Dagpeningar ráðherra
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil nú leyfa mér í upphafi að mótmæla því orðbragði sem hv. þm. hefur haft hér um að ,,sópa skattpeningum í eigin vasa`` o.s.frv. Þessu hefur ekkert verið breytt á tíma þjóðarsáttar af því að það var nefnt.
    Til að gefa nokkuð heillega mynd af þessu er nauðsynlegt að rekja hvernig dagpeningar hafa þróast og sömuleiðis hverjir dagpeningar annarra eru, t.d. hv. alþingismanna o.s.frv.
    Í upphafi síðasta áratugar voru dagpeningar ákveðnir þannig að hótelkostnaður var greiddur og fullir dagpeningar. Síðan er það 22. júní 1975 að Matthías Á. Mathiesen fjmrh. leggur fram í ríkisstjórninni tillögu um breytingu þar sem hann leggur til að auk hótelkostnaðar verði greitt 20% álag á venjulega dagpeninga hjá ráðherrum.
    Næstu breytingu sem gerð er á dagpeningakerfi ríkisins gerir Matthías Á. Mathiesen fjmrh. aftur 29. júlí 1975, eða rúmum mánuði síðar, þar sem segir samkvæmt bókuninni að ráðuneytisstjórar skuli fá 2 / 3 fullra dagpeninga opinberra starfsmanna auk alls hótelskostnaðar.
    Næsta breytingin sem gerð er á þessum dagpeningum æðstu yfirmanna í Stjórnarráðinu gerir síðan Albert Guðmundsson fjmrh. þann 22. ágúst 1984. Hann leggur það að vísu ekki fyrir ríkisstjórnina heldur bara tilkynnir þá breytingu þar sem segir:
    ,,Ákveðið hefur verið að sömu reglur gildi um aðstoðarmenn ráðherra og ráðuneytisstjóra varðandi greiðslur á ferðakostnaði er þeir mæta á fundum heima og erlendis með eða fyrir hönd ráðherra sinna.`` Þ.e. þeir fái greidda 2 / 3 hluta dagpeninga auk hótelkostnaðar.
    Næsta breyting er gerð 13. okt. 1985 einnig af Albert Guðmundssyni fjmrh. og er ekki lagt fyrir ríkisstjórnina, og ég held nú að í því tilfelli hafi það ekki verið sent í minnisblaði til forsrh., a.m.k. finnst það ekki, en samkvæmt skjölum fjmrn. er það ákveðið að greiddir verði fullir dagpeningar á ferðum erlendis þó einnig sé greitt fyrir hótel fyrir ráðuneytisstjóra og þar með aðstoðarmenn o.s.frv.
    Næsta breyting sem á þessu er gerð er þegar staðgreiðslukerfið er sett á fót. Þá er ákveðið af ríkisskattstjóra að skattleggja dagpeningagreiðslur sem eru umfram ákvörðun ferðakostnaðarnefndar. Með öðrum orðum að þegar hótelkostnaður er greiddur þá er lagður fullur skattur á helming
af dagpeningum og þessi 20% sem greidd eru umfram til ráðherra og reyndar forseta Hæstaréttar og nokkurra fleiri. Með þessu móti eru í raun dagpeningarnir lækkaðir um u.þ.b. 25 -- 26%. Það er lagður fullur skattur á um það bil 58% af heildardagpeningum ráðherra svo að þarna verður út af fyrir sig lækkun frá því sem fyrrv. fjármálaráðherrar höfðu ákveðið.
    Um svipað leyti eða 31. ágúst 1989 gerir Ríkisendurskoðun tillögu um reglur um greiðslu ferðakostnaðar vegna ferðalaga á vegum ríkisins. Þær eru

töluvert langar, þær eru nákvæmlega eins og þær hafa verið framkvæmdar fyrir ráðherra og t.d. forseta Hæstaréttar o.s.frv. og engin breyting þar á gerð svo að ég sé ekki ástæðu til að lesa það að nýju. Þar eru að vísu tekin fram atriði eins og um rétt ráðherra til að ferðast á Saga Class og svo rétt til þess að maki ferðist með ráðherra. Það er staðfest í þessum tillögum Ríkisendurskoðunar.
