Ástand mála í Eystrasaltsríkjunum
Þriðjudaginn 22. janúar 1991


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja þessa greinargerð mína um ferð í boði stjórnvalda til Eystrasaltsríkjanna þriggja með því að flytja kveðjur og þakkir Landsbergis, forseta Litáens, til Alþingis Íslendinga með einlægum þökkum fyrir þann stuðning sem Alþingi hefur staðfastlega og ítrekað veitt Litáum á örlagastundu í sjálfstæðisbaráttu þeirra.
    Tilefni minnar ferðar til Eystrasaltsríkja var það að mér barst orðsending fyrir milligöngu upplýsingaskrifstofu Litáens í Ósló frá forseta Litáens, Landsbergis, þar sem hann beindi brýnu neyðarkalli til okkar, til ríkisstjórnar Íslands, um aðstoð og aðgerðir til stuðnings sjálfstæðisbaráttunni. Og í lok þeirrar orðsendingar lét hann þess getið að fátt væri jafn vel þegið á þessari stundu eins og það ef utanríkisráðherra Íslands, annarra Norðurlanda og ráðherrar og fulltrúar þjóðþinga vildu á þessum alvarlegu tímum sýna samstöðu sína í verki með baráttu þessarar þjóðar fyrir sjálfstæði og fullveldi með nærveru sinni í þjóðþingum þessara landa.
    Þá bar það til að efnt var til fundar í Helsinki milli forustumanna jafnaðarmannaflokka á Norðurlöndum með formönnum og sendinefndum jafnaðarmannaflokka í öllum Eystrasaltslöndunum þremur og reyndar jafnaðarmannaflokks Rússlands. Þessi ráðstefna fór fram í Helsinki, fjallaði um stöðu manna í Eystrasaltslöndun og gerði um það ályktun daginn áður en ég fór í ferð mína til Eystrasaltslandanna.
    Það var góður aðdragandi að ferðinni vegna þess að það var góður tími til þess að ræða milliliðalaust við fulltrúa stjórnmálaafla innan lýðræðisaflanna í þessum löndum og auðveldaði undirrituðum að átta sig á stöðunni að nokkru leyti fyrir fram áður en haldið var í ferðina.
    Tilefni þess að Landsbergis leitaði til ríkisstjórnar Íslands var það fyrst og fremst, að hann sagði sjálfur, að með okkar frumkvæði hefðum við á alþjóðavettvangi umfram flesta ef ekki alla aðra beitt okkur hvar sem við höfum haft til þess aðstöðu til þess að láta málstað þeirra heyrast og til þess að hvetja aðra til stuðningsaðgerða. Þetta höfum við gert eins og hv. þm. er kunnugt um ekki hvað síst hér á hinu háa Alþingi með ályktunum Alþingis, en einnig alls staðar þar sem við höfum fengið því við komið í alþjóðlegu samstarfi, innan Evrópuráðsins, innan Atlantshafsbandalagsins, innan Norðurlandasamstarfs, á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og ekki hvað síst innan Ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu, oftar en einu sinni og við mörg tækifæri, m.a. á ráðstefnu í Kaupmannahöfn þar sem fjallað var um mannréttindaþáttinn þar sem fulltrúi Íslands var sá eini í hinu evrópska samfélagi sem gerði það að meginefni sinnar ræðu að gera grein fyrir réttarstöðu þessara þjóða, rétti þeirra til sjálfstæðis og hinu siðferðilega kalli til lýðræðisríkjanna um að veita þeim einarðlegan stuðning.
    Þá vík ég að efni míns máls. Ég vil skipta því í nokkra þætti. Í fyrsta lagi er að gera grein fyrir því við hverja var rætt. Í annan stað að lýsa því hér á

hinu háa Alþingi hvernig ástandið kom þeim sem hér stendur fyrir sjónir og hvernig ég gat lagt á það mat, bæði af sjón og heyrn og af viðtölum við forustumenn. Þá vil ég fara nokkrum orðum um það hvaða skýringar eru gefnar af hálfu forustumanna sjálfstæðishreyfinga þessara landa á þeim ódæðisverkum sem framin hafa verið, hvað gengur þeim aðilum til, að hverju er stefnt. Undanfarna daga hafa orðið með nokkrum hætti þáttaskil í stöðu þessa máls sem ég vil gera grein fyrir og leggja mat á og að lokum spyrja þeirrar sjálfsögðu spurningar: Hverjar eru framtíðarhorfur, hvað er það sem við getum gert einir og sér eða í samstarfi við aðra til þess að forða hinu versta og stuðla að friðsamlegri lausn þessara deilumála í samræmi við grundvallarreglur alþjóðalaga og samskipta þjóða í milli?
    Ég átti viðræður við forustumenn í löndunum þremur: Lettlandi, Litáen og Eistlandi, við forseta Litáens, forsætisráðherra, settan utanríkisráðherra, þá menn sem næstir þeim gengu og fjöldann allan af þingfulltrúum í þinginu í Vilnu. Ég átti viðræður við forseta Lettlands, Gorbunov, forsætisráðherra, staðgengil utanríkisráðherra, ýmsa aðra ráðherra í ríkisstjórn og fulltrúa þjóðþingsins fyrir utan það að þar gafst mér kostur á að ræða við fjöldann allan af fólki í höfuðborginni. Í Tallinn átti ég viðræður við forsætisráðherrann og utanríkisráðherrann, en forseti ríkisins var þá nýfarinn áleiðis til Moskvu að freista þess að ná fundi Gorbatsjovs, forseta Sovétríkjanna.
