Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 23. janúar 1991


     Geir H. Haarde :
    Herra forseti. Ég er satt að segja dálítið undrandi á því að þetta frv. skuli vera hér fram komið vegna þess að ég sé ekki betur en það sé óþarft. Búseturéttarfélögin hafa verið hér starfandi um nokkurra ára skeið. Búið er að marka þeim ákveðinn farveg í gildandi lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Annað tel ég að sé einkamál þessara félaga, innra starf þeirra og skipulag fari að sjálfsögðu samkvæmt almennum lögum og væntanlega í flestum tilvikum samkvæmt lögum um samvinnufélög vegna þess að þetta eru samvinnufélög eða eins konar kaupfélög. Það er reyndar búið að leggja fram á þessu þingi frv. til laga um samvinnufélög og mér fyndist jafnvel fara betur á því að flytja þetta frv. í tengslum við það eða láta það bara ógert.
    Lögin sem hér er lagt til að verði breytt með þessu frv. eru lög um Húsnæðisstofnun ríkisins. Þetta frv. er ekkert um Húsnæðisstofnun ríkisins eða nokkuð sem þeirri stofnun kemur sérstaklega við. Þetta frv. er um ákveðið sambýlisform, félagsform í sambandi við byggingar sem rúmast innan gildandi laga. Það sem Húsnæðisstofnun ríkisins varðar í því sambandi er spurningin um hvað slíkir aðilar eiga að fá mikið lán. Það eru ákvæði um það í lögum um Húsnæðisstofnun. Ég tel það ekki eðlilegt satt að segja að setja inn í lög um Húsnæðisstofnun þennan kafla sem hér er lagt til að bæta við, jafnvel þó að fyrir sé í lögunum um Húsnæðisstofnun kafli um byggingarsamvinnufélög. Ég tel það reyndar orka mjög tvímælis að sá kafli eigi heima í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins.
    Það form sem hér er til umræðu og ráðherra lýsti með þessu frv. á að mínum dómi vissulega ákveðinn rétt á sér sem valkostur fyrir þá sem kjósa að búa um sig í þessu formi, borga fastar greiðslur, búseturéttargjald og fleira, án þess að eignast nokkurn tíma neitt í því húsnæði sem fólk borgar til. Það er valkostur sem sjálfsagt er að bjóða upp á fyrir þá sem þess óska, en það á auðvitað að vera á jafnréttisgrundvelli miðað við önnur byggingarform og ekki njóta sérstakra forréttinda. Það hefur nefnilega borið á því að menn vilji smeygja sér inn í þetta fyrirkomulag, menn með góðar tekjur, mikla menntun o.s.frv. vegna þess að búseturéttarfélögin hafa getað fengið lán úr Byggingarsjóði verkamanna á mjög góðum kjörum. Reyndar stæra menn sig af því á vegum þessara samtaka, þar á meðal einn af starfsmönnum Húsnæðisstofnunar ríkisins sem skrifaði um það í málgagn þessara samtaka að nú væru bestu kjörin sem fáanleg væru á markaðinum, hvernig sem á væri litið, innan þessara svokölluðu búseturéttarfélaga.
    Ég minnist þess þegar þessi félög fóru fyrst á stúfana fyrir nokkrum árum
þá gáfu sig strax upp nokkrir þingmenn sem höfðu gerst félagar í slíkum félögum. Fólki virðist vera alveg sama um að með því að ganga í slíkt félag og njóta þeirra kjara sem ætluð eru láglaunafólki er jafnframt verið að hindra að einhver annar, sem er raunverulegur láglaunamaður, njóti þeirra kjara á meðan.

    Nú er það að vísu svo, eins og fram kom í máli ráðherrans, að langstærstur hluti félaga í þessum félögum, um 90%, er innan þeirra tekjumarka sem Byggingarsjóður verkamanna setur um lán til íbúða, og gagnvart því fólki skiptir þetta máli, en fyrir hin 10% er þetta óréttlætanlegt.
    Nú er búið að flytja almennu kaupleiguíbúðirnar yfir í Byggingarsjóð verkamanna og ætla verður að eitthvað af slíkum íbúðum yrði byggt á vegum þessara félaga á þeim kjörum sem um þær íbúðir gilda. En maður getur hins vegar mjög auðveldlega séð fyrir sér vandkvæðin sem því fylgja að byggja á vegum sama félagsins íbúðir á mismunandi kjörum. Eins íbúðir, jafnvel í sama stigagangi, þar sem önnur er í svokölluðu félagslegu lánakerfi en hin í almennu. Á þetta er rétt að leggja áherslu, eins og svo oft hefur verið gert í sölum þingsins.
    En um þetta frv. almennt að öðru leyti ætla ég ekki að hafa mörg orð. Ég tel að efni þess eigi að mestu leyti heima í samþykktum viðkomandi félaga en ekki í lögum nema þá að því marki sem um er að ræða samskipti húsnæðisstjórnar ríkisins við þessi félög. En um þau samskipti fjalla greinar o og q þar sem minnst er á Byggingarsjóð verkamanna í tengslum við lán til þessara húsnæðissamvinnufélaga.
    Ég sé ekki ástæðu, virðulegur forseti, til að eyða frekari orðum að þessu máli. Ég tel sem sé að á þessu frv. sé lítil þörf og enn minni nauðsyn.