Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Þegar mál þetta var lagt fram af hálfu hæstv. ráðherra einum eða tveimur dögum fyrir þinghlé um jólin andmælti ég því að þetta frv. kæmi frekar fyrir til umræðu eða því yrði vísað til nefndar. Raunar kom fram hjá ráðherra sjálfum í hans framsögu að hann hygðist gera breytingar á frv. og hafa samráð við nefnd um það. Það var sem sagt ekki fullsmíðað þá. Það hefur komið núna í ljós að ráðherra hefur hugsað sitt mál og ber nú fram nokkuð breytt frv., þ.e. leggur fram brtt. sem munu koma til nefndar.
    En það var ekki eingöngu það að það var tímaþröng hér, eins og allir vita, og þetta mál hafði ekki verið á neinum listum frá stjórninni um að það ætti að takast fyrir. Ef það hefði verið einfalt mál, þá hefði kannski getað gengið að taka það fyrir og hafa það í meðferð þingsins í einn eða tvo daga. Svo var ekki gert og ég er ráðherra þakklátur fyrir að reyna ekki að knýja það fram. Það hefði auðvitað verið til ófarnaðar. Ég fyrir mína parta hefði reynt að stöðva það á öðru stigi þá af því að mér líst ekki á frv. í heild sinni.
    Aðalatriðið er auðvitað, og það vita allir, að það sem er verið að gera hér er að reyna að ná fé öðruvísi en með sköttunum til nytjaþarfa. Það væri hægt auðvitað að samþykkja frv. um nánast allt það sem er í fjárlögum og lánsfjárlögum til þess að létta á ríkissjóði. Undirrótin er auðvitað sú að ráðherra gat ekki fengið fé í ýmislegt af því sem hann vildi gjarnan koma fram. Það er svo með okkur öll að við komum ekki fram okkar mestu áhugamálum, en það er ekkert sýnt að það eigi að gera það í þessu tilfelli nákvæmlega á þann veg sem ráðherra álítur. Hann er sjálfsagt eins og við önnur efins um að þetta sé rétta leiðin. Að því er slysavarnir varðar er það auðvitað fyrst og síðast Landhelgisgæslan sem á að styrkja og svo okkar gamla slysavarnafélag þó að síst haldi ég fram að þau samtök sem um ræðir í þessu frv., eins og það er nú breytt, séu ekki hin nytsamlegustu og þjóðarnauðsyn að styðja við bakið á þeim. Það er alveg ljóst.
    Ég held að allt þetta mál þurfi að athugast mjög rækilega. Svo vill til að ég er í þeirri nefnd sem hæstv. ráðherra leggur til að málinu verði vísað til og mun ég a.m.k. reyna að skoða það til hlítar og lýsi sérstaklega eftir því að þeir sem hugsa um þessi mál og hafa eytt gífurlegum kröftum í þessi málefni öllsömul, skákina náttúrlega líka þó að það sé einkennilegt að blanda skák saman við slysavarnir, látum það vera, ekki bara hugsi þetta mál heldur komi athugasemdum sínum á framfæri við nefndina. Það verður nægur tími til þess. Ég mun sjá um að menn fái að athuga þetta frv. mjög rækilega. Það er meingallað, líka eins og lagt er til að breyta því, en við skulum skoða málið með velvild og rasa ekki um ráð fram.