    Ég vil fyrst leyfa mér að lýsa ástandinu eins og það kom mér fyrir sjónir. Eftir að viðræðum var lokið við forráðamenn í Riga áttum við þess kost að fara um höfuðborgina í einar þrjár klukkustundir og sjá með eigin augum hvað þar var á seyði. Það sem við blasti var þetta: Tugir þúsunda óvopnaðra borgara stóðu vörð um borgina, helstu stofnanir ríkisins, þingið, ráðuneyti, fjölmiðla og fleiri stofnanir. Þetta fólk var vopnlaust. Það hafði reist víggirðingar um borgina alla. Það var kalt og hráslagalegt. Bændur höfðu flutt til borgarinnar nægan eldivið til þess að fólk kveikti elda við helstu víggirðingar og ornaði sér, yfirleitt fátæklega eða tötrum klætt við eldinn. Mér kom þetta fyrir sjónir eins og borg í herkví, eins og óvopnuð uppreisn þjóðar til þess að verja lýðræði og sjálfstæði, en jafnframt var þetta andleg reynsla vegna þess að þarna var þjóðhátíð. Hvert sem litið var voru hópar fólks sem sungu ættjarðarsöngva og lögðu þar með áherslu á að þetta er ekki bara pólitísk barátta fyrir sjálfsögðum mannréttindum og stjórnarfarslegum réttindum. Þarna er þjóð komin að endalokum þeirrar þjáningar sem menn geta þolað eftir að hafa mátt una tilraun sem staðið hefur í rúma hálfa öld til þess að uppræta þjóðtungu og þjóðmenningu og gera borgara landsins að annars flokks borgurum í eigin landi. Þessir dagar verða ógleymanlegir hverjum þeim sem þessarar reynslu varð aðnjótandi.
    Þarna ríkti mikil spenna af þeirri ástæðu að þetta var nokkrum dögum eftir að ódæðisverkin höfðu verið framin í Vilnu og allur þessi mannskari átti von á því að á hverri stundu yrði e.t.v. látið til skarar

skríða. Í Vilnu var ástandið svipað. Þar stóð fólk þögulan vörð og þó ekki alltaf þögulan. Það söng ættjarðarsöngvana sína, það varði þinghúsið, það hafði reist götuvígi, en það var eins og spennan væri minni, fólk hafði séð framan í ofbeldið, vissi hverju það átti við að búast ef það yrði endurtekið og það beitti æðruleysi gagnvart þeim örlögum sem ekki yrðu umflúin.
    Í Eistlandi er ástandið að því leyti betra að þar er meiri ró yfir hlutunum, þar er ekki eins næm tilfinning fyrir yfirvofandi hættuástandi þótt forustumenn drægju enga dul á það að röðin gæti komið að þeim hvenær sem væri. Þeir hafa víggirt aðsetur ríkisstjórnarinnar. Þegar ég tala um víggirðingar, þá á ég ekki við vopnaðar varnarsveitir heldur einfaldlega að fólk hefur flutt á staðinn allt sem tiltækt er, þungavinnuvélar, vöruflutningabíla og steinsteyptar blokkir til þess að torvelda aðgengi skriðdrekasveita eða brynvarinna vagna.
    Þær tilfinningar sem bærast í brjósti manns þegar maður er þátttakandi í þessum atburðum eru kannski ekki skiljanlegar nema menn átti sig á því hvað á undan er gengið.
    Það er ekki einasta að Eystrasaltsþjóðirnar hafi mátt þola það sem þátt í annarri heimsstyrjöld að verða fyrir vopnaðri innrás, hernámi og innlimun í annað ríki. Saga sovéska hernámsliðsins í þessum löndum og leppstjórna þeirra, sérstaklega frá stríðslokum fram til 1956, er glæpasaga. Niðurstaða þess stjórnarfars að því er varðar Eista er það að um fimmtungur þjóðarinnar fórst, ýmist með fjöldaaftökum eða í formi nauðungarflutninga í gúlagið þaðan sem fáir áttu afturkvæmt. Sömu sögu er að segja um hin ríkin en við þetta bættist síðan --- fyrir utan hreinsanir og nauðungarflutninga sem stóðu yfir á hverju ári frá 1946 --- þá var kerfisbundið að því unnið að uppræta þjóðtungu og menningu með því að banna að tala mætti á máli eigin þjóðar hvort heldur var í verslun, viðskiptum eða í æðri menntastofnunum og það var útilokað að stunda nám nema því aðeins að menn yndu því að tunga herraþjóðarinnar yrði skör hærri. Að sjálfsögðu var ritskoðun alger og ströng viðurlög við allri andlegri starfsemi í þágu þjóðernis og þjóðmenningar.
    Ég hitti þarna tugi ef ekki hundruð fólks. Ekki einn einasti þeirra, ekki einn einasti maður sem ég hitti hafði aðra sögu að segja en þá að fjölskylda hans ætti með einum eða öðrum hætti um sárt að binda af völdum þessarar ógnarstjórnar. Þetta hefur staðið í hálfa öld. Þegar farið var að losa um þrælatökin fyrir nokkrum árum kom á daginn að þetta tilræði við þessar þjóðir og tilveru þeirra hafði mistekist. Tungumálið, menningin, þjóðarvitundin, þetta lifði sem aldrei fyrr. Og það er einmitt þess vegna sem fólkið á götunum, sem hefur ekkert sér til varnar annað en sannfæringu sína, réttlæti og siðgæðisvitund, syngur.
