Launamál
Miðvikudaginn 23. janúar 1991


     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir áliti 1. minni hl. fjh. - og viðskn. Ed. Við höfum fjallað um frv. sem ríkisstjórnin lagði fram til þess að fá staðfestingu á bráðabirgðalögum sem sett voru 3. ágúst 1990 til að ógilda kjarasamninga ríkisins og aðildarfélaga BHMR frá 18. maí 1989. Í þeim samningi var fallist á þá kröfu að BHMR-félagar ættu að þessu sinni að fá sérstakar hækkanir til að samræma laun þeirra launum fólks með sömu menntun og í sambærilegum störfum á almennum vinnumarkaði. Virðist hafa verið sátt um það milli samningsaðila hvernig að þessu skyldi staðið. M.a. var það með stofnun þriggja nefnda sem getið var um í áliti meiri hl. þessarar nefndar og sem hafa ýmist lokið störfum eða ekki hafa lokið störfum enn þá.
    Þann 1. febr. 1990 gerðu aðrir aðilar vinnumarkaðarins með sér kjarasamning þar sem launahækkunum var í hóf stillt en ríkisvaldið tók að sér að sjá til þess að verðlagsþróun yrði innan vissra marka og jafnframt virðast aðilar hafa gert samkomulag um að launaþróun annarra yrði sú sama og greint er í þessum samningi sem kenndur er við þjóðarsátt. Þetta höfum við fengið fréttir um bæði í blöðum og útvarpi að muni hafa skeð.
    Ekki virðist ríkisstjórnin hafa verið í vafa um að hún gæti staðið við umrædd ,,þjóðarsáttarmörk`` þó svo að ákvæði í samningi BHMR fælu í sér 4,5% kauphækkun 1. júlí 1990 en í ,,þjóðarsáttarsamningi`` ASÍ og VSÍ var kveðið á um 1,5% hækkun. Þegar í ljós kom að ASÍ og VSÍ gátu ekki fallist á að BHMR-fólk fengi fyrrgreinda 4,5% launahækkun en aðrir ekki komst málið í sjálfheldu. BHMR-fólk taldi sig eiga rétt á hækkuninni 1. júlí en ríkisstjórnin vildi a.m.k. seinka greiðslum fram yfir gildistíma ,,þjóðarsáttar``. Fór svo að málið kom fyrir Félagsdóm og virðist ríkisstjórnin, sem hafði ráðfært sig munnlega við ýmsa lögfræðinga, álíta að málinu væri borgið. Þegar Félagsdómur kvað upp dóm sinn reyndist hann falla BHMR í vil og kom þá til þess gjörnings sem til umfjöllunar er nú, þ.e. setningar bráðabirgðalaga sem felldu úr gildi ákvæði þau í samningi BHMR og ríkisins sem Félagsdómur byggði úrskurð sinn á. Enn virðist ríkisstjórnin hafa byggt ákvörðun sína á munnlegri ráðgjöf ýmissa lögfræðinga.
    Telja verður það meira en vafasamt að ,,þjóðarsáttaraðilar`` geti ákveðið að launasamningar annarra, þ.e. BHMR-fólks, verði að falla úr gildi án þess að um það sé samið við BHMR. Einnig telur 1. minni hl. að hæpið sé fyrir ábyrga aðila að byggja ákvarðanir sínar í svo viðkvæmu og vafasömu máli á munnlegri ráðgjöf manna, þótt lögfróðir séu. En mergurinn málsins er þó sá að 1. minni hl. telur að óhæfa sé að skjóta deilumáli til úrskurðar dómstóls og að honum fengnum séu undirstöður úrskurðarins afmáðar með bráðabirgðalögum til þess að þurfa ekki að standa við úrskurðinn. Allt annarra leiða hefði þurft að leita í þessu máli. Fyrsti minni hl. er því alfarið á móti staðfestingu þessara bráðabirgðalaga. Að öðru leyti er vísað til nál. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. neðri deildar um mál þetta.
    Ég vil undirstrika það að þessi gjörð, að afmá eða fella úr gildi með lögum ákvæði sem dómur byggist á, til þess að þurfa ekki að standa við dóminn, hlýtur að vera afskaplega varhugavert athæfi. Og fyrir þegna þjóðfélags þar sem þetta er iðkað skapar þetta afskaplega mikið óöryggi. Réttaröryggi okkar er sem sagt stefnt í voða ef valdhafarnir geta breytt ákvæðum eftir á og reynt að láta þau gilda gagnvart aðilum sem hafa fengið dóm sér dæmdan í vil. Síkt getum við ekki fallist á. Það getur ekki nokkur fallist á slíka meðferð mála.
    Þar að auki virtist mér afskaplega furðulegt þegar við ræddum við hina ýmsu aðila, sem komu og ræddu við okkur og taldir eru upp í áliti meiri hl. nefndarinnar, hversu ólíkum augum þeir virðast hafa litið á samtöl sem farið hafa á milli þeirra og samstarf allt. Þar sem einn álítur að fólk sé að ráðfæra sig um ýmis formsatriði álítur annar að verið sé að ræða um grundvöll og undirstöðuatriði kjarasamninga. Þetta var bæði mér og sjálfsagt mörgum fleirum til mjög mikillar undrunar.
    Það er líka íhugunarefni að hópur lögfræðinga skuli hafa getað gefið ríkisstjórn vorri ráð og leiðbeiningar sem svo annar hópur lögfræðinga fellir algjörlega úr gildi eða telur marklaus vera. Þetta er líka íhugunarefni fyrir okkur. Ég tel að þegar svona gerðir eru gerðar, þá sé bráðnauðsynlegt fyrir valdhafana að hafa mjög vandaða ráðgjöf. Og sú vandaða ráðgjöf verður t.d. að byggjast á skriflegum og langíhuguðum niðurstöðum frá ráðgjöfunum. En fyrst og fremst er það grundvallaratriði að það er ekki hægt fyrir nokkurt samfélag að standast ef hafa á lög sem dæmt er eftir og svo þegar búið er að dæma eftir lögunum, þá sé þeim bara breytt til þess að fella úr gildi þann dóm sem búið er að fella. Það held ég að sé mjög fáheyrt og getur alls ekki gengið.