Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Eins og fram kom í þessari umræðu, er ég mælti fyrir frv. til laga um sjóðshappdrætti til stuðnings flugbjörgunarmálum og skák skömmu fyrir jól, var á því áhugi að fjölga þeim aðilum sem þátttakendur yrðu í rekstri þessa fyrirhugaða happdrættis. Sá tími sem síðan er liðinn hefur verið nýttur til þess að efna til viðræðna við þá aðila sem nefndir voru í þessu sambandi.
    Þær viðræður hafa nú skilað þeim árangri að samkomulag hefur orðið með Landssambandi flugbjörgunarsveita, Slysavarnafélagi Íslands, Landssambandi hjálparsveita skáta, Rauða krossi Íslands og Skáksambandi Íslands um rekstur happdrættis af þessu tagi ef lagaheimild fæst til þess hér á hinu háa Alþingi. Ég vildi gera grein fyrir þeim tillögum til breytinga á frv. sem af þessu leiða og ég mun leggja til við hv. allshn. þessarar deildar er málinu hefur verið vísað til hennar.
    Fyrst vil ég leggja til að nafni frv. verði breytt þannig að það heiti ,,Frumvarp til laga um sjóðshappdrætti til stuðnings björgunarmálum og skák``. Þar sem happdrættinu er ætlað að styrkja fleiri þætti björgunarmála en flugbjörgun er eðlilegt að breyta nafninu á þennan veg.
    Þá vil ég gera nokkra grein fyrir helstu breytingum á einstökum greinum sem ég mun leggja til við hv. allshn. Samkomulag er á milli björgunaraðilanna, þ.e. Landssambands flugbjörgunarsveita, Slysavarnafélags Íslands, Landssambands hjálparsveita skáta og Rauða kross Íslands innbyrðis og milli þeirra og Skáksambandsins um að eðlilegt sé að þessir aðilar standi saman að happdrættinu. Ég mun leggja til að tekið verði upp leyfisgjald af happdrættinu þannig að 20% af nettóárshagnaði þess renni til starfsemi Rannsóknaráðs ríkisins. Þar sem hér er um að ræða ígildi peningahappdrættis þykir eðlilegt að það sé látið sitja við sama borð og Happdrætti Háskóla Íslands sem greiðir 20% af nettóhagnaði sínum til sömu starfsemi, þ.e. til Rannsóknaráðs ríkisins.
    Jafnframt þessu er gert ráð fyrir að Landssamband flugbjörgunarsveita, Slysavarnafélag Íslands, Landssamband hjálparsveita skáta og Rauði kross Íslands, sem ég nefni einu nafni björgunarsamtökin, hafi meiri hluta í stjórn happdrættisins, enda eru þau samsett úr fjórum landssamböndum. Loks mun ég leggja til að ágóða af happdrættinu skuli varið þannig að 37,5% hans renni til björgunarsamtakanna, 12,5% til Skáksambands Íslands og það sem eftir er, 50%, renni í þyrlu - og björgunarsjóðinn.
    Sú skipting sem lögð er til á ágóða af happdrættinu er í samræmi við samkomulag félaganna sem að happdrættinu mundu standa. Björgunarsamtökin ákveða sjálf hvernig þeirra hluti skiptist milli hinna einstöku sambanda.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. að sinni en legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og nefndin taki þessar tillögur, sem ég hef gert hér nokkra grein fyrir og mun koma skriflega á framfæri við nefndina, til meðferðar í starfi sínu.