Atvinnuleysistryggingar
Miðvikudaginn 23. janúar 1991


     Flm. (Geir H. Haarde) :
    Herra forseti. Ég vil þakka þeim sem hafa tekið til máls um þetta málefni. Og sérstaklega hv. 10. þm. Reykn. fyrir þann stuðning, sem fram kom í hennar ræðu, við þetta þingmál.
    Ég tel að áhyggjur hv. 11. þm. Reykv. séu ekki á rökum reistar, a.m.k. vona ég það því það er ekki ætlunin með þessu frv. að grafa undan verkalýðsfélögunum með einum eða neinum hætti, enda held ég nú að þau hafi fleira upp á að bjóða félögum sínum heldur en þessi forréttindi til atvinnuleysisbóta. En það er alveg rétt sem fram kom í máli hv. þm. að þessi lög eru til komin í kjölfar samninga sem gerðir voru 1955 og eflaust er það rétt að verkalýðshreyfingin hefur alltaf litið svo á að hún hafi fórnað ákveðnum kauphækkunum á sínum tíma. Ég skal ekki draga í efa að sá sé skilningur verkalýðshreyfingarinnar.
    Hitt er aftur annað mál að ég tel alveg vafalaust að hefðu þessar tryggingar ekki komist á með þessum samningum 1955 og löggjöf í framhaldi af þeim þá hefði það auðvitað orðið eitthvað seinna. Þá hefði Alþingi með einhverjum hætti, kannski að frumkvæði verkalýðshreyfingarinnar og sennilega að frumkvæði hennar, beitt sér fyrir að lög um þetta efni yrðu sett. Ég held að árið 1955 og á árunum þar á eftir hafi nú velferðarvitund Íslendinga verið orðin það mikil almennt að menn hafi gert sér grein fyrir að þörf væri fyrir slíkar tryggingar og eðlilegt væri að leggja gjald á laun eins og gert hefur verið og bæta síðan við framlögum úr opinberum sjóðum, upphaflega bæði frá ríki og sveitarfélögum en núorðið eingöngu frá ríkissjóði.
    Ég held að þetta séu röksemdir sem ekki eigi lengur við, að það hafi verið borgað svo mikið fyrir þessi réttindi á sínum tíma í verkfallinu 1955 að það eigi enn þá að takmarka þessi réttindi við félaga í stéttarfélögum. Enda er það svo að það er búið að útvíkka réttindin heilmikið frá því sem var og þau ná núna til mjög margra hópa sem ekki komu nálægt þessu verkfalli 1955, höfðu ekki einu sinni verkfallsrétt þá en hafa nú fengið rétt til bóta úr Atvinnuleysistryggingasjóðnum svo fremi að menn séu í stéttarfélagi.
    Síðan er það spurningin: Hverjir eru þessi menn sem ekki eru í stéttarfélögum? Þeir eru mjög fáir. Það hefur komið fram í máli okkar allra. En menn geta verið það af ýmsum ástæðum, bæði vegna starfa sinna og af persónulegum ástæðum. Og ég tel óeðlilegt að þvinga menn til stéttarfélagsaðildar með þeim hætti að segja við menn: Þú getur fengið atvinnuleysisbæturnar þínar, góði, ef þú gengur í stéttarfélag. Ef það er ekki til í viðkomandi starfsgrein þá þarf viðkomandi að ganga í stéttarfélag í óskyldri starfsgrein. Um þetta eru því miður dæmi.
    Ég nefndi hér í minni ræðu og hv. 11. þm. Reykv. sömuleiðis, starfsmannastjóra og ráðningastjóra í fyrirtækjum. Ég veit ekkert upp á hvaða kjör slíkir menn eru ráðnir en það eru líka til starfsmenn samtaka, t.d. starfsmenn atvinnurekendasamtaka, sem eðli málsins samkvæmt eiga ekki heima í stéttarfélögum. Starfsmenn Vinnuveitendasambandsins eiga ekkert heima í neinu sérstöku stéttarfélagi að mínum dómi. A.m.k. held ég að það sé erfitt að gera þá að félögum í þeim félögum sem þeir eru að semja við. Hins vegar hefur ekkert á það skort held ég að tekin hafi verið launatengd gjöld af þeirra launum og greidd m.a. í þennan sjóð, Atvinnuleysistryggingasjóð. Þar er þá komið annað dæmi um það að mönnum er gert að greiða í sjóðinn án þess að fá réttindi til greiðslna úr honum ef viðkomandi verður fyrir þeirri ógæfu að verða atvinnulaus og missa sína tekjumöguleika.
    Þannig er þetta mál, herra forseti, frá mínum bæjardyrum séð. Þó fram hafi komið hér ákveðin andstaða frá einum hv. þm. vænti ég þess að frv. þetta fái vandaða meðferð. Ég er vissulega mér meðvitaður um að það er andstaða við þetta mál á ákveðnum stöðum, ekki kannski síst innan einhverra verkalýðsfélaga og hjá Alþýðusambandinu. En það breytir ekki því að Alþingi á að hafa hér síðasta orðið.
    Ég vildi láta það koma fram, herra forseti, að mér láðist að geta þess í minni fyrri ræðu að tillaga mín er að sjálfsögðu sú að þetta frv. gangi til 2. umr. og heilbr.- og trn.