    Ef lýsa á mati forustumanna þessara þjóða á því hvað er að gerast, hverjir eru það sem hafa beitt sérsveitum til ofbeldisverka, hvað gengur þeim til, hvaða áætlanir búa þar að baki, hver er tilgangurinn, að hverju er stefnt, þá er það sameiginlegt mat þeirra

allra og um það er enginn ágreiningur að hér sé unnið eftir kerfisbundinni áætlun. Það er mat þeirra að menn í innsta hring í æðstu stjórn Sovétríkjanna hafi talið óumflýjanlegt að láta til skarar skríða, kveða niður þessar sjálfstæðishreyfingar, gera þessi þjóðþing brottræk, koma á leppstjórnum í nafni þess að koma á lögum og reglum og forða upplausn. Það er talið að að þessari áætlun hafi staðið forsetaembættið í Sovétríkjunum, varnarmálaráðuneytið, leynilögreglan KGB og innanríkisráðuneytið, sem reyndar stýrir þeim sérsveitum sem beitt hefur verið í upphafi.
    Það munu hafa verið áformin, og fyrir þessu telja menn sig hafa traustar heimildir, að láta til skarar skríða af fullum þunga um það leyti sem Persaflóastríð hæfist þannig að þetta mætti gerast meðan hið veraldlega samfélag liti undan eða til annarrar áttar, en þetta ætti að gerast í nokkrum áföngum og þá þannig að byrja með því að efna til ofbeldisaðgerða með sérsveitum. Þær eru ýmist fallhlífarhermenn eða svokallaðar Svarthúfusveitir
sem eru sérstakar sveitir ofbeldisseggja á vegum innanríkisráðuneytisins. Þannig átti að skapa tilefni til átaka, helst af öllu að egna Eystrasaltsþjóðirnar eða almenning til mótstöðu með vopnavaldi þannig að unnt væri að búa sér til tilefni til yfirtöku með fullum herstyrk.
    Þegar spurt er hvers vegna þessu hafi ekki verið framfylgt, þá eru ýmsar skýringar á því. Þeim sem að þessari áætlun stóðu mun hafa komið á óvart að þegar uppvíst var um hvert stefndi þá tóku nánast þjóðirnar sjálfar í taumana og gerðu mönnum það skiljanlegt með nærveru sinni að ef valdi yrði beitt þá yrði það blóðbað og það blóðbað yrði mikið.
    Í annan stað mun það hafa komið á óvart eftir fyrstu morðin í Vilnu að viðbrögð manna og þjóða og stofnana á Vesturlöndum urðu sterkari heldur en búist var við. Og þau voru það. Þau voru sneggri og þau voru ákveðnari og um það eru mörg dæmi.
    Almennt hafði verið ráð fyrir því gert að forusturíki Vesturlanda, eins og Bandaríkin, teldu sig eiga of mikið í húfi vegna samstöðunnar í átökunum við Persaflóa til þess að þau treystu sér til að styggja valdhafa í Kreml. Einnig var vitað að þýska ríkisstjórnin taldi sig mjög skuldbundna forseta Sovétríkjanna eftir samþykki hans við sameiningu Þýskalands og áframhaldandi veru Þýskalands í Atlantshafsbandalaginu, þannig að þeir treystu því að viðbrögð yrðu linleg og þess vegna væri rétti tíminn til að láta til skarar skríða nú.
    En viðbrögðin urðu miklu sterkari. Það má minna á að alls staðar á Vesturlöndum voru sendiherrar Sovétríkjanna kallaðir fyrir þegar í stað. Þessu var harðlega mótmælt. Það var varað við afleiðingunum. Ég minni á það sem gerðist hér, forsrh. íslensku ríkisstjórnarinnar skrifaði þegar bréf þar sem hann kvað fastar að orði heldur en kollegar hans aðrir á Norðurlöndum. Sameiginlega gerðu forsætisráðherrar Norðurlanda það hið sama og að sjálfsögðu utanríkisráðherrar.
    Til þess að verða við óskum Landsbergis beitti ég

mér fyrir því að fá þetta mál tekið upp innan Sameinuðu þjóðanna á vettvangi öryggisráðsins. Það gerði ég í samráði við aðra, fyrst innan samstarfsins við Norðurlönd þar sem eitt Norðurlandanna á fulltrúa í öryggisráðinu sem er Finnland. Það tókst því miður ekki. Einnig í samráði við Bandaríkin. Ég hef gert grein fyrir því í ríkisstjórn og í utanrmn. hvað gert hefur verið í þessu efni, hvað gera þarf til þess að það geti náð fram að ganga. Því máli er ekki lokið en það hefur ekki borið árangur. Þegar það bar ekki árangur þá beitti ég mér fyrir því að skrifa öllum utanríkisráðherrum Atlantshafsbandalagsríkja og reyndar bandalaginu sjálfu. Viðbrögðin voru afar góð og að því leyti óvænt að það hafði ekki gerst áður. Allir brugðust snarlega við og Atlantshafsbandalagið gaf út í fyrsta sinn varðandi þessi mál sameiginlega yfirlýsingu fyrir hönd allra aðildarríkja.
