Dagpeningar ráðherra
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég tel að sú fsp. sem hér var fram borin hafi verið nauðsynleg. Það er mikil þörf á að ræða þessi mál eftir þá umræðu sem upp kom í vetur. Hér hefur hæstv. forsrh. rakið hvernig ákvarðanir hafa verið teknar varðandi dagpeninga þeirra sem ferðast á vegum ríkisins eða Alþingis og það sem ég undrast er að þarna hafa verið teknar einhliða ákvarðanir, eins og hann gat um, jafnvel án þess að svo mikið sem minnisblað hafi verið sent til ríkisstjórnarinnar á þeim tíma. Hann gat þess að þáv. fjmrh., Albert Guðmundsson, hefði tvisvar sinnum tekið slíkar ákvarðanir sem ekki voru bornar sérstaklega undir þær ríkisstjórnir sem sátu í hans tíð.
    Ég tek undir það sem hér hefur fram komið. Að sjálfsögðu á að greiða útlagðan kostnað en það á ekki að líta á dagpeninga sem launaauka. Við höfum á okkar snærum ferðakostnaðarnefnd ríkisins og henni er ætlað að meta þann kostnað sem af ferðalögum hlýst, hvort sem er innan lands eða utan og ég get ekki betur séð en hún geti metið jafnt fyrir Alþingi eins og aðra ríkisstarfsmenn.
    Ég fagna því að hæstv. forsrh. hefur lýst því hér yfir að hann vilji endurskoða dagpeningakerfið frá grunni. Ég hefði gjarnan viljað heyra að sú endurskoðun væri nú þegar komin í gang en ég vona að á þessu máli verði tekið hið snarasta.