    Ég tel rétt einnig til upplýsinga að fyrir liggi hvernig þessu er háttað, t.d. hér á hinu háa Alþingi. Samkvæmt þeim reglum sem hér gilda, þá fá forsetar Alþingis sömu dagpeninga og ráðherrar samkvæmt því sem ég hef fengið upplýst, þ.e. hótelkostnað greiddan, fulla dagpeninga og 20% álag þar á. Samkvæmt þeim sömu upplýsingum er mér tjáð að aðrir alþingismenn fái hótelkostnað greiddan og fulla dagpeninga. Með öðrum orðum, þegar hv. þm. ferðast, þá er það ferðahvetjandi því að samkvæmt reglum ríkisskattstjóra geri ég ráð fyrir því að hann leggi skatt á helminginn af dagpeningum alþingismanna. Ég hef ekki heyrt að hv. þm. hafi kvartað undan því eða skilað því aftur eða eitthvað þess háttar.
    Ég sé einnig að starfsmenn Alþingis sem ferðast með þingmönnum fá sömu kjör sem er nú ríflegra heldur en hjá ríkinu. Þar er það ekki svo. Ég hef einnig látið skoða hvernig þetta er í bönkunum. Þar er sérstök ferðakostnaðarnefnd nema hjá Búnaðarbankanum. Þar er farið eftir þeim ferðakostnaði sem ríkið ákveður. En bankastjórar Seðlabankans eru þó að því er virðist á einhverjum sérkjörum. Þeir fá allan hótelkostnað greiddan og dagpeninga samkvæmt ákvörðun bankans. En aðrir bankastjórar ríkisbankanna fá sömu kjör og ráðherrar, forseti Hæstaréttar og forsetar Alþingis. Ég held að þetta gefi nokkuð heillega mynd.
    Síðan er spurt: Er ætlunin að breyta þessum dagpeningum? Ég hlýt að upplýsa að eftir að ég fór að skoða þessi mál vandlega, þá sýnist mér sannarlega þörf á því að skoða allt dagpeningakerfið frá grunni. Ég er sammála því að dagpeningakerfi á ekki að vera ferðahvetjandi, eins og hér er orðað, og má svo túlka, ef litið er á skilgreiningu ríkisskattstjóra. Ég lít hins vegar svo á að það sé ekki hvetjandi fyrir neinn að sitja á hótelherbergjum úti í löndum eða í flugvélum fram á nætur, um helgar o.s.frv. Ég vil gjarnan vera laus við eins mikið af því og ég mögulega get og vera heldur hér heima. Þannig að mér finnst öll þessi umræða satt að segja heldur furðuleg ef menn telja að svona ferðalög séu hvetjandi. Það getur vel verið að svo ungur maður og hress og hraustur eins og hv. fyrirspyrjandi hafi gaman af þessum ferðalögum. Það kann vel að vera. En ég a.m.k. er ekki einn í þeim hópi sem sækist eftir slíku.
    En það er rétt að þetta þarf að skoða. Ég er sammála hv. fyrirspyrjanda, það á að greiða allan kostnað. Mér líst ekki vel á að greiða með plastkorti fyrir leigubíla o.s.frv. Það gengur varla upp. Og ég vek athygli á því að það er rangt sem kom fram að allur kostnaður sé greiddur og dagpeningar. Vitanlega bera þeir sem ferðast ýmsan kostnað sem er ekki greiddur. Ég tel að það eigi að ákveða dagpeninga, við skulum segja þannig að þeir dugi örugglega og svo ekki meira, svo verði einstakur ferðamaður að vera ábyrgur fyrir því hvernig hann ver þeim, hvort þeir nýtast eða nýtast ekki. Ég hef því sett af stað athugun á þessu. Það er ekki í verkahring einstakra ráðherra annarra. Þeir hafa ekki með þetta að gera. Það eru forsætisráðherra og fjármálaráðherra. Og reyndar, eins og ég las áðan, hafa fjármálaráðherrar að því er virðist ákveðið dagpeninga æði oft upp á sitt eindæmi.