    Ég legg á það áherslu, vegna þess að mér var gefið það rækilega til kynna í þessum viðtölum, að í Kreml er borin mikil virðing fyrir Atlantshafsbandalaginu og þótti miklum tíðindum sæta sú samstaða sem þarna náðist og einnig þær tillögur sem strax komu fram innan Evrópubandalagsins, reyndar að frumkvæði starfsbróður míns Uffe Ellemans Jensens, um það að bandalagið endurskoðaði allar áætlanir sínar um efnahags- og fjárhagslega aðstoð við miðstjórnarvaldið í Moskvu. Þetta kom á óvart.
    En það var kannski þriðji þáttur þessa máls sem skipti mest sköpum og ég vil leggja á höfuðáherslu. Þegar í stað eftir að ljóst var um ódæðisverkin í Vilnu bar það til tíðinda að forseti Rússlands, Boris Jeltsín, kom á að eigin frumkvæði fundi sínum og forseta Eystrasaltslandanna allra að undanteknum Landsbergis sem ekki gat sótt þann fund. Á þessum fundi gerðu þeir með sér og undirrituðu samning sem m.a. felur í sér óskoraða viðurkenningu, gagnkvæma, Rússlands á sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og gagnkvæmt Eystrasaltsríkjanna á Rússlandi sem sjálfstæðu ríki.
    Þess skal að vísu getið að vegna þjóðréttarlegrar sérstöðu Litáens þá er sá samningur ekki undirritaður enn að því er þá varðar, þarfnast endurskoðunar, en ef ég hef réttar upplýsingar þá liggur þessi sögulegi samningur nú fyrir til staðfestingar í rússneska þinginu í dag og á morgun.
    Forseti Rússlands lýsti því jafnframt yfir í útvarpsávarpi til rauða hersins að samkvæmt lögum rússneska ríkisins væri hverjum þegn þess sem þjónaði í rauða hernum óheimilt að bera vopn og beita vopnum utan landamæra ríkisins án þess að það væri samkvæmt fyrirskipun réttra rússneskra stjórnvalda.
    Þriðja málið sem hann gerði var að hann lýsti því yfir í rússneska þinginu, þegar samningurinn var kynntur, að hann mundi innan tíðar, reyndar fyrir lok þessa mánaðar, leggja fram lagafrv. þar sem rússneska ríkið tæki í sínar hendur alla yfirstjórn varnarmála og þar með hersins að því er varðaði rússneska ríkið. Hann hefur enn fylgt þessu eftir með því að boða innan hálfs mánaðar til fundar fjögurra ríkja, Rússlands, Úkraínu, Hvíta-Rússlands og Kasakstans, þar sem hann hyggst beita sér fyrir undirritun sambandslagasamnings þessara ríkja sem byggir á allt öðrum hugmyndum en þeim sem forseti Sovétríkjanna hefur að undanförnu sagst vilja koma fram og þvinga ríkin til undirskriftar að. Þessi sáttmáli byggir á því að þarna eru fjögur fullvalda ríki, hvert um sig hefur forsvar og forræði eigin mála að fullu og öllu leyti, þar með talin varnarmál og hermál, en mynda með sér ríkjabandalag um einn þjóðhöfðingja og e.t.v. sameiginlega utanríkisstefnu.
    Þetta eru mikil tíðindi og þetta var það mál sem mest var rætt í öllum pólitískum viðræðum mínum við forustumenn Eystrasaltsríkjanna vegna þess að þeir sögðu einfaldlega: Þegar þúsundirnar eða hundruð þúsundanna komu saman í Moskvu til þess að mótmæla ofbeldisverkum sérsveitanna í Rígu, þá var það meginstefið í ræðum manna og blasti við á skiltum: Vilna í gær, Ríga í dag, Moskva á morgun.
    Forustumenn Eystrasaltsríkjanna sögðu: Þetta eru svo söguleg tíðindi að menn um allan heim, ekki bara við heldur forustumenn vestrænna ríkja og allra þjóða í samfélagi þjóðanna, hljóta að bregðast við með einum eða öðrum hætti. Þau átök sem nú fara fram hér eru ekki lengur bara átök þriggja smáþjóða sem eru að berjast fyrir lífi sínu og sjálfstæði. Þetta eru orðin átök milli lýðræðisaflanna í því sem áður var nýlenduveldi Sovétríkjanna við leifar hins gamla kerfis sem er herinn, leynilögreglan, varnarmálaráðuneytið og leifarnar af Kommúnistaflokknum.
    Að undanförnu hefur skapast tómarúm í Sovétríkjunum vegna stjórnleysis. Forseti Sovétríkjanna hefur með formlegum hætti safnað á sínar hendur meiri formlegum völdum heldur en Jósef Stalín hafði nokkru sinni. Á sama tíma hefur það smám saman verið að gerast að hin einstöku aðildarríki sambandsríkisins hafa verið að styrkja stöðu sína að mörgu leyti gegnum myndun lýðræðislega kjörinna þjóðþinga og lýðræðislega kjörinna sveitarstjórna, svo ég nefni dæmi, borgarstjórn Moskvu og borgarstjórn Leníngradborgar.
