Athugun atvinnumála vegna hruns loðnustofnsins
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Ég er mjög samþykkur þeirri tillögu sem hér er til umfjöllunar. En ég hefði samt talið eðlilegra að hún hefði verið flutt af hæstv. ríkisstjórn, af hæstv. sjútvrh. og það hefði verið gert strax og útlitið var á þann veg sem það er búið að vera núna a.m.k. frá því að síðasta könnun fór fram á loðnustofninum.
    Það mál sem hér er verið að ræða um er einmitt sá hluti vandans í kringum loðnubrestinn eða minnkun loðnustofnsins sem við þurfum að hafa sérstakar áhyggjur út af. Vandi loðnuflotans er ekki nema brot af vandanum. Þrátt fyrir það virðist ríkisstjórnin vera komin á annan endann út af því hvernig eigi að færa til kvóta á milli veiðiskipa til þess að laga stöðu hans. En það sem hér er vakin athygli á er svo margþætt, eins og hefur komið fram í ræðum hv. flm. sem hér hafa talað, að það er vandi sem verður að taka á á vegum opinberra aðila og einhvern veginn á þann veg sem hér er lagt til, að kosin verði nefnd til þess að kanna hvernig staðan er og leita beinna úrræða í þeim málum strax þegar stóri dómurinn kemur. Ef hann skyldi verða á þann veg að ástand loðnustofnsins væri þannig að ekki væri hægt að veiða úr honum nema eitthvað mjög lítið þá séu tilbúnar aðgerðir til að bjarga byggðum sem verða fyrir mjög miklum skakkaföllum ef svo fer sem horfir.
    Það hefur verið talið hér upp að það eru ekki aðeins verksmiðjurnar sem eru í vanda staddar heldur eru það sveitarfélögin, verkafólkið og þjónustustofnanirnar sem sinna loðnuflotanum þegar hann er á veiðum. Þetta er gerbreyting á atvinnuháttum þeirra byggða sem hafa búið við það sem stóra atvinnugrein hjá sér að vinna loðnuafurðir. Þingmenn Austfjarða hafa bent á það til viðbótar að það svæði sem er nú mest tengt þessum veiðum, þ.e. Austfirðirnir, hefur orðið fyrir öðrum atvinnuskelli einmitt á þessum síðustu mánuðum, þ.e. í sambandi við síldina. Ekki virðist vera neinn áhugi á því að athuga þetta grundvallaratriði fyrr en allt er komið í vanda, fyrr en fólksflótti byrjar. En það er hlaupið til handa og fóta og troðið inn í þingflokka ríkisstjórnarinnar frumvarpsuppkasti að tilfærslu á aflakvóta milli annarra fiskiskipa sem á nú kannski ekki að fara að blanda inn í þá umræðu sem hér fer fram. En mér finnst það ekki vera mál sem neitt liggur á, að skoða vandamál loðnuflotans sjálfs, fyrr en að því kemur að við fáum lokaúrskurðinn nú um mánaðamótin. Þá er sjálfsagt að skoða það en á allt öðrum grunni en ríkisstjórnin virðist vera að leggja til að eigi að gera.
    Hér hefur verið nefnt að í hafinu suðaustur af Íslandi og jafnvel austur af Íslandi er stór fiskstofn, nokkurra milljóna tonna. Við höfum vitað um hann í áraraðir en okkur hefur einhvern veginn ekki tekist að ná tökum á því að veiða hann, þ.e. kolmunnann. Og eins og hv. þm. Kristinn Pétursson benti á hafa ekki verið til peningar til þess að leggja út í rannsóknir, leggja út í þjálfun sjómanna, skipstjórnarmanna, í það að sækja í þennan stofn. Á sama tíma höfum við verið framsýnir á Austurlandi, eytt hundruðum milljóna, milljörðum jafnvel í það að kanna möguleika okkar í vatnsvirkjun. Við gerðum það fyrir löngu síðan og ekkert hvimpin yfir því þó að þær upphæðir hafi hrúgast upp og velt upp á sig vöxtum. Engin endurgreiðsla komið. Ætli hún hefði ekki komið fljótt, endurgreiðslan, ef við hefðum kannað kolmunnastofninn og komist upp á lag með að veiða hann, sem ég er ekki í nokkrum vafa um að muni gerast ef í það verður lagt fjármagn?
