Atvinnuleysistryggingar
Miðvikudaginn 23. janúar 1991


     Flm. (Geir H. Haarde) :
    Herra forseti. Frv. það sem hér er mælt fyrir gerir ráð fyrir þeirri meginbreytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar að allir launamenn eigi rétt til atvinnuleysisbóta, en ekki aðeins þeir sem félagsbundnir eru í stéttarfélögum.
    Þessi meginbreyting kemur þegar fram í 1. gr. frv., þar sem segir svo, með leyfi forseta: ,,Þeir launamenn, sem verða atvinnulausir, eiga rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum.``
    Í 3. gr. frv. er síðan skilgreint hvað átt er við með hugtakinu launamaður.
    Flestum kann að finnast þetta sjálfsagt mál og eflaust eru margir sem ekki átta sig á því
að lög um atvinnuleysistryggingar á Íslandi eru þannig enn þann dag í dag að þau undanskilja ákveðinn hóp launamanna rétti til slíkra bóta. Menn eru með öðrum orðum ekki jafnir fyrir lögunum þó svo að gjald í Atvinnuleysistryggingasjóð sé tekið af öllum launum. Þeir sem ekki eru í stéttarfélögum eiga ekki rétt til bóta. Þeir sem eru í stéttarfélögum eiga það.
    Ég hygg að það sé einsdæmi í okkar heimshluta að réttur til bóta af þessu tagi sé bundinn aðild að einhverjum tilteknum félagsskap, enda er vandséð að þörf manna fyrir bætur, ef þeir verða fyrir því óláni að verða atvinnulausir og missa tekjur, fari eitthvað eftir því hvort þeir eru félagsbundnir í tilteknum félögum eða ekki. Þar við bætist að hér á Íslandi er Atvinnuleysistryggingasjóður að hluta til fjármagnaður með framlögum úr ríkissjóði. Þau framlög eru sameign allra landsmanna að sjálfsögðu, en ekki einkaeign þeirra sem aðild eiga að stéttarfélögum.
    Nú fyrir jólin var samþykkt frv. um tryggingagjald og er orðið að lögum, þar sem frekar er kveðið á um hvernig greiða skuli svokölluð launatengd gjöld. Þau eru sameinuð í eitt gjald með lögum þessum, tryggingagjald, og síðan er því gjaldi ráðstafað eftir ákveðnum reglum í 3. gr. þeirra laga, m.a. þannig að Atvinnuleysistryggingasjóður fær í sinn hlut sem nemur 0,15% af gjaldstofni. Þarna er sem sagt enn á ný tekið af skarið með það að ákveðinn skattur, ákveðið gjald, er lagt á öll laun í landinu og látið renna til Atvinnuleysistryggingasjóðs, þar á meðal er lagt á laun þeirra sem ekki eru í stéttarfélögum. En þeir fá engu að síður engan rétt þó að þeim sé gert að skyldu að inna af hendi greiðslur í þennan sjóð. Hér er brotið það grundvallaratriði íslensks réttarfars, og reyndar almenna grundvallaratriði, að saman fari réttindi og skyldur, að nokkurt samræmi sé á milli þeirra skyldna sem lagðar eru á herðar manna og þeirra réttinda sem menn hafa.
    Frv. þetta felur ekki í sér flóknar breytingar. Hins vegar er þetta ákveðið grundvallaratriði í mínum huga og varðar grundvallarrétt manna, bæði til þess að þiggja bætur sem komnar eru til vegna gjaldtöku á þá sjálfa og af almannafé, en þetta er sömuleiðis nokkurt grundvallaratriði að því er varðar aðild manna og ákvarðanir um slíka aðild að stéttarfélögum.

    Nú er það að vísu þannig hér á Íslandi að langstærstur hluti launamanna er í stéttarfélögum og vill vera þar. Samt eru alltaf einhverjir örfáir einstaklingar sem ekki eru í slíkum félögum, hugsanlega vegna starfa sinna eða vegna þess að ekki er til neitt félag um þá starfsgrein þar sem þeir hafa haslað sér völl. Um hvort tveggja eru til dæmi. Það er ekki óalgengt að starfsmannastjórar, framkvæmdastjórar og ráðningastjórar í fyrirtækjum séu utan stéttarfélaga. Það er ekki óalgengt. Sömuleiðis eru til þeir aðilar sem hafa lært ákveðin fræði eða greinar sem ekki er til stéttarfélag í eða utan um. Þeir aðilar eiga vissulega þann kost að ganga í eitthvert allt annað stéttarfélag til þess að njóta þessa réttar, en það er að mínum dómi óeðlilegt að gera þá kröfu til manna og þvinga þá þannig óbeint til þess að ganga í eitthvert tiltekið félag sem þeir hefðu ella ekki hugsað sér að gera.