    Forseti Sovétríkjanna gefur út tilskipanir sem stangast á við og brjóta í bága við lög og reglur þjóðríkjanna og ná ekki framkvæmd. Aðildarríkin, sem raunverulega hafa í reynd lýst yfir sjálfstæði, samþykkja lög og reglur en vegna valdastofnana alríkisins ná þær ekki fram að ganga. Sérstaklega hefur þetta hindrað að rússneska þingið geti komið í framkvæmd þeim umbótaáætlunum, lýðræðislegum, stjórnarfarslegum og efnahagslegum, sem eru þær einu umbótaáætlanir sem til eru í því landi, þ.e. um að skila landi til bænda, um það að leysa upp einokunarstofnanir miðstjórnarvaldsins og breyta þeim í fyrirtæki, koma á hlutabréfamarkaði, koma á myntsláttu, koma á sérstökum gjaldmiðli sem nothæfur væri í viðskiptum og koma á bankakerfi, breyta löggjöf þannig að unnt sé að stofna fyrirtæki og starfrækja fyrirtæki, þar með með aðild erlendra aðila, á grundvelli laga og réttar. Þessar áætlanir eru til, þær eru lögfestar en þær ná ekki fram að ganga vegna þess að það er stöðvað af miðstjórnarvaldinu. Þess vegna er tómarúm, þess vegna er upplausn, þess vegna er stjórnleysi.

    Og ef menn vilja líta á málið frá hlið valdhafanna í Kreml, þá er nú svo komið að í örvæntingu sinni telja þeir ekki annað eftir en að beita þeim stofnunum sem einar eru starfhæfar eftir, her, lögreglu og sérsveitum, til þess að binda endi á þetta stjórnleysi en þar með á lýðræðisþróunina, þar með á umbótaþróunina.
    Forustumenn Eystrasaltsríkjanna segja: Þetta hlýtur að knýja á um allsherjarendurskoðun á afstöðu vestrænna ríkja, og leggja á það áherslu að þar skiptir langsamlega mestu máli áform vestrænna ríkja um fjárhagslegan og efnahagslegan stuðning við miðstjórnarvaldið. Þeir segja einfaldlega: Í guðanna bænum stöðvið þessar áætlanir. Í guðanna bænum haldið ekki áfram að moka milljörðum dollara í tóma sjóði þessa miðstjórnarvalds. Þeir eru til þess að kosta það vald sem ætlar nú að kveða niður vonir manna um lýðræði og umbætur í Sovétríkjunum og mun að lokum halda uppi þeim hersveitum sem eiga að ganga milli bols og höfuðs á lýðræðis- og umbótaöflunum. Það getur ekki verið stefna vesturveldanna. Þess vegna er það meginatriðið. Endurskoðið þessa stefnu.
    Þeir lögðu höfuðáherslu á það að það væri rétta leiðin sem birtist í ákvörðun Evrópubandalagsins um að frysta sínar áætlanir. Síðan sögðu þeir: Beinið þeim í aðrar áttir. Beinið þessum fjárhagsstuðningi þangað þar sem þessi aðstoð mun koma að gagni við að styrkja lýðræði og umbætur í sessi, til einstakra ríkja, Eystrasaltsríkjanna og til Rússlands. Þar munuð þið finna að er bæði pólitískur vilji og skilningur og tillögur um það hvernig þessu megi hrinda í framkvæmd.
    Virðulegi forseti. Þegar komið er að þeirri spurningu hverjar eru horfurnar fram undan og hvað getum við gert, þá er það ekki á mínu valdi að svara því nema á mjög ófullkominn máta. Það er algjör óvissa ríkjandi um framhaldið. Menn búast við hinu versta, menn vita ekki betur en enn verði reynt að halda þessari áætlun til streitu, en menn bíða og spyrja sjálfa sig: Munu mótmælaaðgerðir, munu aðgerðir vestrænna ríkja til þess að þrýsta á miðstjórnarvaldið til að beygja af þessari braut, munu þær duga? Hvað er það annað sem þarf að gera til að þessi skilaboð komist áleiðis og hafi áhrif? Duga þau? Er valdhöfum í Sovétríkjunum í mun að bjarga því sem bjargað verður af þeim ávinningi sem þó þrátt fyrir allt hefur náðst af þeirri stefnu sem kennd var við perestrojku og glasnost? Vegna þess að við megum ekki gleyma því að sá ávinningur er umtalsverður.
    Það er í skjóli þeirrar stefnu sem fyrstu skrefin voru stigin í þá átt að opna fyrir pólitíska og lýðræðislega umræðu í Sovétríkjunum sjálfum. Það er undir formerkjum þeirrar stefnu sem stjórnarskrárbundin valdaeinokun Kommúnistaflokksins var afnumin. Það er fyrir þá sök að Gorbatsjov forseti lét undir höfuð leggjast eða afsalaði sér því valdi að beita hernum að hin lýðræðislega bylting í Austur-Evrópu náði fram að ganga. Og það ber ekki að gleyma því að hið gerbreytta alþjóðlega andrúmsloft sem skapaðist á grundvelli þessarar stefnu leiddi til árangurs. Hann leiddi til

árangurs að því er varðaði hinn nýja mannréttindasáttmála Evrópu, Helsinki - sáttmálann. Hann leiddi til stórkostlegustu afvopnunarsamninga sem nokkurn tímann hafa verið gerðir í sögu Evrópu og eru þegar undirritaðir og kveða á um eyðileggingu vopna með meiri eyðingarmætti heldur en beitt var í allri seinni heimsstyrjöldinni. Hann leiddi til Parísaryfirlýsingarinnar þar sem við sjáum undirritaða með eigin hendi Gorbatsjovs og Sjévardnadses yfirlýsingu um nýtt tímabil í samskiptum Evrópuþjóða sem skuli byggð framvegis á grundvallarreglum alþjóðalaga, sem skuli byggð á grundvallarreglum um virðingu á sjálfsstjórnarrétti þjóða, rétti þjóða til sjálfstæðis og fullveldis, skuli byggð á grundvallarreglum um virðingu fyrir mannréttindum o.s.frv.
