Ástand mála í Eystrasaltsríkjunum
Þriðjudaginn 22. janúar 1991


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá greinargerð sem hann hefur hér gefið og enn frekar og enn fremur fyrir þá ferð sem hann tók sér fyrir hendur til Eystrasaltsríkjanna og hefur miðlað okkur hér nokkru af því sem fyrir augu og eyru bar á því ferðalagi. Vissulega má segja að það sé kannski ekkert eitt sem sker úr í því sem hann flytur okkur hér. Jafnvel þessi ríki hafa færst nær okkur einnig í fréttum, máli og myndum, á undanförnum dögum. Áhorfendur sjónvarps hafa getað horft á það sem hæstv. ráðherra var að draga upp í frásögn sinni, t.d. frá höfuðborg Lettlands, Ríga, þar sem fólkið hefur verið að orna sér í hinum pólitíska kulda og kulda janúarmánaðar við elda á götum úti.
    Þó er það svo að ekki er nokkur vafi á því að ferð hæstv. ráðherra hefur haft þýðingu fyrir þessi ríki og fyrir þá baráttu sem þau heyja nú þegar, þar sem hann hefur lagt lóð á vogarskál sem fleiri þyrftu að gera sem eru í forustu í ríkisstjórnum á Vesturlöndum um þessar mundir. Og hann hefur með eðlilegum hætti flutt þær áherslur, sem hér hafa verið uppi á Alþingi Íslendinga um stuðning við málstað þessara þjóða og sjálfstæðisbaráttu, inn á vettvang þeirra sjálfra, til þjóðþinga og til forustumanna í stjórnmálum og forseta þessara landa og það er vel. Fyrir það ber að þakka.
    Ég tel að það sem hér hefur komið fram af hálfu hæstv. ráðherra beri vott um að það er hugur hjá stjórnvöldum hér að fylgja þessu máli eftir með skilmerkilegum hætti. Við ræddum það utan dagskrár í gær hér á Alþingi. Þá bættist við í safn þeirra hugmynda sem alþingismenn höfðu áður komið fram með fyrir utan ályktanir um stuðning við þessar þjóðir. Ríkisstjórn landsins hefur þannig úr nógu efni að moða, hugmyndum frá Alþingi Íslendinga og það er nauðsynlegt og brýnt að úr þeim hugmyndum verði unnið hið allra fyrsta.
    Ég tek undir með þeim sem hér hafa mælt fyrir því að ekki verði látið sitja við orðin tóm í þessum efnum, og ferðir og frásagnir, heldur að unnið verði af hálfu íslenskra stjórnvalda eftir markvissri áætlun um aðgerðir, gripið til þess sem best má koma að gagni baráttu þessara þjóða við núverandi aðstæður og á þeim dögum sem fram undan eru. Satt að segja er safn þeirra hugmynda sem fram hefur komið það mikið að okkur kemur vart til hugar að það verði gripið til alls þess sem þar er nefnt á stundinni, heldur er þar af mörgu að taka sem velja má úr og beita eftir því sem skynsamlegast þykir.
    Ég hef sagt að ég telji að ekkert af því sem bent hefur verið á eigi að útiloka, t.d. upptaka stjórnmálasambands við Litáen, sem er til skoðunar og þar sem ákvarðanir hljóta að verða teknar að athugun lokinni mjög fljótlega. Hér var í umræðu í gær alveg lögð sérstök áhersla á vettvang Sameinuðu þjóðanna, að við ýttum við þeim vettvangi í samvinnu við Norðurlandaþjóðir eða einhliða, bæði gagnvart öryggisráðinu og allsherjarþinginu. Og þau alþjóðasamtök eru mörg

