Athugun atvinnumála vegna hruns loðnustofnsins
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil lýsa fylgi mínu við þessa tillögu og væri full ástæða til þess að sú nefnd, ef kosin yrði, mundi líta á fleira í sambandi við atvinnuástand, þ.e. hinn skerta kvóta eða þá skertu aflaheimild sem t.d. lítur út fyrir að smábátarnir fái og þau alvarlegu áhrif sem það hefur. En ég ætla nú að geyma mér að ræða það mikið þangað til sjútvrh. talar fyrir sínu frv. sem er væntanlegt um þennan sjóð sem átti að vera til þess að hjálpa þessum stöðum. T.d. var sagt hér í ræðustól af hæstv. sjútvrh. þegar það mál var á dagskrá að Kópasker væri einn af þeim stöðum sem ætti að sitja fyrir að fá úr þeim sjóði einhvern kvóta af því að þeir misstu skipið sem þeir notuðu til bæði rækjuveiða og þorskveiða. Það var verulegur kvóti sem þeir misstu þegar þeir misstu skipið. Ef þeir fá ekkert mun það valda því að sá aðili sem vinnur fisk þar fer á hausinn og það fólk sem hefur unnið hjá honum fær ekki atvinnu. Þetta mál er því ekkert einfalt.
    Ég er nú eins og hv. þm. Kristinn Pétursson ekki búinn að missa alveg vonina um að það finnist loðna. Ég er ekki nógu vel að mér í þeim málum hvort það getur verið að loðnugöngur hér í Norður - Atlantshafi og jafnvel til Barentshafs breyti sinni göngu og hvort það getur verið einhver skýring. A.m.k. er það alveg sannað mál að þorskurinn gerir það. Hér á árunum þegar kaldast var í sjónum gekk hann lengra suðaustur í haf. Þá var mikill afli í Færeyjum einmitt á þeim tíma. Það hef ég eftir mjög glöggum skipstjórum sem voru alveg vissir um að þetta hefði þá skeð. En verði það niðurstaðan að loðnuskipin fái þorskafla, þá hlýtur það að vera hlutverk þeirrar nefndar sem kosin verður, því ég efast ekkert um að þessi tillaga verður samþykkt, það væri nú skárra, að róa fyrst og fremst að því öllum árum að það yrði skilyrt að þeir sem fá aflaheimild leggi upp á þessum stöðum þar sem verksmiðjurnar eru og þar sem fólkið hefur misst atvinnuna og sveitarfélagið þar með tekjur af þessari starfsemi.
    Hins vegar skulum við gera okkur grein fyrir því að það eru ákaflega skiptar skoðanir um þetta mál. Það er vegna þess að fyrir nokkrum árum urðu menn að velja hvort þeir veiddu loðnu og veiddu síld og þá voru það 43 -- 44 skip sem ákváðu að veiða loðnu. Þegar þetta er orðið þannig að öll útgerð, öll sjósókn, er komin í svo þröngan stakk að hún kemst ekki í hann, margir eru að gefast upp, sérstaklega á smábátunum, þá er vandinn ærinn. Þess vegna skora ég á þá menn sem fara í þessa nefnd --- mér þykir það ákaflega líklegt að 1. flm. að þessari tillögu verði í þessari nefnd þó að ég ekki viti það, en mér finnst það líklegt --- að skoða þessi mál líka því það er líka alvarlegt. Þetta er allt alvarlegt þegar svo er komið að maður má ekki veiða loðnu, kvótinn fyrir t.d. smábátana er svo að þeir geta ekki lifað af því og verða að selja og hvernig standa svo byggðarlögin sem byggja verulega afkomu sína einmitt á þessum bátum, fyrir utan ýmsa vitleysu sem er í þessum lögum sem ég ætla að

geyma mér að tala um þangað til hæstv. sjútvrh. er hér í salnum.