvers og eins.
    Þá vil ég minna á annað sem ég tel mjög mikilvægt í þessu sambandi og þarf að bjóða börnum upp á. Það eru skólamáltíðir sem oft hafa verið nefndar hér. Þar komum við inn á að ala börn upp í heilbrigðum lífsháttum og tryggja að þau fái nauðsynlega næringu á hverjum degi. Fyrir tveimur árum að mig minnir samþykktum við till. til þál. um manneldis - og neyslustefnu. Hún er ein af þessum viðamiklu tillögum sem við höfum fengið til umfjöllunar og varðar auðvitað líka heilbrigðismál. Ég tel mjög mikilvægt að fara eftir þeirri stefnu í sambandi við að fræða fólk og í sambandi við verðlagningu á matvælum. Eitt af því sem ætti að gera með manneldis - og neyslustefnu er að stýra neyslunni með verðlagningu. Og þá komum við að þeim grunnefnum sem allir þurfa að fá á hverjum degi. Á Íslandi búum við t.d. við það að grænmeti, sem er ákaflega mikilvægt í þessu tilliti, er mjög dýrt. Það ætti að vera miklu stærri hluti af neyslunni á degi hverjum hjá öllum Íslendingum.
    Það væri hægt að minnast á ótal margt fleira. Það má minna á vinnutíma sem er óhóflega langur hér á landi. Minna álag á fólki í því tilliti mundi örugglega bæta heilsufar þjóðarinnar og er einmitt líka liður í þessu margumtalaða forvarnastarfi sem mér virðist stjórnvöld allt of oft sjá eftir peningum í. Það er mjög erfitt að fá peninga til fyrirbyggjandi aðgerða, í raun og veru á hvaða sviði sem er. Ég trúi því að með því að stórauka áhersluna á forvarnir þá þyrftum við ekki að bæta við svo mörgum sjúkrahúsrúmum eða starfsfólki á sjúkrahús í framtíðinni. En eins og kom fram í máli hæstv. heilbrrh. hafa spítalarnir ekki nógan mannskap, sérstaklega ekki á sumrin til sumarafleysinga. Það er auðvitað óviðunandi ástand sem við höfum horft á núna ár eftir ár hvernig gripið hefur verið til þeirra neyðarráðstafana að loka sjúkradeildum.

    Ég vildi nú aðeins undirstrika hér í þessu stutta máli mínu að það er auðvitað nauðsynlegt að hafa svona markmið, en það þarf að setja þau í forgangsröð og þar held ég að sé öllum til heilla að byrjað sé á forvarnastarfinu og stutt dyggilega við það. Forvarnastarf í víðasta skilningi þess orðs. Að sjálfsögðu er það vandamál sem við okkur blasir núna að leysa vandamálin sem biðlistar hafa skapað og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til á sjúkrahúsum með því að loka deildum. En við megum ekki gleyma því að forvarnastarfið er það sem við ættum að leggja mestu áhersluna á.