    Hv. þm. Kristinn Pétursson nefndi líka að við höfum þær gleðilegu fréttir af norska loðnustofninum, Barentshafsloðnustofninum, að hann er mjög stór núna og þar er mjög mikil veiði. Og eins og hv. þm. nefndi mun vera löndunarstopp hjá fiskiskipum í Noregi upp í fjórir sólarhringar þó þeir sigli með sinn afla af miðunum svipaða vegalengd og til Íslands og jafnvel lengri. Mér er sagt að leiðin af miðunum til Álasunds sé upp undir svipuð og til Austfjarða. En það er ekkert gert í því, ja, ég vil ekki segja ekkert, ég hef grun um að eitthvað sé gert, en ríkisstjórnin okkar virðist ekki vera mikið að kanna það hvort það sé ekki möguleiki að fá eitthvað af þessum flota sem liggur bundinn við bryggju í Noregi og bíður eftir því að fá löndun, til þess að koma til Íslands og skaffa hráefni í þær verksmiðjur sem eru núna verkefnalausar. Nei, heldur er hamast við það í sjútvrn. að búa til frv. um það að taka kvóta af þorskveiðisjómönnum vítt og breitt um landið, reyna að skapa atvinnuleysi á Vestfjörðum, Norðurlandi, búa til enn þá meiri vanda út úr þeim vanda sem við blasir.
    Það er í sjálfu sér sorglegt að við þessa umræðu, sem ég tel að sé mjög mikilsverð og málið er mjög mikilsvert, að það skuli enginn ráðherra taka þátt í þessu, ekki hæstv. sjútvrh. ( Gripið fram í: Hann er erlendis.) Því miður er hæstv. sjútvrh. erlendis. En hver skyldi sinna störfum hæstv. sjútvrh.? Trúlega hæstv. forsrh. sem væri þar með og er í eðli sínu jafnábyrgur og hæstv. sjútvrh. í því að taka á þessu mikilsverða máli. Getur það verið að það sé af því að hæstv. ráðherrar séu orðnir það stórir upp á sig að þeir geti ekki litið á merk frv. þingmanna jafngilt því að þeir séu að flytja málin sjálfir? Þó hér sitji ágætis ríkisstjórn, þá held ég að ráðherrar megi aldrei gleyma því að þó að þeir hafi góða yfirsýn í málum þá getur hún stundum brugðist og það hefur gerst núna. Ráðherrar hafa ekki sinnt þeirri skyldu sinni að standa að því að flytja mál svipað þessu inn á hv. Alþingi og sjá til þess að það yrði afgreitt á mjög stuttum tíma og það yrði valið forustulið til að vinna á þann máta sem hér er lagt til, sem væri viðbúið og gæti strax hafið undirbúning að því að taka á þessum málum ef svo fer að loðnuveiði verður svo gott sem engin og hráefni til verksmiðjanna þar af leiðandi ekki neitt og við blasir það vandamál sem
menn hafa verið að lýsa hér. En því miður, ríkisstjórnin virðist ekki átta sig á þessum vanda. En þótt svo sé ekki þá vænti ég þess að hv. nefnd sem fær þessa tillögu til umfjöllunar taki hana til umfjöllunar strax á morgun og komi með þetta mál helst á mánudag hér inn á hv. Alþingi aftur þannig að það geti fengið þá umfjöllun sem það þarf og þeir menn sem yrðu valdir til þeirra starfa sem hér er lagt til geti hafið störf nú þegar.