Launamál
Miðvikudaginn 23. janúar 1991


     Frsm. 3. minni hl. fjh.- og viðskn. (Eyjólfur Konráð Jónsson ):
    Hæstv. forseti. Á þskj. 537 skila ég nál. sem er álit 3. minni hl. fjh. - og viðskn. Efnislega hljóðar þetta nál. á þann veg að fyrst er rætt um að um þetta hafi mikið verið fjallað utan þings og innan undanfarna mánuði og mætti því ætla að í þessu máli væri komið fram flest það sem máli skipti. Allur málatilbúnaður af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur þó verið með þeim endemum að til umfangsmikilla málaferla hlaut að leiða og hefur nú gerst auðvitað og langt er frá að hilli undir lok þeirra átaka sem ríkisstjórnin hefur stofnað til í þjóðfélaginu. Það vita það allir að þar sýður og kraumar hvar sem niður er borið.
    Þessar deilur eru ekki einungis stjórnmálalegar í þröngum skilningi heldur er einnig um það deilt hvort löggjöfin standist ákvæði stjórnarskrár. Um öll þessi atriði hefur verið deilt og verður áfram deilt hvort sem Alþingi samþykkir lögin nú eða ekki. Alveg er ljóst að það verða áframhaldandi málaferli. Þess vegna var hin viðamikla umræða sem fram fór í Nd. þýðingarmikil og er hér sérstaklega vitnað til álits 2. minni hl. fjh. - og viðskn. Nd., Friðriks Sophussonar, ásamt fylgiskjölum, svo og nál. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. Ed., hv. þm. Halldórs Blöndals og þeirra fylgiskjala sem hann leggur fram.
    Ríkisstjórninni tókst með harðfylgi að þröngva málinu gegnum Nd. en enginn þingmaður stjórnarandstöðunnar léði máls á stuðningi við það. Við þessar aðstæður eru nú rekin af mikilli hörku fyrir dómstólum mál þegar óðum líður að kosningum og alger óvissa er um framvinduna. Eðlilegt er að ríkisstjórnin ein beri ábyrgð á gjörðum sínum. Hún hefur stofnað til þessa óyndisástands, en síðar kemur það í hlut nýrrar stjórnar að ráða fram úr þeim margháttaða vanda sem hrannast hefur upp á ofstjórnar - og óstjórnarárum ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar.
    3. minni hl. telur ekki ástæðu til afskipta af málinu frekar og tekur því ekki þátt í atkvæðagreiðslu um málið.