Athugun atvinnumála vegna hruns loðnustofnsins
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég er einn af meðflm. þessarar tillögu og vil leggja örfá orð inn í umræðu um hana þó að hv. 1. flm. hafi fylgt henni úr hlaði. Till. er til komin vegna alvarlegs ástands sem upp hefur komið varðandi loðnuveiðar og loðnustofninn og kveður á um athugun atvinnumála vegna hruns hans.
    Það er sannast sagna að miklum loðnuveiðum fylgir sú hætta að loðnustofninn hrynji ef ekki er varlega farið. Ég vil taka það fram í upphafi að ég tel að alla gát verði að hafa á í þessum efnum með veiðar loðnunnar og betra sé að stöðva veiðar um einhvern tíma en að taka þá áhættu að eyðileggja stofninn. Það er nú svo að hann er tiltölulega fljótur að ná sér upp ef varlega er farið. Má nefna sem dæmi að nú er landburður af loðnu við Noreg og löndunarbið en það er ekki nema tiltölulega skammt síðan loðnubrestur varð þar.
    Þó að við vonum það besta og þó við vonum að sú mæling sem gerð verður um mánaðamótin leiði eitthvað betra í ljós, við höfum þá von en enga vissu, er tímabært að líta sérstaklega á áhrifin á atvinnulíf þeirra staða sem hafa byggt að meira eða minna leyti á loðnuvinnslu.
Það eru nokkrir slíkir staðir í mínu kjördæmi þannig að ég þekki til þess hve víðtæk áhrif miklar loðnuveiðar hafa og ef þær bresta hve víðtæk áhrifin eru. Þau áhrif eru náttúrlega að sjómennirnir sem við þetta vinna missa sínar tekjur, útgerðirnar, hafnarsjóðirnir, og þar með bæjarsjóðirnir, og síðast en ekki síst verksmiðjurnar sem fá ekki hráefni til vinnslu. Þar að auki hefur þetta víðtæk og almenn áhrif á alla þjónustustarfsemi í þessum byggðarlögum eins og aflabrestur hefur ávallt. Það er nú þannig að flest þjónustufyrirtæki sem rekin eru í þessum byggðarlögum, t.d. járniðnaðurinn, netagerðirnar og allt sem fram fer í kringum þetta, byggjast öll á veiðunum.
    Tillagan kveður á um að Alþingi láti þetta mál til sín taka og athugi það sérstaklega. Ég er sammála því þó að sjálfsögðu sé sjútvrn. með þessi mál í vinnslu. Ég veit að verið er að skoða málefni verksmiðjanna og frv. er í undirbúningi varðandi loðnuflotann og aflaheimildir til hans og mun áreiðanlega koma á dagskrá Alþingis innan tíðar. Þá gefst auðvitað tækifæri til að ræða þessi mál betur þegar það kemur fram.
    Ég er sammála þessari þáltill. enda er ég einn af meðflm. hennar. Áhrifin af loðnubrestinum eru mjög alvarleg í byggðarlögum sem hafa byggt atvinnulíf sitt að meira eða minna leyti á þessum veiðum á þessum tíma. Hvað varðar Austurland þá er ekki ein báran stök þar því að síldarvertíð brást að nokkru leyti, ekki vegna aflabrests heldur vegna sölumála. Tekjur af síldarvertíð á Austurlandi eru því ekki nema svipur hjá sjón það sem af er þessum vetri. Þetta áfall kemur ofan í hið fyrra og ástandið er þá enn þá alvarlegra.
    Við vorum einmitt hér í morgun, þingmenn Austurlands, að ræða málefni Seyðisfjarðar sem byggir mjög mikið á þessum veiðum. Þetta áfall kemur ofan í önnur áföll á atvinnulífið þar og gerir það m.a. að

verkum að bæjarsjóður er ekki eins vel í stakk búinn til þess að taka þátt í atvinnuuppbyggingu á öðrum sviðum. Þannig er þessi keðjuverkun og þetta er þess vert að Alþingi athugi þessi mál, athugi hvað er til úrbóta. Sú vinna kemur til góða þegar til lengri tíma er litið því, eins og ég sagði í upphafi míns máls, auðvitað vonum við að það rætist úr þessu ástandi og þær mælingar sem fram undan eru leiði einhverjar betri fréttir í ljós en við höfum ekki leyfi til þess að byggja allan okkar málflutning á þeirri bjartsýni. Ég styð þessa tillögu og vona að hún fái skjóta meðferð.