Launamál
Miðvikudaginn 23. janúar 1991


     Þorv. Garðar Kristjánsson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. var mjög undrandi á því að ég gerði hér athugasemd við það að taka málið til umræðu nú. Undrandi á því. Og hvers vegna var hann undrandi? Var hann undrandi vegna þess að þingsköp væru túlkuð þannig? Nei. Hann var undrandi vegna þess að það hefði verið talað um það í fjh. - og viðskn. að málið skyldi tekið fyrir í dag, skildist mér. Það breytir engu um þingsköp og framkvæmd þingskapa hvað talað er um í þessu sambandi í fjh.- og viðskn. og það breytir því ekki þótt hv. 5. þm. Reykv. sé núna um sinn formaður þessarar nefndar.
    Hv. þm. var svo að tala um trassaskap í sambandi við þetta og því virtist vera beint til hv. 2. þm. Norðurl. e. Hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur nú svarað fyrir sig og þetta sýnir hvað það er út í hött sem hv. 5. þm. Reykv. er að leggja til í þessu máli.
    En frá því að ég talaði áðan hefur komið eitt nál. sem er upp á a.m.k. 20 blaðsíður, og ef ég veit rétt, þá er eitt nál. enn eftir. ( Gripið fram í: Það er komið.) Nú, það er komið, já. En hvorki ég né aðrir hafa komist til að lesa þessi nál. og kynna sér þau.
    Ég vil leggja áherslu á það að það eru gjörsamlega óeðlileg og óviðunandi vinnubrögð sem hér eru viðhöfð. Og ég spyr hæstv. forseta: Hvaða nauður rekur til þess að hafa þessi vinnubrögð núna? Hvers vegna þarf að flýta þessu máli svo mikið að það þoli ekki að hafa eðlileg vinnubrögð? Ég óska eftir því að hæstv. forseti skýri ástæðurnar fyrir því. Það eru engar ástæður fyrir því þó að um eitthvað hafi verið talað við fjh. - og viðskn. Ég þarf ekki að segja hæstv. forseta það. Hver er ástæða hæstv. forseta fyrir því að taka málið fyrir með þessum hætti?