Fyrirspurnir
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Þann 21. des. sl. lagði ég fram fsp. um dagpeninga ráðherra til hvers og eins ráðherra í ríkisstjórninni og óskaði svars hans. Fsp. þessi var heimiluð af forseta og dreift hér á hinu háa Alþingi og með því tel ég að ráðherrum sé í raun skylt að svara þeirri fsp. Nú hefur það skeð að ég hef fengið afrit af bréfi stílað til hæstv. forseta Sþ. frá heilbr.- og trmrn. sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Ráðherra vísar til bréfs forseta sameinaðs Alþingis frá 21. des. 1990 þar sem skýrt er frá því að lögð hafi verið fram fsp. til heilbr.- og trmrh. frá Inga Birni Albertssyni, um dagpeninga ráðherra. Þar sem samhljóða fsp. hefur verið lögð fyrir forsrh. svo og alla ráðherrana í ríkisstjórninni hefur orðið samkomulag um að fara þess á leit við forseta sameinaðs Alþingis að forsrh. svari fsp. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.``
    Nú vil ég spyrja hæstv. forseta hvort hér sé þinglega að farið, hvort ráðherra sem fái fsp. geti einfaldlega vísað þeim frá sér yfir á næsta ráðherra. Ég tel að svo geti ekki verið og get ekki unað þessari niðurstöðu, enda hefur hún ekki verið undir mig borin síðan þetta bréf var sent.
    Það má líka vitna í þingsköp varðandi fsp. en þar segir, með leyfi forseta, í 31. gr.:
    ,,Vilji alþingismaður óska upplýsinga ráðherra eða svars um opinbert málefni eða einstakt atriði þess gerir hann það með fyrirspurn í sameinuðu þingi er afhent sé forseta. Fyrirspurn skal vera skýr, um afmörkuð atriði eða mál sem ráðherra ber ábyrgð á og sé við það miðað að hægt sé að svara henni í stuttu máli.``
    Hæstv. forseti. Ég tel að það sé skylda ráðherra að svara þeim fsp. sem hér eru lagðar fram og samþykktar af hæstv. forseta og dreift á þingi. Ég óska úrskurðar forseta um þetta mál.