Atvinnuleysistryggingar
Miðvikudaginn 23. janúar 1991


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Þetta er í annað sinn á einu ári sem réttur til atvinnuleysistrygginga kemur til umræðu hér í deildinni. Hinn 2. maí sl. urðu allítarlegar umræður um þessi mál hér. Í þeirri umræðu komu fram flest rök með og á móti því að víkka réttinn til atvinnuleysistrygginga svo og nú í máli hv. flm. þessa frv. Því mun ég ekki lengja þessa umræðu nú með endurtekningum, enda mun mér væntanlega gefast kostur á að fjalla frekar um málið í nefnd. Ég vil aðeins taka fram eftirfarandi:
    Hlutverk stéttarfélaga er og á að vera mikið. En það er ekki hægt að verja það með nokkrum hætti að þau séu aðgöngumiði að jafnsjálfsögðum mannréttindum og atvinnuleysisbótum allra launþega. Þeir launþegar sem standa utan við stéttarfélög eru sárafáir og ástæður þeirra misjafnar. Langflestir kjósa að vera innan stéttarfélaga og hljóta að velja það áfram hvaða afgreiðslu sem þetta mál fær. Þótt sumum þyki sitt stéttarfélag e.t.v. mega vera snarpara í baráttunni fyrir bættum kjörum er þó meiri hagur að því að standa sameiginlega í launabaráttu og annarri réttindabaráttu en að semja einn og sér. Frá því eru fáar undantekningar.
    Ég sé engin rök fyrir því að takmarka rétt launþega til atvinnuleysisbóta, enda eiga vinnuveitendur allra launþega að greiða til sameiginlegs sjóðs til að standa straum af kostnaðinum. Sem betur fer eru þessi sannindi ljós forsvarsmönnum einhverra stéttarfélaga og ég vona að þeir sem enn hafa ekki viðurkennt þessi almennu mannréttindi geri það sem fyrst. Stéttarfélög þurfa að sanna ágæti sitt með öflugri baráttu fyrir bættum kjörum félaga sinna. Þau þurfa að sinna því meginhlutverki sínu. Ef þau gera það þurfa þau ekki að kvíða því að fólk kjósi að standa utan þeirra.
    Mjög er vegið að stéttarfélögum og réttur þeirra gagnvart stjórnvöldum hefur verið forsmáður, t.d. með setningu bráðabirgðalaga á frjálsa samninga. Stéttarfélög eiga mikið verk fyrir hendi að sækja samningsrétt og efla launabaráttu sína. Það er þeirra hlutverk en ekki að standa gegn því að allir launamenn njóti þeirra réttinda sem teljast til almennra mannréttinda nú en voru stéttarfélögum heilög barátta fyrir liðlega þremur áratugum. Stéttarfélög, eins og önnur félög, verða að skilja sinn tíma og skilja það að þeim ber að sækja fram á við en ekki líta til baka.