Launamál
Miðvikudaginn 23. janúar 1991


     Þorv. Garðar Kristjánsson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Það er verið að taka hér á dagskrá eitt stærsta málið sem liggur fyrir þessu þingi, það mest umtalaða, og mér virðist að það sé ekki búið að leggja fram nál. sem á að leggja fram. Eftir því sem mér skilst eru a.m.k. fjögur nál. og það er ekki búið að leggja fram nema tvö þeirra. Ég tel að þessi vinnubrögð séu með öllu óeðlileg og þau eru það alltaf, hvaða mál sem um er að ræða nema alveg sérstök nauður reki til og þá eigi að leita afbrigða fyrir því. Hvaða nauður getur rekið til að taka mál fyrir áður en búið er að leggja fram nál.? Það er vandséð. En við þekkjum það að stundum er málum flýtt ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Ég fullyrði að það er engin ástæða til þess að hafa slík hroðvirknisvinnubrögð á þessu máli og legg til að málið verði ekki tekið til umræðu í dag.