    Ég held hins vegar að sú breyting sem hér er um að tefla mundi ekki hafa áhrif í þá átt að fæla fólk frá því að vera í stéttarfélögum. Menn hafa af því ýmsan hag vegna þeirra hluta sem stéttarfélögin hafa samið um fyrir sína félagsmenn. En hér er hins vegar um að ræða lögbundin réttindi sem eiga að vera fyrir alla að mínum dómi, en ekki bara fyrir þá sem eru í þessum félögum. Það gegnir öðru máli um réttindi sem félögin hafa sérstaklega samið um. Ég hygg að það yrði nú ekkert um það að ræða að menn byrjuðu á því að flýja stéttarfélagsaðild í stórum stíl vegna þessara breytinga, einmitt vegna þess að menn hafa væntanlega af því töluverðan hag að skipa sér í félag með sínum stéttarbræðrum, ef það má orða það svo, eða vinnufélögum og samstarfsmönnum.
    Ég held að það sé óhætt að fullyrða, herra forseti, að sú stefna sé á undanhaldi, m.a. hér á Íslandi, að tengja opinber réttindi því að launamaður sé í stéttarfélagi. Í það minnsta hefur ófélagsbundnum launþegum hérlendis verið tryggð sambærileg réttarstaða og félagsbundnum í ýmiss konar nýlegri löggjöf hér á landi. Má í því sambandi nefna lög um rétt verkafólks til uppsagnarfrests, lög um sjúkdóms- og slysaforföll, lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, lög um ríkisábyrgð á launum og lög um orlof og fæðingarorlof. Hér er alls staðar um að ræða ákveðin réttindi sem allir launamenn eiga jafnan rétt á óháð því hvort þeir eru félagar í verkalýðsfélögum. Þess vegna tel ég að þessi breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar sé í samræmi við þá þróun sem kemur fram í þeirri lagasetningu sem ég hef hér nefnt.
    Þess er rétt að geta, virðulegi forseti, að á síðasta þingi var samþykkt frv. um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar. Lögin hafa verið gefin út að nýju sem lög nr. 96/1990 og inn í þau felldar allar breytingar sem orðið hafa á þessum lögum frá því að stofnlögin voru sett 1981.
    Á síðasta þingi flutti ég þetta frv. sem brtt. við það frv. sem þá var hér á ferðinni sem stjfrv. en hafði verið samið af sérstakri nefnd á vegum heilbr.- og trmrh. þar sem áttu sæti meðal annarra fulltrúar hinna

svokölluðu aðila vinnumarkaðarins. Um efni þess frv. var samkomulag milli þeirra en hins vegar hafði myndast í nefndinni ósamkomulag um akkúrat það atriði sem þetta frv. sem ég flyt hér varðar og náði það þar af leiðandi ekki inn í stjfrv. Hins vegar var sú breyting gerð með því frv. sem hér varð að lögum á síðasta þingi að ýmsir hópar háskólamanna sem ekki höfðu áður rétt til atvinnuleysisbóta fengu þann rétt og var það vissulega spor í rétta átt.
    Þetta mál, sem frv. sem hér er flutt snertir, er sem sagt ekki nýtt af nálinni. Málið hefur verið rætt í samskiptum aðila vinnumarkaðarins af og til á undanförnum árum. Um þetta mál er gamall ágreiningur vegna þess að vinnuveitendasamtökin hafa ekki talið upphaflega, þegar atvinnuleysistryggingar voru samþykktar og umsamdar hér 1955, að þær ættu aðeins að ná til stéttarfélagsbundinna manna. Slík hefur hins vegar orðið raunin í framkvæmd. Hins vegar er það tiltölulega nýtt að farið sé að gera athugasemdir erlendis frá við þessi ákvæði og það séu ekki bara innlendir vinnuveitendur og áhugamenn um jafnrétti og sjálfsögð grundvallarréttindi hérlendis sem gera slíkar athugasemdir.
    Þannig hafa komið frá svokallaðri nefnd óháðra sérfræðinga, sem starfar á vegum Evrópuráðsins, alvarlegar athugasemdir við þau ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar hérlendis sem tengja rétt manna til atvinnuleysisbóta aðild að stéttarfélagi. Þessi sérfræðinganefnd telur að lögin eins og þau eru núna brjóti í bága við bæði anda og bókstaf 5. gr. félagsmálasáttmála Evrópu sem Ísland hefur undirgengist skuldbindingar gagnvart, þótt svo hafi ekki verið gert gagnvart öllum greinum sáttmálans.
    Þetta kom allt saman hér fram á síðasta þingi í skýrslu félmrh. um 76. alþjóðavinnumálaþingið í Genf 1989 sem hér var útbýtt sem sérstöku þskj. Þetta var allt rifjað upp í tengslum við þær brtt. sem ég flutti hér á síðasta þingi og ástæðulaust að rifja upp á ný, nema láta þess getið að þessi sérfræðinganefnd fordæmir þetta harðlega og er mjög dómhörð um þessi atriði og telur að það sé óverjandi ráðstöfun að svipta launamann rétti til fjárhagslegrar verndar í atvinnuleysi.
