Frelsi í útflutningsverslun
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Ég þakka flm. till. fyrir að flytja hana því að það er alltaf þörf á að ræða svo mikilvægt mál sem þetta er. Ég er hins vegar ekki alveg sammála því að tími sé kominn til þess að gefa þetta allt saman frjálst þó að það sé trúlega það sem öllum er ljóst að verði það sem kemur í náinni framtíð.
    Í fyrsta lagi er ekki um að ræða einokun í þeirri merkingu heldur einkaumboð sem allir framleiðendur hafa gefið t.d. SÍF, Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda. Þeir hafa einkaumboð allra þessara aðila. Þetta eru framleiðendur sem hafa komið sér saman um þessa aðferð að selja vöruna, allan saltfisk frá Íslandi undir einu merki. Á því eru að sjálfsögðu bæði kostir og gallar sem ekki er kannski tími til að fara nákvæmlega ofan í hér.
    En ég vil segja það, hæstv. forseti, að hinn endinn á þessum markaði eru fáir innflytjendur, t.d. um saltfisk. Það er öðruvísi heldur en með freðfisk. Það eru allt öðruvísi markaðsviðtökur t.d. á saltfiski og skreið. Það eru mjög fáir kaupendur, stórir innflytjendur sem ættu auðvelt með að ota íslenskum seljendum saman um að þessi bjóði svona lágt og þessi bjóði svona lágt og þar með er samkeppnin farin að virka á okkur sjálf.
    Við vitum það að samkeppni í vörusölu er hagur neytenda. Við erum seljendur á saltfiski og skreið t.d. þannig að því harðari samkeppni um sölu þeim mun betra fyrir neytandann. En spurningin er hvort það er kostur fyrir seljandann. Í skreið til Ítalíu sem við framleiðum eru t.d. tveir innflytjendur á Ítalíu, en það eru fjórir útflytjendur frá Íslandi. Engin skreið er seld öðruvísi en í gegnum þessa tvo innflutningsaðila.
    Að sjálfsögðu kunna að vera til einhverjir fáir markaðir þar sem einhverjir tilteknir einstaklingar gætu gert betur heldur en SÍF og þá er sjálfsagt að skoða það. En þá verður auðvitað að líta á þetta frá mestu hagsmunum. Umræðan er góð, tel ég. Þetta er það sem kemur þegar þessir markaðir opnast allir innbyrðis. En einfaldlega er fyrirkomulagið í saltfisksölu t.d. þannig að þar um að ræða mjög fáa innflytjendur og þetta er ekki mjög markaðsvætt þjóðfélag, ekki í þessum innflutningi. Þannig að ég hvet utanrrh. til þess að fara varlega í að breyta hlutum sem ganga vel, því nógu mikið af hlutum gengur ekki vel.
    Það er ekki rétt sem kom fram hjá hv. flm. að magn í útflutningi á ferskum fiski skipti ekki máli. Ég er hér með línurit fyrir árið 1989 sem sýnir þetta akkúrat, hvernig verðið dansar upp og niður, akkúrat eftir magni. Verðið hækkar þegar magnið minnkar og öfugt. Svo að það er ekki rétt.
    En varðandi útflutning á ferskum fiski vil ég segja það að ég tel að styrkir og tollar Evrópubandalagsins skekki þessa mynd það verulega að það vanti að lagfæra samkeppnisstöðu íslensks fiskiðnaðar
áður en hægt er að gefa það frjálst. Það þarf að lagfæra samkeppnisstöðuna gagnvart styrkjunum og gagnvart tollunum.
    Það er rétt hjá hæstv. utanrrh. að við eigum möguleika á markaði á ferskum flökum. Ég er hérna með tölur yfir það hvað þarf að borga í toll af ferskum flökum sem væru flutt með flugvélum. Það er ekki dýrt að flytja með Flugleiðum, kostar 40 kr. á kílóið. En í toll verður að borga 70 kr. Meðalverð í desember á ferskum þorskflökum með roði í Bretlandi var um 420 kr., þannig að þetta eru mjög mikilvægir markaðir og gífurlega mikið hagsmunamál að fá þessa tolla fellda niður. Hæstv. utanrrh. er að vinna í þeim málum og það eru gífurlega miklir hagsmunir fyrir íslensk fyrirtæki og íslenskt verkafólk að þessir tollar verði felldir niður. Sömuleiðis með saltfiskinn. Af saltfiski er borgaður 7% tollur að meðaltali. Gróft skotið gæti það þýtt að Grímseyingar hefðu þurft að borga 10 millj. á síðasta ári til Evrópubandalagsins í saltfisktoll. Ég spyr: Hafa Grímseyingar efni á því að borga 10 millj. í saltfisktoll til Evrópubandalagsins? Þetta er dæmi um skerta samkeppnisstöðu. ( JBH: Það er mjög gróft skot.) Það er mjög gróft skot, segir hæstv. utanrrh., það er ekki upp á aura, nei. En ég hvet hæstv. ráðherra til að flýta sér hægt í að breyta hlutum sem ganga vel þó okkur sé það öllum ljóst að þetta sé það sem kemur í framtíðinni, markaðskerfi. En hinn endinn á markaðinum verður að vera tilbúinn til þess að taka þátt í því svo við reiðum ekki svo hátt til höggs að kylfan komi í hnakkann á okkur sjálfum.