    Þegar við spyrjum hvað við getum gert til þess að forða ógæfunni og beina Sovétstjórninni frá þeirri ógæfulegu stefnu sem nú stefnir í þá er það náttúrlega númer eitt að halda þeim við þessar skuldbindingar, að krefjast þess að við þær verði staðið. Og ef ekki fæst fullvissa um að svo verði, að endurskoða þá alla þá afstöðu sem við höfum, ekki kannski fyrst og fremst til að stöðva aðstoð við Sovétríkin eða þessar þjóðir, heldur til þess að beina aðstoðinni ekki til miðstjórnarvaldsins, sem svo ógæfulega heldur á málum, heldur til þeirra sem eru í fararbroddi fyrir lýðræðislegum umbótum og þar sem þetta getur komið að notum.
    Ef spurt er um einstakar tillögur þá nefni ég þessar sem mönnum voru efst í huga: Hvað getum við gert?
    Í fyrsta lagi: Eflum samskipti þjóðþinganna. Þjóðþingin, þjóðfundirnir í þessum löndum eru meginstofnun lýðræðisins. Við verðum að verja þjóðþingin og bein og milliliðalaus samskipti þjóðþinganna er kannski það sem ætti að gerast strax og fyrst. Sendið sendinefndir þingmanna. Megum við eiga von á því að það komi sendinefndir frá öllum þjóðþingum Evrópu? Frá Evrópuþinginu? Evrópuráðinu? Vilja þingmenn á Vesturlöndum beita sér fyrir því og hafa að því frumkvæði að þingin, þjóðþingin sjálf rétti hjálparhönd, sýni samstöðu í verki og taki með þeim vaktina í Vilnu, Rígu og Tallinn.
    Í öðru lagi: Gerið allt sem þið getið til þess að knýja Sovétstjórnina til að standa frammi fyrir skuldbindingum sínum. Þeir hafa undirritað Helsinki - lokaskjalið, þeir hafa undirritað Parísaryfirlýsinguna. Innan Ráðstefnunar um samvinnu og öryggi í Evrópu, takið þetta mál upp, haldið þeim við það efni, finnið leiðir til þess fram hjá erfiðum formsatriðum, þrátt fyrir neitunarvald Sovétríkjanna, að halda þeim við þetta efni. --- Um þetta höfum við lagt þegar fram skriflegar tillögur sem ræddar voru í ríkisstjórn í morgun af okkar hálfu.
    Í þriðja lagi: Vettvangur Sameinuðu þjóðanna. Hvað sem menn vilja segja um Sameinuðu þjóðirnar í upphafi þá hafa þær gegnt í sívaxandi mæli því hlutverki sem stofnendur þeirra ætluðust til. Sáttmáli hinna Sameinuðu þjóða kveður á um það hvernig haga skuli samskiptum þjóða. Þar er vettvangur vegna þess

líka að Helsinki - ferillinn er innan ramma Sameinuðu þjóðanna. Takið upp málið innan Sameinuðu þjóðanna, ef ekki innan öryggisráðsins, þá á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Styðjið tillöguna, beitið ykkur fyrir tillögunni um það að þegar í stað verði kvödd saman alþjóðleg ráðstefna undir formerkjum Sameinuðu þjóðanna til þess að ræða hin pólitísku vandamál Eystrasaltsríkjanna og til þess í framhaldi af því að bjóða fram milligöngu einstakra ríkja, e.t.v. Norðurlandanna til að koma á raunverulegum samningum um það með hvaða hætti þessar þjóðir, þegar þær hafa endurheimt sjálfstæði sitt, geta framkvæmt það og náð rétti sínum í samningum við Sovétríkin.
    Í fjórða lagi: Efnahagsaðstoðin. Ég hef reyndar þegar sagt það. Stoppið þetta. Beinið því þangað sem það kemur að notum. Fjármagnið ekki þá sem ætla að standa yfir höfuðsvörðum lýðræðis og umbóta í okkar heimshluta með vopnavaldi. Það skiptir höfuðmáli. Þar með biðja menn um að forustumenn lýðræðisþjóðanna í hópnum sem kenndur er við G-24 innan OECD, innan Evrópubandalagsins, innan Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, í nýja Evrópubankanum um þróun og fjárfestingar í Austur-Evrópu og í tvíhliða samskiptum ríkjanna. Hvað eru Bandaríkin, Þýskaland, Japan og Frakkland að gera? Ætlið þið að moka peningum í kistur rauða hersins? Samstaða alþjóðlegra samtaka. Það er lykilmálið.