    Nú er það kannski umdeilanlegt hversu mikið mark eigi að taka á athugasemdum erlendis frá við íslensk lög og menn geta haft sínar skoðanir á því að sjálfsögðu. Hins vegar ber svo við að þessi sama nefnd gerði sams konar athugasemd, og hafði gert í nokkur skipti, við ákvæði í sjómannalögum sem hún taldi ekki samræmast ákvæðum í 1. gr. félagsmálasáttmála Evrópu. Þá brást ríkisstjórnin hins vegar á síðasta vetri mjög skjótt við og beitti sér fyrir breytingu á lögunum í samræmi við athugasemdir nefndarinnar. Það var frv. sem var hér á ferðinni í fyrravetur og hlaut samþykki fyrir vorið og er nú í íslenska lagasafninu sem lög nr. 53/1990. Þá þótti ríkisstjórninni sjálfsagt að fara eftir ábendingum þessarar sérfræðinganefndar þegar þurfti að breyta sjómannalögum. Það er vissulega athyglisvert ósamræmi af hálfu ríkisstjórnarinnar að bregðast ekki jafnskjótt við athugasemdum við atvinnleysistryggingalöggjöfina.
    Það hafa einnig komið athugasemdir erlendis frá við önnur atriði, framkvæmd læknalaga, og hefur verið flutt frv. um að breyta þeim í samræmi við þá athugasemd og það er til meðferðar í heilbr.- og trn. þingsins. Ríkisstjórnin virðist því stundum sjá ástæðu til að taka fullt tillit til slíkra athugasemda en stundum ekki. Alþýðusamband Íslands hefur svarað fyrir sitt leyti þeim ábendingum og þeirri gagnrýni sem fram hefur komið frá sérfræðinganefnd Evrópuráðsins um þetta atriði og fært fram sína hlið málsins og sín rök. Ég tel hins vegar að þau rök og sá málflutningur sýni það og sanni að það sé ekki hægt að ætlast til þess af Alþýðusambandinu eða verkalýðshreyfingunni yfirleitt að hún hafi eitthvert frumkvæði eða styðji breytingar í þessa veru. Það er ekki hægt að ætlast til þess að verkalýðshreyfingin hafi frumkvæði að því eða styðji breytingar sem í raun og veru draga úr þeim forréttindum sem aðilar að henni hafa umfram aðra. Það er skiljanlegt að hún vilji halda í þau réttindi og ég geri enga kröfu til þess að Alþýðusambandið samþykki eða styðji þetta frv. Þykist raunar vita að Alþýðusambandið sé andvígt því og hef hér í höndum í skýrslu forseta Alþýðusambandsins um störf þess árið 1990 yfirlit yfir röksemdir þess í þessu máli. Ég er þeim bara einfaldlega ósammála og tel reyndar, eins og ég segi, að ekki sé hægt að ætlast til þess að verkalýðshreyfingin hafi forgöngu um eða styðji breytingar á þessu grundvallaratriði. Það verk verður Alþingi sjálft að vinna. Löggjafinn verður sjálfur að taka af skarið í slíkum efnum en ekki hlaupa undan eða skýla sér ævinlega á bak við afstöðu hagsmunasamtaka þó að þau séu merkileg og vinni þarft og mikið og gott starf í þjóðfélaginu.
    Hæstv. fjmrh. sagði hér opinberlega fyrir jólin 1989 í háðungartón að Alþýðusambandið væri nú engin ,,heilög kirkja``. Það var í tengslum við skattalagabreytingar sem þá voru til umfjöllunar og Alþýðusambandið hafði leyft sér að mótmæla. Mér dettur ekki í hug að tala um Alþýðusamband Íslands með þeirri háðung sem lýsti sér í ummælum hæstv. fjmrh. en ég hef hins vegar fullt leyfi til þess að vera þeim forsvarsmönnum Alþýðusambandsins, sem um þetta hafa tjáð sig, ósammála og svo er um þetta málefni. Hins vegar tel ég að þróunin í þessu efni sé augljós og að þessi breyting verði gerð á lögunum fyrr eða síðar, enda fær það ekki staðist að mismuna Íslendingum í þessu efni með þeim hætti sem nú er gert þannig að atvinnuleysingi í stéttarfélagi fái bætur en atvinnuleysingi sem ekki er í stéttarfélagi fái engar bætur. Þetta hlýtur að hverfa og því fyrr sem það gerist því betra að mínum dómi.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, herra forseti. Ég tel að greinar frv. skýri sig að öðru leyti sjálfar. Þær eru nákvæmlega útskýrðar í grg. með frv.
hver og ein og ekki ástæða til þess að rekja þær hér frekar. En ég vil í lokin vekja athygli á athyglisverðri hugmynd sem fram hefur komið á vettvangi Vinnuveitendasambands Íslands um atvinnuleysistryggingar gagnvart atvinnurekendum. Það mál er auðvitað annars eðlis en það sem hér er til umræðu og kallar á aðra löggjöf og öðruvísi og einhverja sjóðmyndun með frjálsum framlögum þeirra sem þess óska. En það er vissulega hlutur sem kæmi til álita á næstu árum að beita sér fyrir. Hins vegar tel ég að sú breyting sem hér er gerð tillaga um í þessu frv. sé það brýnasta sem við blasir að því er varðar lög um atvinnuleysistryggingar.