Launamál
Miðvikudaginn 23. janúar 1991


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að standa í löngum umræðum um þingsköp í dag, en vegna ummæla formanns fjh. - og viðskn. vil ég í fyrsta lagi óska eftir því að hann geri grein fyrir því og útvegi mér þegar í stað eftirrit frá fundi fjh. - og viðskn. þar sem ég óskaði eftir tilteknum upplýsingum og gangi sjálfur úr skugga um það hvort þær upplýsingar hafi verið látnar í té. Ef svo er að starfsmaður fjmrn. hefur sannfært hann um að ég hafi fengið allar þær upplýsingar í hendur sem formaður fjh. - og viðskn. varð vitni að að ég bað um í nefndinni, þá óska ég eftir því að formaðurinn sjái um það að ég fái þessar upplýsingar í hendur eða fái að vita það heimilisfang þangað sem þær voru sendar.
    Í öðru lagi kann ég ekki við það að formaður fjh.- og viðskn. komi hér upp í stól á Alþingi, beri fyrir sig einhverja ónafngreinda persónu uppi í fjmrn. og noti hana sem eitthvert yfirvarp eða skálkaskjól þegar hann er að væna þingmenn um ósannindi. Ég kann ekki við það og óska eftir því að hann láti þess getið, annaðhvort í einkasamtali eða hér úr ræðustól, hver það var í fjmrn. sem sagði að ég hefði farið hér með ósannindi.
    Ef það er svo, herra forseti, að það sé óeðlilegt að þingmenn óski eftir því að þurfa ekki að taka þátt í umræðum þegar þeir þurfa að vera við jarðarför, þá er það nýtt fyrir mér.
    Ég vil enn fremur segja að það er altítt í þinginu að nál. liggi fyrir í þann mund sem umræða byrjar. Ef á hinn bóginn það er ósk meiri hluta Alþingis að taka þau vinnubrögð upp að umræður séu ekki um mál nema þingmenn hafi haft sólarhring til þess að setja sig inn í einstök nál., þá er ég síður en svo á móti því og er reiðubúinn til þess að hefja þessa umræðu hvort sem hæstv. forseti vill á morgun eða í næstu viku.