    Þá ætla ég að koma að máli sem hefur mikið verið rætt hér á heimavettvangi og varðar viðurkenningu á sjálfstæði þessara ríkja og spurninguna um það að taka upp svokölluð diplómatísk samskipti. Stundum virðist mér sem þetta hafi verið gert að meginmáli hér í umræðunni heima. Rifjum upp: Íslendingar hafa áréttað að þeir viðurkenndu sjálfstæði þessara ríkja á sínum tíma. Þeir hafa aldrei afturkallað þá viðurkenningu, þeir hafa aldrei fallist á innlimun þessara ríkja í Sovétríkin. Það skortir ekkert á að við höfum viðurkennt sjálfstæði þessara ríkja. En lítum á málið ögn nánar.
    Það vill svo til að þjóðréttarleg staða þessara þriggja ríkja er nokkuð ólík innbyrðis, þ.e. hún er önnur að því er varðar Litáen heldur en Eistland og Lettland.
    Í Eistlandi og Lettlandi voru gefnar út sjálfstæðisyfirlýsingar sem voru markmiðslýsingar um það að stefnt skuli að endurreisn hinna gömlu lýðvelda. Jafnframt voru settar upp starfsnefndir til þess að endurskoða stjórnarskrá og kosningalög. Síðan skal stefnt að lýðræðislegum kosningum og þar með myndun lýðræðislegs fulltrúaþings og myndun ríkisstjórnar sem raunverulega á grundvelli nýrrar stjórnarskrár endurreisi ríkin, því verki er ekki lokið, og hafi síðan það hlutverk að semja um framkvæmdaratriði um það hvernig þau verði losuð úr tengslum við Sovétríkin. Þetta er staðan að því er varðar Eistland og Lettland.
    Og ég segi það hreinskilnislega af því að ég ræddi þetta mjög rækilega við forustumenn allra ríkjanna. Þeir óska ekki eftir því að við göngum lengra að því er varðar viðurkenningarmálin og segja: Það er ekki tímabært og ekki forsendur fyrir því að skiptast á

sendifulltrúum, við höfum ekki stofnað okkar ríki. En þeir eru þakklátir fyrir þann stuðning sem við höfum veitt.
    Það gegnir öðru máli að því er varðar Litáen. Litáen fór aðra leið. Sjálfstæðisyfirlýsing Litáens var yfirlýsing um endurreisn ríkis, um sjálfstæði Litáens frá og með þeim tíma. Þar með var því lýst yfir að sovésk stjórnarskrá og sovésk lög ættu ekki lengur við í því sjálfstæða ríki. Fulltrúar í fulltrúastofnunum innan miðstjórnarkerfisins, svo sem í þjóðfulltrúaþingi Sovétríkjanna í heild, voru kallaðir heim. Litáen er samkvæmt þessu sjálfstætt ríki nú þegar. Þeir hafa endurreist sitt gamla lýðveldi. Og það er fullkomlega eðlilegt mál að þeir óski eftir því, og það er þeirra sérstaða, að það verði viðurkennt sem nú þegar sjálfstætt ríki og síðan það skref tekið að efna til diplómatískra tengsla við það ríki.
    Eins og kunnugt er hefur ekkert ríki enn tekið það skref að taka upp að fullu diplómatísk samskipti. Fjöldinn allur af ríkjum hefur sagt: Við viðurkennum sjálfstæði Litáens. Við gerðum það á sínum tíma. Við höfum ekki tekið það til baka. Sú viðurkenning er í fullu gildi. En spurningin um diplómatísk samskipti, ekkert ríki hefur enn gert það að fullu. Hins vegar hafa ýmis ríki reynt að gera það eftir öðrum leiðum. Og hvers vegna ekki? Þetta er ekki einhliða mál fyrir okkur að taka ákvörðun um. Þetta er tvíhliða mál fyrir okkur og viðtökuríkið að ná samningum um. Spurningin er sú ef við Íslendingar vildum gera það --- og enginn efast um vilja okkar til þess, það held ég að enginn geri --- að tilnefna sendiherra, sem sennilega sæti í einhverju öðru ríki, og koma síðan upp ræðismönnum, þá er það nú ekki stærra mál en það að það eru á því þeir framkvæmdarörðugleikar að ef sendiherrann ætti að koma til landsins til þess að afhenda skilríki sín og taka við útnefningu hjá viðtökulandinu, þá gerðist annað af tvennu: Hann yrði sennilega fangelsaður á landamærunum eða að hann yrði að koma inn í landið, eins og utanríkisráðherra Íslands gerði, með sovéska vegabréfsáritun sem er óaðgengilegt fyrir hið litáíska ríki. Þetta eru framkvæmdarerfiðleikar sem ég spyr auðvitað og ræði við menn um: Hvernig getum við komist fram hjá þessu? Getur það verið að það sé mál númer eitt að ef við gerum þetta, þá kannski komi einhverjir aðrir á eftir og þetta sé öryggisatriði ef hættuástand skapast? Nú er það ekki mitt að dæma um það.
    Það er rétt og satt að í viðræðum Landsbergis óskaði hann eftir því að þetta yrði gert. Og það er rétt og satt að ég sagði: Í ljósi breyttra aðstæðna mun ég beita mér fyrir því að okkar afstaða hingað til verði endurskoðuð, að við leitum allra leiða sem færar kunna að reynast til að verða við þessari ósk.
