Dagpeningar ráðherra
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að flytja hér fsp. á þskj. 452 til forsrh. um dagpeninga ráðherra sem orðast svo:
    ,,Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að hið ,,ferðahvetjandi`` dagpeningakerfi ráðherra ríkisstjórnarinnar verði afnumið?``
    Ástæðan fyrir þessari fyrirspurn er það svar er ég fékk við fsp. um ferðakostnað ráðherra. Óhætt er að segja að það svar hafi vakið verðskuldaða athygli almennings.
    Ég vil taka það skýrt fram strax í upphafi að það er mín skoðun að við eigum ekki að vera með neinn nánasarskap við ráðherrana okkar, hverjir sem þeir eru hverju sinni. Þeir eiga vissulega að geta sinnt sínu starfi með fullri reisn, eiga til að mynda hiklaust að ferðast á Saga Class, búa á fínum hótelum o.s.frv. Þeir fá í dag allan kostnað greiddan vegna ferðalaga erlendis og er það vel. En það sem ég geri athugasemdir við eru hins vegar dagpeningagreiðslur þeirra og maka þeirra. Þær greiðslur eru að mínu mati algjörlega út í hött, reyndar siðlausar, og til þess eins að skapa ferðahvetjandi kerfi, m.a. kannski vegna þess að ráðherrarnir okkar hafa skammarlega lág laun.
    Auðvitað á að greiða allan kostnað vegna ferða ráðherra erlendis fyrir þjóðina og ef við treystum þeim til að stjórna þjóðfélaginu hljótum við einnig að geta treyst þeim fyrir t.d. greiðslukorti. Þau hafa þó þann kost að lítill vandi er að stemma af eyðsluna. En að ráðherra fái dagpeningagreiðslur ofan á allan greiddan kostnað er óviðunandi.
    Ég ætla ekki að ræða við aðra ráðherra en þann sem ég er hér að spyrja. Og ég vil spyrja: Finnst ráðherra það eðlilegt að hann hafi þegið á þeim 51 degi sem hann var erlendis á síðasta ári 573 þús. kr. eða 11 þús. kr. á dag í hreina launauppbót? Og á árinu 1990, og þó ekki öllu, aðeins níu mánuðum, 667 þús. kr. eða um 12 þús. kr. á dag í vasann? Þetta samsvarar á fjórða hundrað þús. kr. á mánuði. Finnst ráðherra það eðlilegt að maki skuli fyrir sama tímabil fá greiddar 699 þús. kr. í vasann? Eða hjónin samanlagt 1939 þús. kr. fyrir sama tímabil.
    Þetta er að gerast á tímum þjóðarsáttar þegar öllum er gert að þola kaupmáttarskerðingu, þá skuli ráðamenn þjóðarinnar leyfa sér slíkt. Finnst ráðherra það boðlegt þjóðinni að fara fram á fórnir við hana, að hún herði sultarólina á sama tíma og ráðherrar sópa skattpeningum almennings í eigin vasa?