Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 23. janúar 1991


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Öflun húsnæðis er viðamesta mál sem flestar fjölskyldur þurfa að glíma við. Lengst af hafa fáir möguleikar verið fyrir hendi þegar fólk fer út í það að tryggja sér húsnæði. Það hefur oftar en ekki þurft að hella sér út í kostnaðarsamar byggingarframkvæmdir eða íbúðarkaup. Á undanförnum árum hefur þó orðið jákvæð breyting á þessu. Æ fleiri hallast að því að reyna að tryggja sér húsnæði án þess að steypa sér í þungar og erfiðar fjárskuldbindingar og vera í margra ára ánauð sem fylgir séreignastefnunni. Leiguhúsnæði hefur sem kunnugt er verið af skornum skammti en vonandi og væntanlega verður á því einhver breyting á næstu árum.
    Lengst af hefur það þótt sjálfsagt að ekki væri í önnur hús að venda en að kaupa sér húsnæði eða leigja á allt of þröngum leigumarkaði. Sem betur fer hefur orðið breyting á núna á allra seinustu árum, með tilkomu húsnæðissamvinnufélaga og búseturéttarkerfisins. Það er að mínu mati mjög gott kerfi og eðlilegt að margir hafi leitað til þess og að það sé ekki bundið við einn tekjuhóp, þó ég treysti mér ekki í smáatriðum til þess að meta hvar og hvernig þetta kerfi gæti nýst best og hver er hin eðlilegasta lánafyrirgreiðsla í því. En mér þykir það heyra til mannréttinda að hver og einn eigi val um á hvern hátt hann kýs að koma yfir sig þaki. Það held ég að sé hægt með því að búseturéttarfyrirkomulagið sé hlekkur í þeirri keðju sem húsnæðismál eru hér á landi. Það er því orðið fyllilega tímabært að kveða skýrt á um á hvern hátt húsnæðissamvinnufélögum og búseturétti er háttað hér á landi.
    Ég mun ekki fara hér út í einstök atriði þessa frv. né hvort þeim er endilega haganlegast fyrir komið í þessari löggjöf, þeim atriðum sem nauðsynleg eru og nauðsynlegt er að skýrt verði kveðið á um. Til þess mun gefast tækifæri í nefnd. Ég vek athygli á því að það er af hinu góða að skýrar reglur og gott kerfi sé á þessum málum og það sé viðurkennt í löggjöf. Og ég fagna því að umræða um þessi mál er hér nú og mun verða í nefnd og vonast til að þetta frv. muni treysta stöðu húsnæðissamvinnufélaga og búseturéttarkerfisins í landinu. Á því er fyllilega þörf.
    Það tekur engu tali að hafa ákveðið kerfi sem er einungis fyrir láglaunafólk og annað kerfi sem er fyrir hina tekjubetri. Það kallar á að í einni blokk eða einu hverfi safnist fólk sem er einungis á ákveðnu tekjubili. Ég held að búseturéttarkerfið sé gott að því leyti til að þar er ekki um mjög þröngan hóp að ræða heldur þvert á móti víðan og það er kerfi sem margir kjósa að fara í þegar þeir tryggja sér húsnæði.