    Hvað á ég við með breyttum aðstæðum? Ég vísa aftur til þess sem ég sagði áðan. Rússland hefur gert samning um að viðurkenna þessi ríki og óskorað sjálfstæði þeirra, að vísu ekki Litáens enn, en ég treysti því að það verði sama niðurstaða. Það þurfum við að endurskoða. Ætlum við að veita Rússlandi viðurkenningu? Ætlar alríkisstjórnin í Kreml að vísa Rússlandi

úr sovéska samveldinu? Rússland boðar að þeir muni taka upp einhvers konar fulltrúaskipti, einhvers konar diplómatísk tengsl við Litáen með því að senda þangað ekki sendiherra heldur sendifulltrúa og það verður gert á gagnkvæmum grundvelli. Hvort þeir yfirstíga þau framkvæmdaratriði að sendifulltrúum þeirra verði gert leyfilegt að starfa, ja, á það verður kannski látið reyna.
    Það eru almenn skilyrði þess þegar skipst er á sendifulltrúum, tekin eru upp diplómatísk tengsl að ríkisstjórn í viðtökulandinu ráði yfir landsvæði sínu, ráði landamærum, ráði yfir vegabréfaútgáfu, ráði yfir þegnréttindum og geti tryggt öryggi sendimanna sem þar starfa. Ég segi: Þetta eru svona hin almennu skilyrði. Við erum hins vegar hér að sjálfsögðu að tala um neyðarrétt. Við erum að tala um þjóð sem er í háska stödd. Við viljum vera vinir í raun. Við viljum fylgja eftir sjálfstæðisviðurkenningu okkar og við viljum gera það sem okkur er kleift.
    Hvað hafa önnur ríki gert? Norðurlöndin hafa sett upp upplýsingaskrifstofur. Norðurlöndin hafa í sumum þessara landa sett upp ræðismannsskrifstofur sem eru hins vegar deildir frá ræðismannsskrifstofum í öðrum löndum. Það er ekki viðunandi fyrir Litáa. En eitt hefur gerst sem er nýtt fyrir utan Rússland. Það er það að Tékkóslóvakía, Pólland og Ungverjaland hafa til þess að verða við þessum óskum gert þetta á vettvangi þjóðþinganna. Þjóðþingið í Varsjá og þingin í Prag og Búdapest hafa sent fastafulltrúa til þjóðþingsins í Litáen og það er gert á gagnkvæmnisgrundvelli. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að hitta fulltrúa Póllands og Tékkóslóvakíu því að þeir voru þarna í þinghúsinu. Ég spyr: Getur þetta orðið fyrsta skrefið? Um þetta segi ég ekki annað en það að ég vænti þess að það verði enginn ágreiningur á milli okkar í þessu efni. Við erum hér að fást við óvenjulegar kringumstæður. Við viljum leita allra leiða til þess að leysa þetta mál þannig að það geti orðið þeim að liði og þannig að það geti komið til framkvæmda.
    Að öðru leyti má telja upp margar hugsanlegar aðgerðir og margar hafa verið nefndar hér. Að utanríkisráðherrar Norðurlanda óski eftir fundi með utanríkisráðherra Sovétríkjanna, það kemur til álita en er ekki tímabært á þessari stundu.
    Forsætisráðherra Eistlands lagði á þetta höfuðáherslu: Byggið betur upp tillögur ykkar um að bjóða fram Reykjavík eða einhverja norræna höfuðborg sem vettvang fyrir samninga og þróið betur tillögurnar um milligönguhlutverk einhvers Norðurlandanna. Byrjið á því að taka það hlutverk að ykkur og ræða þó ekki væri nema við annan deiluaðilann. Leitið svo til hins. Haldið þessari hugmynd vakandi í tengslum við hugmyndina um alþjóðlega ráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna.
    Þannig mætti lengi telja. Ég hef rætt um viðurkenningarmálið og um spurninguna um að taka upp diplómatísk samskipti. Mikið hefur verið spurt um viðskiptanefndina sem var að störfum í Mosvku. Hún er horfin frá Moskvu svo að hún verður ekki kölluð til baka. Hún er farin. Fækkun í sendiráði Sovétríkjanna. Það er mál sem sjálfsagt er að athuga en ekki hefur verið tekin ákvörðun um. Að kalla sendiherrann í Mosvku heim. Ég er andvígur þeirri tillögu af þeirri einföldu ástæðu að nú er okkur lífsnauðsyn að hafa sendiherra í Moskvu. Spurningin er hins vegar: Á hann líka að gegna því hlutverki að vera sendifulltrúi íslenska ríkisins gagnvart stjórnvöldum Rússlands?
    Virðulegi forseti. Ég biðst velvirðingar á því að það hefur tognað úr þessu máli mínu. Ég viðurkenni að mér lá mikið á hjarta. Ég er stoltur af því að Alþingi Íslendinga hefur skapað sér þann sess í vitund þeirra manna sem þarna eru í andlegri og líkamlegri herkví að það er borin virðing fyrir elstu löggjafarsamkundu heimsins, kannski meiri heldur en fyrir stærri og máttarmeiri stofnunum. Ég held að framganga okkar í þessu máli sýni að atfylgi á alþjóðlegum vettvangi byggist ekki á hersveitum, byggist ekki á höfðatölu. Ef við stöndum saman og ef við fylgjum réttum málstað, þá eru því kannski lítil takmörk sett sem við getum fengið áorkað ef fram er gengið af góðum hug. --- Ég þakka, forseti.