þar sem við höfum þegar hreyft þessu máli en þurfum að fylgja því eftir af auknum þrótti á næstu dögum.
    Nú stendur t.d. yfir á Möltu ráðstefna í framhaldi af Parísaryfirlýsingunni um öryggismál Evrópu þar sem verið er að fjalla um hvernig leysa megi deilumál ríkja með friðsamlegum hætti. Það sem hér er uppi er einmitt spurningin um friðsamlega lausn deilumála.
    Fram undan eru fundir á vegum nefnda Norðurlandaráðs í Stokkhólmi á mánudag og þriðjudag í næstu viku. Þingmenn í Norðurlandaráði mynda svokallaða Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Þar var á fundi í morgun rætt um það með hvaða hætti nýta mætti samkomuna í Stokkhólmi, þá staðreynd að þar eru flestir þingmenn sem sæti eiga í Norðurlandaráði staddir, til þess að fjalla um málefni Eystrasaltsríkjanna og koma á framfæri í nafni þingmanna í Norðurlandaráði sem kröftugustum stuðningsyfirlýsingum við málstað þeirra og mótmælum gegn þeim órétti sem þau hafa verið beitt að undanförnu.
    Ég hefði talið að æskilegast væri að Norðurlandaráð kæmi saman til sérstaks aukafundar af þessu tilefni. Kerfi Norðurlandaráðs er dálítið svifaseint og þungt í vöfum. Það má vera að ekki takist að boða til sérstaks aukafundar á þessum sama tíma sem væri þó hin eðlilegasta og æskilegasta ráðstöfun til þess að fjalla um þessi mál. Verði það ekki þarf samt á þessum vettvangi, og verður vonandi gert, að koma viðbrögðum á framfæri í formi yfirlýsinga af hálfu þingmanna í Norðurlandaráði.
    Hér hefur verið rætt um heimsóknir fulltrúa frá Alþingi Íslendinga til Eystrasaltsríkjanna. Það ætti að vera sjálfsagður hlutur að svo væri gert. Raunar flutti ég þegar sl. sumar, í júnímánuði 1990, boð frá forseta eistneska þingsins til Alþingis Íslendinga um að senda nefnd frá Alþingi til eistneska þingsins. Það hefur ekki verið gert enn þá og hefði betur verið í það ráðist fyrr. Ég tel að ekki eigi að draga að taka ákvarðanir um þetta efni og það jafnt varðandi Eistland sem önnur ríki við austanvert Eystrasalt, þ.e. Lettland og Litáen einnig.
    Ég tel, virðulegur forseti, að við eigum að varast það hér á Alþingi Íslendinga að gera þessi mál, stuðninginn við Eystrasaltsríkin, að einhverju pólitísku þrætuepli milli flokka. Það hefur tekist að koma í veg fyrir það. Ég held að vegna þess að menn eru í rauninni sammála um það hvernig bregðast eigi við aðstæðum þarna hafi tekist að koma í veg fyrir að menn væru að metast og vegast á í þessum efnum þó að þess gæti kannski stöku sinnum í máli manna að þeir séu að fara út í slíka leikfimi. Ég vænti þess að það verði ekki gert á meðan menn í reynd eru sammála efnislega um það hvað geti reynst árangursríkast og að hverju okkur beri að stefna í þessum efnum.
    Þar skiptir auðvitað afar miklu að við höfum sem best samband við talsmenn þessara ríkja, sjálfa talsmenn þeirra. Ferð hæstv. utanrrh. hefur tvímælalaust orðið til þess að auðveldara er að halda uppi slíku sambandi a.m.k. á meðan þeir sitja við völd og ekki

er meira að þeim þrengt en þó er orðið. Hæstv. utanrrh. gaf okkur nokkra mynd af því og mati forustumanna í Eystrasaltsríkjunum á aðstæðunum í Sovétríkjunum og samskiptunum milli Eystrasaltsríkjanna, sovéska alríkisins og einstakra lýðvelda og þá sérstaklega Rússlands.
    Það er alveg ljóst að staða mála í Sovétríkjunum er afar snúin og getur átt eftir að verða mun flóknari og alvarlegri heldur en raun ber vitni enn í dag. Við þurfum því að fylgjast náið með í þeim efnum en ég er þeirrar skoðunar og hef verið frá því að Eystrasaltsríkin fóru að beita sér á nýjan leik í sjálfstæðisbaráttu sinni að við ættum að veita þeim stuðning, einlægan og öflugan stuðning, óháð því hver sæti að völdum í Kreml og hvaða áform í orði valdhafar þar teldust hafa uppi gagnvart einstökum lýðveldum og þá sérstaklega gagnvart Eystrasaltsríkjunum. Ég er því þeirrar skoðunar að við eigum ekki að láta deigan síga í þessum stuðningi, alls ekki, þó það komi óskir um það að nú eigi menn að draga í land og veita tíma til aðlögunar og þess háttar. Það hefði fyrir löngu þurft að vera kominn botn í þetta mál. Það var ekki notað það tækifæri sem lá fyrir þegar málefni Evrópu voru til umræðu á síðasta ári, í aðdraganda Parísaryfirlýsingarinnar, og við verðum að taka á þessu máli eins og Ísland gerði í sambandi við þau efni, áfram með það að markmiði að styðja við sjálfstæðissókn þessara ríkja þannig að það verði fyrr en seinna staðreynd.
    Ég tel að greinargerð utanrrh. og ferð hans hafi hjálpað okkur í okkar viðleitni og baráttu í þessu efni. Ég vil endurtaka þakkir mínar til hæstv. ráðherra og vona að þessi mál fái skilmerkilegan framgang í formi ákvarðana af hálfu stjórnvalda nú á næstunni.