Ástand mála í Eystrasaltsríkjunum
Þriðjudaginn 22. janúar 1991


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og tek undir með þeim hv. þm. sem sagt hafa: Ef við viljum beita okkur til góðs í þessu máli, þá gildir það að í okkar röðum sé traust samstaða og að þessi mál svo alvarleg sem þau eru verði ekki gerð að pólitísku bitbeini milli flokka eða tilraunir gerðar til þess að gera þau að máli sem verði einum flokki umfram aðra til framdráttar. Um það snýst málið ekki og um það vona ég að við séum öll sammála.
    Það hefur verið gagnrýnt að ríkisstjórnin hafi ekki þegar við þessa umræðu tilkynnt ákvarðanir í framhaldi af mínu ferðalagi og þeirri greiningu á ástandinu sem fram hefur komið í minni ræðu, umræðum í ríkisstjórn, í utanrmn. og í þessum umræðum. Ég tel þá gagnrýni kannski ekki sanngjarna. Það er hverju orði sannara að orðum eiga að fylgja athafnir. Á næsta fundi ríkisstjórnar verða fyrstu tillögur lagðar fyrir. Það er líka rétt sem sagt var, m.a. af hv. 1. þm. Suðurl., að það ber að vanda til þeirra tillagna og ekki rasa um ráð fram þannig að þetta mál er að mínu mati í eðlilegum farvegi.
    Stundum gætir nokkurs misskilnings um einstök atriði sem óþarfi er og rétt að leiðrétta. Það var ekki rétt sem fram kom í máli seinasta ræðumanns að tvö þessara ríkja, Eistland og Lettland, óskuðu ekki eftir viðurkenningu á sjálfstæði sínu af hálfu annarra ríkja. Það gera þau að sjálfsögðu og hafa hlotið, m.a. af okkar hálfu. Hitt er rétt að þau hafa ekki óskað eftir því að taka upp diplómatísk tengsl í framhaldi af slíkri viðurkenningu.
    Ég ætla ekki að leggja hér frekar orð í belg um mat manna á hinum stóru þáttum alþjóðamála, þróun mála í Sovétríkjunum o.s.frv. Ég hef lýst mínum viðhorfum. Ég vil einungis ljúka umræðunni með því að þakka fyrir málefnalegar umræður og láta í ljós þá von að samstaða geti orðið á Alþingi Íslendinga um aðgerðir sem mega koma þeim að haldi sem eiga um sárt að binda.