Launamál
Miðvikudaginn 23. janúar 1991


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Í lýðræðisþjóðfélagi telst samningsréttur til grundvallarmannréttinda. Því miður er það svo að ein ríkisstjórnin af annarri hefur ekki skirrst við að rjúfa gerða samninga með bráðabirgðalögum. Aldrei hefur það þó gerst með þeim hætti sem gert var 3. ágúst sl. þegar núv. hæstv. ríkisstjórn setti bráðabirgðalög á samning BHMR eftir að Félagsdómur hafði kveðið upp þann dóm að ríkisstjórninni bæri að standa við hann. Það sem gerst hefur vekur óneitanlega ugg í brjósti margra og margar spurningar um lýðræðið og siðferðið í landinu. Þetta mál snertir virðingu framkvæmdarvaldsins og Alþingis fyrir eigin gerðum, fyrir dómstólum landsins og þetta snertir líka spurninguna um ábyrgð ríkisstjórna á eigin verkum.
    Það er ljóst að hluti af þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til er brot á íslensku stjórnarskránni, að ekki sé talað um siðferðið varðandi setningu þessara bráðabirgðalaga. Ég segi nei.