Flm. (Ragnar Arnalds) :
    Herra forseti. Ég flyt hérna frv. til laga um breytingu á lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks.
    Þannig er mál með vexti að við gerð kjarasamninga á árinu 1988 var samið um ákvæði sem gilda um greiðslu Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna atvinnuleysisbóta fastráðins fiskvinnslufólks. Vinnuveitandi, sem hefur skuldbundið sig til þess að greiða fastráðnu fiskvinnslufólki föst laun fyrir dagvinnu í samræmi við nánari ákvæði í reglugerð, á rétt á, þegar stöðva þarf vinnslu tímabundið vegna þess að hráefni er ekki fyrir hendi til vinnslu, að fá greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði fyrir hvern heilan vinnudag umfram tvo sem fyrirtækið heldur starfsmönnum á launaskrá.
    Greiðsla þessi nemur fjárhæð hámarksdagpeninga skv. 1. mgr. 23. gr. laga nr. 64/1981 fyrir hvern starfsmann í fullu starfi sem orðið hefur verkefnalaus vegna stöðvunarinnar meðan hún varir, þó ekki lengur en fjórar vikur í senn og aldrei lengur en í sex vikur á hverju almanaksári.
    Þessi ákvæði voru lögtekin með lögum nr. 34 18. maí 1988.
    Ekki þarf að fara mörgum orðum um hve mikilvæg lög þessi eru fyrir fiskvinnslufólk. En sá er gallinn á þessum lögum að hugtakið ,,fiskvinnslufólk`` hefur verið túlkað í mjög þröngri merkingu og lögin hafa ekki verið talin ná til þeirra sem vinna að síldar- eða loðnubræðslu eða niðursuðu og niðurlagningu.
    Frv. er ætlað að bæta úr þessu. Hér er því í frv. ný skilgreining á fiskvinnslu þar sem tekið er af skarið um að hvers konar fiskvinnsla falli undir þessi lög.
    Þannig er gert ráð fyrir því að á eftir 1. mgr. 1. gr. laganna komi ný málsgrein sem verði svohljóðandi, og þar er sem sagt reynt að skilgreina þetta hugtak, fiskvinnslufólk:
    ,,Til fiskvinnslufólks teljast allir þeir sem starfa að vinnslu sjávarafurða hér á landi en með því er átt við frystingu, söltun, herslu, reykingu, súrsun, niðursuðu, niðurlagningu og hverja þá verkun sem ver fisk og aðrar sjávarafurðir skemmdum, þar með talin bræðsla og mjölvinnsla.``
    Herra forseti. Ég legg til að þessu máli verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. sjútvn.