Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 23. janúar 1991


     Alexander Stefánsson :
    Herra forseti. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að þingmenn séu orðnir þreyttir á sífelldum breytingum á húsnæðislagakerfinu á undanförnum missirum. En hér er um að ræða mál sem ég tel eðlilegt að sé borið fram og mun styðja það í öllum aðalatriðum. Ákvæðin um byggingarsamvinnufélögin sem eru enn í gildandi lögum gerðu á sínum tíma mikið gagn. Sem betur fer er mikið af slíkum íbúðarbyggingum sem hafa komið launafólki sérstaklega til góða og gert því kleift að eignast húsnæði í gegnum samvinnulöggjöfina í viðráðanlegu kerfi. Það er hægt að vísa hér í ýmsar stórbyggingar, íbúðarbyggingar, blokkir sem hafa verið byggðar eftir þeim lögum og ekki síst á vegum félagasamtaka og launafólks í landinu. Þau þóttu vera víðtækari en verkamannabústaðirnir að því leyti að það var ekki sniðið eftir tekjumörkum að öllu leyti og þar af leiðandi var það frjálsara form. Hins vegar hefur þrengt að þessu formi á undanförnum árum og með rýmkun á húsnæðislöggjöfinni almennt varð sú niðurstaðan að þetta form varð miklu minna notað en önnur félagsleg form.
    Ég kynntist þessu búsetafyrirkomulagi á árunum 1983 -- 1984 sérstaklega. Það er rétt sem hér hefur komið fram að þetta nýja form, búseturéttarform, hefur rutt sér til rúms í nágrannalöndunum með jákvæðum árangri á undanförnum árum. Þarna er um að ræða möguleika sem tengjast húsnæðissamvinnufélögunum. Ég sá þess vegna strax að það var eðlilegt að stuðla að því að þetta byggingarform eða félagsform og þessi aðferð kæmist inn í húsnæðislöggjöfina.
    Eins og kemur fram í athugasemdum með frv. náðist ekki um þetta samkomulag á sínum tíma í þeirri ríkisstjórn sem var við völd 1983 -- 1987. Það var reynt 1984 með formlegum hætti. Það náðist að vísu fyrsti vísir að möguleikum inn á þetta kerfi með lögunum 1984, þ.e. undir Verkamannabústaðir, c-liður. Það var að vísu takmarkað við námsmenn og aldraða og fatlaða, en engu að síður var hægt að byrja þetta form í sambandi við þetta ákvæði laganna.
    Það fór ekki hjá því miðað við reynslu annarra þjóða að það urðu mér mikil vonbrigði árið 1984 að ekki skyldi hafa náðst samkomulag um það á Alþingi að festa þetta inn í lögin eða skýra þetta inn í lögin, þar sem fyrir lá kafli í lögunum sem er núna IX. kafli laganna um byggingarsamvinnufélög. Ég tel að gagnrýni sem hér hefur komið fram á að þetta sé óþarft sé á nokkrum misskilningi byggð. Auðvitað er það rétt sem kemur fram í frv. að þessi lög byggja í meginatriðum á ákvæðum laga um samvinnufélög eins og þau eru á hverjum tíma. Og mér finnst það ekki útiloka það að skilgreina búseturéttarformið í lögum miðað við þá reynslu sem fengin er í nágrannalöndunum.
    Ég tel ekki ástæðu til að rekja þetta nánar eða fara nánar ofan í þetta mál. Ég lét semja á sínum tíma frv. um þetta og lét leggja mikla vinnu í það. Þetta frv. hér er í aðalatriðum byggt á því frv. Ég sé ekki neina agnúa á því í sjálfu sér að þetta sé fest í lög undir húsnæðissamvinnufélög og búseturétt. Því tel ég þetta

frv. þess eðlis að ástæðulaust sé annað en að samþykkja það. Það raskar ekki í meginatriðum neinum öðrum félagslegum þáttum í húsnæðislöggjöfinni.