Staðgreiðsla opinberra gjalda
Þriðjudaginn 22. janúar 1991


     Flm. (Jón Sæmundur Sigurjónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég flyt hér frv. til laga um breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Þessi breyting varðar 5. mgr. 12. gr. laganna, sbr. 7. gr. laga nr. 90/1987, um að þar bætist nýr málsliður við svohljóðandi: ,,Námsmenn við framhaldsskóla, sem lögheimili eiga á stöðum þar sem engir slíkir skólar eru fyrir hendi og hafa ekki nýtt persónuafslátt sinn að fullu við upphaf haustmissiris, eiga rétt á aukaskattkorti frá skattstjóra til ráðstöfunar fyrir foreldri eða viðurkenndan fjárhaldsmann þar sem tilgreindur er sá persónuafsláttur sem fyrirsjáanlegt er að námsmaðurinn nýtir ekki.``
    Þetta á sem sagt við framhaldsskólabörn sem búa á þeim stöðum þar sem framhaldsskólar eru ekki fyrir hendi og mun ég leiða nokkur rök að þessu máli.
    Lög um staðgreiðslu opinberra gjalda gera ráð fyrir því að launamaður, sem stundar nám í a.m.k. sex mánuði á ári en er í launuðu starfi yfir sumarmánuðina, geti sótt um að fá námsmannaskattkort hjá ríkisskattstjóra sem beri hærri mánaðarlegan persónuafslátt en aðalskattkort. Námsmaður við viðurkennda framhaldsskóla hefur þannig tvö skattkort til afnota fyrir mánuðina júní, júlí og ágúst.
    Nú þarf námsmaðurinn að hafa tiltölulega góð laun þessa þrjá mánuði til að fullnýta persónuafslátt sinn sem er einnig leið til að fjármagna námið. Fullvíst má telja að í fæstum tilvikum séu laun námsmanna þennan stutta tíma það góð að þau endist til framfærslu allt skólaárið. Aðstoð þarf því í flestum tilvikum að koma til frá foreldrum eða fjárhaldsmönnum. Framhaldsskólanemendur njóta ekki námslána fyrr en á háskólastigi.
    Í eldri skattalögum nutu foreldrar og fjárhaldsmenn afsláttar vegna námskostnaðar barna sinna í framhaldsskólum. Í núgildandi lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda er ekki gert ráð fyrir slíku, en þó er gefinn kostur á persónuafslætti námsmannsins sem oftast er sýnd veiði en ekki gefin.
    Sérstakan kostnað umfram aðra hafa nemendur í framhaldsskólum og foreldrar þeirra þegar sækja þarf skóla í önnur byggðarlög. Það felst veruleg mismunun í því fyrir margt landsbyggðarfólk að geta ekki veitt börnum sínum fæði og húsnæði í heimahúsum meðan á framhaldsskólagöngu stendur, heldur verða að senda þau um langan veg með ærnum tilkostnaði.
    Ég veit því miður um mörg tilfelli, allt of mörg, þar sem m.a.s. börn sem hafa haft hæstu einkunnir í samræmdum prófum hafa ekki getað stundað nám vegna þess að þau þurfti að senda um langan veg, þau fengu ekki inni í heimavist, fengu ekki inni í mötuneyti þannig að það var foreldrum þeirra ofviða að senda þau til náms og það á þeim tímum sem við lifum í dag. Þetta eru aðstæður sem við héldum að tilheyrðu upphafi aldarinnar en því miður búum við við þetta í dag.
    Þessu frv. er ætlað að bæta úr þessum aðstöðumun til menntunar í landinu þannig að landsbyggðarfólki, sem ekki býr á framhaldsskólastöðum, gefist kostur á

að fullnýta þann persónuafslátt námsmanna sem skattalögin hvort eð er bjóða upp á, ef það yrði þá til þess að þau gætu sent börn sín til mennta eins og aðrir geta sem búa upp við skólavegg.
     Samkvæmt 1. gr. þessa frv. eiga námsmenn í framhaldsskólum, sem sjaldnast eru í hjónabandi eða í sambúð, sama rétt og makar og fólk í sambúð til að framvísa skattkortum sínum til ráðstöfunar, í þessu tilfelli til foreldra eða fjárhaldsmanns. Þessi réttarbót er ætluð til að jafna aðstöðumun til menntunar og er því bundin við lögheimili fjarri framhaldsskólum.